Þessi mynd er tekin af mér við störf í O.Johnson og Kaaber húsi við Sætún, þar sem ég, ásamt Karli Ágústi samstarfsfélaga mínum, vinn að leiksýningu með fjármagni frá bæði ríki og borg. Ég birti hana hér í því skyni að miðla á einhvern hátt - og efast raunar að það takist - því hugarástandi sem fylgir vinnu á borð við mína. Starf mitt fellst nefnilega að töluverðu leyti í hangsi; að ígrunda og taka ákvarðanir um að rækta hugmyndir sem ímyndunarafl mitt framleiðir, og mætti hæglega útleggja það ferli sem fíflagang. Sjálfsagt þykir mörgum það skjóta skökku við að meginumfjöllunarefni sýningarinnar - sem enn er ekki annað en hugarburður, skýjaborg, vindgnauð í hrörlegum merkingarvita á hjara hins skiljanlega - er raunveruleikinn eins og hann birtist okkur í nútímasamfélagi. Auðvitað verður niðustaða sýningarinnar einhvern veginn á þá leið að raunveruleikinn sé framleiðsla okkar, að munur milli merkingar og þeirra áhalda sem við notum til að koma henni áleiðis sé óáþreifanlegur og blablabla.
En ég nenni ekki að ræða það frekar. Raunar er þessari skýrslu að nokkru leyti ætlað að hreinsa mig í stundarkorn af þessari fræðiloku, því eins og þeir sem eru kunnugir mér ættu að hafa orðið varir við er ég ófús eða óhæfur til að ræða nokkuð annað en þetta starf mitt þessa daganna. Í dag er laugardagur og ég er að reyna að taka mér frí. Í dag vil ég að hangs mitt hafi enga merkingarbæra afleiðingu eða þýðingu.
Góðar stundir.
1 Comments:
Ég er með samviskubit, og einhvernveginn læðist að mér sá grunur að ég hafi gert skelfileg mistök.
Brjóttu fót.
Skrifa ummæli
<< Home