mánudagur, nóvember 17, 2003

Kæru lesendur!
Bloggið mitt hefur verið ritskoðað og það er ekki einu sinni liðin vika frá fyrstu færslu. Því miður get ég eðli málsins ekki skýrt ítarlega frá málavöxtum að svo stöddu, en það sem ég þori að egja er að pólitískir andstæðingar mínir hafa komið í veg fyrir að ég ljóstri upp um aðgerðir, sem fólust í því að þeir sviptu sjálfa sig meðvitund til að komast hjá því að ljóstra upp um leyndarmál.
Það hryggir mig að atburðir þessarar litríku helgar (þ.e.a.s. þeir sem ég man eftir) verði af þessum sökum að hyljast grárri móðu fyrir augum lesandans.


Og þar sem helginni er lokið, þá er gleði minni allri lokið. Og var rétt í þessu að stíga út úr járnburði þeim er nefndur er Íslenskt mál að fornu. Umtalað er hversu leiðinlegt er að sitja þessa tíma, en leiðinlegt er ekki orðið sem ég hefði valið. Martröð væri sennilega nær lagi. Og þó, það er til lítils að velja orð. Þessi reynsla á sér hvergi hliðstæðu annars staðar í veruleikanum, og þ.m. ekki í tungumálinu, og verður því vart miðlað eða lýst með orðum. Á köflum líður mér eins og ég hafi étið skemmt korn, og þá trúi ég að maðkar nærist á kvikum líkama mínum. Nei, það er ekki hægt að segja frá því, það krefðist þess að ég veldi hinu óorðanlega orð. Mætti ég heldur biðja um að mér verði rænt af Tyrkjum, eða að ég farist úr hungri eftir að allur búfénaður minn deyr af flúor-eitrun í Skaftáreldum. Til að vera jákvæður (en slíkt er mér mjög fjarri skapi) minni ég sjálfan mig á að mæting í tímanna er friðþæging. Ég kemst ábyggilega til himna þegar ég dey.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home