þriðjudagur, desember 02, 2003

Nei, þetta í­ gær var að sjálfsögðu eins og hvert annað bull. Ég er ekkert svona þunglyndur og ég er nú aldeilis ekkert að fara að kála mér eða neitt svoleiðis (það vill nenfinlega brenna við að fólk túlki orðsendingar sem ekki hafa jákvæða uppsveiflu rétt undir lokin sem berorða og ótvíræða sjálfsmorðshótun). Hér er einfaldlega um að ræða misskilning. Ég hélt að ef ég fengi tækifæri til að skrifa um allt sem býr mér innvortis, jafnvel oft á dag, að ég gæti málað lungu mí­n og lifur öðrum litum en aðrir af því að ég er svo einstakur. Það er hins vegar rugl, lungu mí­n eru jafn bleik, lifrin er jafn rauðbrún og blóðið sem þau eru löðrandi í­ er jafn dökkrautt og allra annarra. Ég er alls ekki einstakur. Lífið snýst ekki um frumleika, altént er frumleiki hvorki vistlegur né lífvænlegur fyrir manninn og dýrin í­ kringum hann (sbr. American Idol (og í­slenska afbrigðið) sem hefur lýst yfir stríði á hendur frumleika og sköpun og er jafnframt vinsælasta sjónvarpsefni veraldar). E.t.v. kann ekki góðri lukku að stýra að leita inn á við, þar er ekkert að sjá nema vessa og vefi, sem er viðfangsefni læknisins og læknar ættu einmitt ekki að taka áhættur, þ.m.s. að sú gjörð að orða hlutina á einhvern hátt frábrugðinn hefðbundnu mynstri sé stórhættuleg. Því­ segi ég að sinni skilið við sjálfan mig - ég er leiðinlegur - og leita út á við og mun aðallega halda mig á yfirborðinu. Bless.

Minn frómi vinur, Hannes Óli, launaði mér aðstoð í­ vinnunni með fallegri gjöf. Þessi gjöf samanstóð af plastbikar og þremur loftþéttum bréfpokum sem innihéldu duft, mæliskeið og leiðbeiningabæklingi, en allt þetta gekk undir safnheitinu Sea Monkeys. Hér er þó ekki um að ræða um eiginlega apaketti, og heldur ekki saltvatnsskepnur, en áður en söluaðilum verður stefnt skal bent á að hér eru lifandi verur á ferðinni. Og þvílí­kar verur. Apakettirnir eru í­ raun sáralitlar ferskvatnsrækjur sem hýrast í­ forðaeggi þangað til aðstæður verða nógu góðar til að þær geti klakist út. Ég sáði þessum eggjum í­ hreinsað vatn ofan í­ plastbikarnum og árangurinn lætur ekki á sér standa. Út hafa klakist glæsilegar litlar rækjur sem sjást ef ég lýsi með lampa gegnum vatnið. Og ég þarf ekki að nota nema brotabrot af höfðinu mí­nu þunga til að í­mynda mér að þær séu ekki algjörlega ólí­kar syndandi mannfólki sem hefur eiginleika örsmárra skeldýra. Svo eru lí­ka myndir í bæklingum af sjóapaköttunum með andlit eins og manneskjur með kórónur og stór og falleg bros. Darwin getur farið að éta hattinn sinn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home