föstudagur, apríl 09, 2004

Stutt úttekt á heilbrigðisþjónustu á Íslandi

Ég spilaði knattspyrnu í nokkrar mínútur í gær með félögum mínum úr Stúdentaleikhúsinu, eða þangað til að ég varð fyrir ótímabæru og einkar sársaukafullu óhappi, og í nokkrar mínútur þar á eftir leið mér eins og dananum sem mölvaði á sér hnéð á EM ’92 móti Hollandi, ég man aldrei hvað hann heitir. En eftir að konurnar á Slysó höfðu fullvissað mig um að ég væri hvorki brotinn né slitinn og að hnúðurinn á öklanum væri bólga en ekki brot, og eftir að hafa þegið frá þeim tvær 500 mg parkódín forte var ekki örgrant um að mér liði eilítið skárr. Ég keyrði mig sjálfur milli hæða á spítalanum í hjólastól og gerði hlutlægar athugasemdir án allrar afleiðslu, eins og að u.þ.b. helmingur allra sem voru á Slysó á skírdagseftirmiðdegi blóðugir og með öndunartregðu eða í sjúkrarúmum með kraga og næringu í æð voru innflytjendur. Ég gerði tilfinningalausar athuganir eins og þá að illalyktandi kerling vandlegadúðuð ofan í rúllurúm með slöngur í nefið, muldrandi, hálf-grátandi þurfti að bíða meðan ég, fótboltameiðurinn, fór á undan henni í röntgen. Og einhvern veginn var mér skítsama og raunar hurfu allar áhyggjur eins og dögg fyrir sólu. Það helsta sem hrjáði mig var hugmyndin um að lenda í gifsi, því ég átti að sýna um kvöldið, sem ég og gerði gifslaus því ég er bara tognaður, en draghaltur, og á tímabili í sýningunni leið mér eins og ég léki aðalhlutverkið í uppfærslu Halaleikhópsins á My Left Foot. En þá var parkódín-víman ekki enn runnin af mér, þannig að mér var bara nokk sama.

Það er samt með ólíkindum hugnanlegra að fara á Slysó en t.d. til augnlæknis, og það eru ekki bara verkjalyfin sem ríða baggamuninum þar um. Raunar er við hæfi að dópa niður þær ólánssömu sálir sem þurfa að dúsa langtímum saman á biðstofunni. En ekkert slíkt er þar í boði, bara kaffi, ekkert venjulegt kaffi heldur kaffi sem er beinlínis, hreint út sagt og vífilengjulaust mannskemmandi og satt best að segja ógeðslegt.

Ég lenti nefninlega í því að fá flís í augað, en það henti einmitt líka í Stúdentaleikhús vafstri og sjálfsagt eru einhverjir sem vilja setja samansemmerki milli þessa meins og tíundaðra fótameina minna, en þeim skal þá bent á að ég hef nánast ekki gert annað síðustu tvo mánuði en að vafstra með Stúdentaleikhúsinu. Í kjölfar augnflísarinnar (sem reyndist þegar altt kom til alls gera tilkall til að kallast bjálki) sat ég í þrígang heilan eftirmiðdag á þessari steingeldu biðstofu og sötraði kaffi. Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum þurfti égr að bíða í tvær klukkustundir á biðstofunni í öll skiptin þrjú, og það átti líka við um alla hina sem voru staddir á þessu auma pastelgræn tómi við Eiríksgötu (og bíða þar sjálf sagt enn). Á meðan ég beið hafði ég ekkert fyrir stafni nema að lesa tveggja ára gömul Séð & Heyrt blöð sem lágu í búnka í einu horni stofunnar.

Eftir að hafa lesið tvisvar um fótbrot og skeggvöxt Brad Pitt, um skilnað foreldra Britney Spears, um klæðnað Hilton-systranna á myndbandahátíð MTV, um krumpaða lotugráðuga konu í Noregi, um nýjan kærasta Chloe, um fund Leoncie og Sigurjóns Kjartanssonar í Sandgerði, um afmælisveislu DJ Sóleyjar, um ljóðlist og þunglyndi Evu Sólan, um kynþokkafyllsta mann heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu 2002 og um gömlu konuna á Eyrarbakka sem horfði á alla leikina og tók þá athyglisverðustu upp, og eftir að hafa yfirfarið öll rittákn undir glanshúðinni á síðum tveggja ára gömlu Séð & heyrt blaðanna í búnkanum, og eftir að hafa lagt hvert þeirra frá mér einu sinni og tekið þau síðan öll upp aftur til að gera könnun á hversu margar Séð & heyrt stúlkur vinna í bakaríi (9 af 21) og lagt þau síðan frá mér aftur, og eftir að hafa rótað í gegnum bunkann aftur í leit að einhverju blaði sem ég var ekk búinn að lesa og endað með að lesa lengstu greinarnar aftur, nú í þriðja sinn, og eftir að hafa lagt þau öll frá mér aftur þegar klíník-daman gekk inn en kallaði ekki nafnið mitt heldur nafn zen-búddistans við hliðina á mér (hann hét Guðmundur) sem hafði setið þarna kjurr síðan ég kom en ekki svo mikið sem gjóað augunum undan þykku gleraugunum sínum á blaðabunkann sem lá á borðinum á milli okkar, og eftir að hafa horft á manninn fara inn til læknisins, eftir að hafa lagt hægri fótinn yfir vinstra hnéð, eftir að hafa hrist fótinn í hartnær mínútu, eftir að hafa sett fótinn niður á gólfið og seilst í blað efst í búnkanum (mynd Dorrit Mussajeff framaná) en hætt við á miðri leið, eftir að hafa staðið upp, gengið að kaffikönunni, tekið upp plastmál, dælt kaffi í bollann upp til hálfs, gengið aftur að pastelgræna sætinu, sest, og eftir að hellt í mig kaffi sem reyndist (rétt eins og fyrir 20 mínútum) ógeðfelldara en morðið á Sharon Tate og eftir að hafa hugsað með sjálfum mér í sjötta skiptið „ég drekk ekki meira af þessu“, og eftir að hafa lagt frá mér bollann og eftir að hafa tekið upp efsta blaðið úr búnkanum, eftir tveggja klukkustunda bið á biðstofunni var ég kominn á fremsta hlunn með að fara bara.

Það var þá sem ég var kallaður inn. Læknirin skoði mig í samtals tvær og hálfa mínútu og sagði síðan að ekkert væri hægt að aðhafast frekar, bæjó. Þegar ég var síðan í andyrinu að borga 1700 kr. fyrir úrskurðinn, heimtaði þýski augnfræðingurinn að ég kæmi aftur daginn eftir.

Daginn eftir átti það nákvæmlega sama sér stað.

Á þriðja degi,eftir að augnlæknirinn hafði í þriðja skiptið úrskurðað að ekkert væri hægt að gera nema bíða, og skammað þýska augnfræðinginn í leiðinni, ítrekaði þýska fraukan enga síður boð sitt um næstu heimsókn mína. Þá loksins mannaði ég mig uppí að segja að ég gæti ekki staðið í frekari viðtölum og biðstofusetum, og að það væri mér of dýrt. Og hún varð ekki einu sinni móðguð, rukkaði mig bara 1700 kr. í síðasta skiptið og gaf mér þriðja lyfseðilinn.

Það er kannski erfitt að átta sig á boðskap þessarar sögu, en kanski er hann sá að vera ekki of kurteis, það borgar sig einfaldlega ekki þegar þýskir augnfræðingar standa í stórræðum við að félfletta mann. E.t.v. er einhver að lesa núna að hugsa: „Og ég var of kurteis til að hætta að lesa þegar ljóst yrði að boðskapurinn yrði enginn.“ Já, jú, en það er svo sem ekki mér að kenna. Það er bara alltaf erfitt að finna endi. Ég sleppi því bara, étiði skít.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home