mánudagur, ágúst 20, 2007

Á skrifstofutímum, reyndar líka stundum á kvöldin og um helgar, en þá að jafnaði í 8 stundir í senn (e.t.v. væri hægt að nota hugtakið vaktavinna í þessu samhengi), situr tiltölulega illa tilhafður, svartklæddur og útitekinn maður á sama bletti, á rist fyrir utan pósthúsið beint á móti íbúðinni minni. Oftar en ekki hefur hann í frammi ræður, með tilheyrandi handapati, sem hann beinir að skiltum og lofti í nánasta nágrenni, tölur mér illskiljanlegar, en þar gæti takmörkuð kunnátta mín í tungumáli heimamanna riðið baggamuni. Ég sé hann iðulega út um gluggann eða þegar ég bregð mér út á svalir. Þegar hið seinna á við finnst mér eins og hann reyni að hafa samband við mig með bendingum og merkjasendingum. Hvað hann vill mér, og hvort hann vill mér nokkuð á annað borð, er mér algjörlega á huldu. Þrisvar hefur hann orðið á vegi mínum (eða ég á hans) á öðrum stöðum í borginni: í fyrsta skiptið í nágrenni við fjölfarna lestarstöð, næst á Rosenthaler-torgi í skrefa fjarlægð frá heimili mínu, og þar með aðsetri hans, og nú síðast fyrir utan eftirlætiskaffihús þar sem ég sat í sólinni og drakk límónaði. Í öll skiptin var ég uggandi um að hann teldi nærveru mína uggandi; að hann þekkti mig af svölunum og teldi sennilegt að ég væri að veita honum eftirför. Mér finnst nefnilega sennilegt að hann sé sú manngerð sem býr yfir ranghugmyndum og gefur sér óeðlilegar orsök fyrir samhengi hluta og uppröðun þeirra í veröldinni, þ.m.t. nærveru ákveðinna einstaklinga þar sem þeirra er ekki vænst. Því hef ég eftir fremsta megni, þegar ,,fundum'' okkar hefur borið saman, lagt fæð á hann og farið huldu höfði svo hann bæri ekki kennsl á mig. Sem betur fer hefur hann, að því er virðist, ekki enn veitt mér eftirtekt. Ég findist óþægilegt að eiga eitthvað sökótt við þennan mann, hvaða ástæður sem kunna að búa þar á bak við.









0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home