sunnudagur, júní 24, 2007

Ríkissjónvarpið brást ekki fræðsluskyldu sinni þessa vikuna og sýndi tvær heimildamyndir um aðkallandi málefni. Sú fyrri fjallaði um hvernig hlýnun jarðar og bráðnun er ekki einvörðungu komin til manna vegna og ekki endilega ávísun á heimsenda eins og sumir svartsýnismenn hafa viljað meina. Þetta fannst mér gleðilegur boðskapur af því að ég styð atvinnulíf og finnst álverum, olíuhreinsistöðvar og annar orkufrekur iðnaður áhugaverður kostur í atvinnulífi þjóðarinnar. Þess fyrir utan finnst mér gaman að keyra bílinn minn og er búinn að borga of mikið í bílalán til að fara að hjóla upp brekkur eins og heimskingi. En strax næsta kvöld var sýnd mynd þar sem fullyrt var að hlýnun jarðar væri á ábyrgð manna og að það væri skylda okkar gagnvart komandi kynslóðum að spara orku og finna upp orkugjafa sem ekki brenna jafn miklu kolvetni og þeir sem við höfum. Mér fannst erfitt að mynda mér skoðun og skipti því yfir á Skjá1 (það er því miður búið að rugla Sirkus) og horfði á skemmtilegan þátt af Life according to Jim. Gömul kærasta Jim kom í heimsókn og það var uppi fótur og fit á heimilinu þegar slettist upp á vinskapinn milli gömlu kærustunar og eiginkonu Jims. Ég samsamaði mig vel með viðfangsefni þáttarins því ég dreg í efa að minni konu myndi líka það vel ef einhver af mínum gömlu vinkonum bankaði upp á, þó að það sé sennilega ekki að fara að gerast.

Góðar stundir!
Fr. Pjetur Zoëga

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég fagna því að rödd þín sé farin að hljóma á öldum bloggsins á ný á. Rödd þín er hljómmikil, eins og lúður, og hún vísar okkur veginn.

11:09 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home