miðvikudagur, október 31, 2007

Hausthækan

Brá mér til Berlínar um helgina að hitta borgina og nokkra góða vini, þar á meðal Sebrarjúpuna okkar sem kurrar friðuð í bláum lyngmóum menningarinnar og unir sér vel. Svefn og annir þessara vina gáfu mér þó rými til að ganga um haustslegnar göturnar og virða fyrir mér visnað mannlíf. Ég fékk mér kaffi í götumál og settist á bekk í garði þar sem menn og hundar gengu hjá undir laufregni. Mér fannst eiginlega ekkert annað viðeigandi að semja hæku sem umsvifalaust braust út í framheilann, nánast fullsköpuð ef frá er talinn síðasta línan sem ómyndaðist við að myndast, rétt eins og hún tregaði sumarið og vildi þess vegna varna því eins lengi og mögulega væri unt að ég kæmi blæ- og árstíðarbrigðum í orð. Ég var búinn að ákveða að línan hæfist á orðinu "Garðurinn" - 3 atkvæði sem þýddi að ég átti 2 eftir, upplagt til að enda á andlagslausri sögn; "Garðurinn þagnar" eða "Garðurinn þegir" var meðal þess sem ég var að hugsa en það passaði ekki alveg. Það var hreyfing og hljóð í þessum garði þótt hann týndist hægfara og sveimandi niður á jörðina. Þá bar að mann sem virtist ekki með nokkru móti gera sér grein fyrir að ég var að semja hæku, og gat sér þess til að vera mín á bekk í almenningsgarði klukkan hálfellefu um morgun gæti ekki fyrirstillt annað en að mig vantaði eiturlyf – sem hann og bauð mér. Hugur minn og sál var hins vegar í svo eftirsóknarverðu jafnvægi sköpunar að ég hafnaði boðinu ítrekað. Og nú datt mér í hug, fullur af kerskni og galgopahætti, að hafa lokalínuna í hækunni “Garðurinn býður mér eiturlyf”, en það er að sjálfsögðu allt of mörg atkvæði og auk þess óljóðrænt. Ég breytti hins vegar uffsiloni í einfallt og lét það standa: “Garðurinn bíður”. Hækan hljómar því svona, fullsköpuð og fullkomin:
-

Gul laufblöð falla.

Ég kom með tvö sokkapör.

Garðurinn bíður.
-

Unnendur ljóðlistar bið ég vel að lifa. Góðar stundir.

1 Comments:

Blogger katrín.is said...

þú ert stórkostlegt skáld friðgeir
gaman að heyra frá þér!

5:25 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home