þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Þeir sem búa í svokölluðum ,,þriðja heims löndum" eða í ,,óvestrænum" ríkjum eru síduglegir við að kveinka sér og væla yfir því hvað það sé erfitt að búa við þær aðstæður sem eru í boði, að það sé hörmulegt að búa við stríðshörmungar, hungusneyðir, þrældóm og sjúkdóma. Þetta fólk er greinilega helsetið af þeim naívu eiginleikum sem hvíla á yfirborði allra yfirborðssvamlandi og barnalegra manna, að halda að bara af því að þeir gráta, þá gráti allur heimurinn með þeim. Það eru margir sem eiga sárt að binda, ég get svo sem fallist á það, en ég held að vælukjóarnir átti sig ekki á að það er margt erfiðara en það sem þeir ganga í gegnum. Til dæmis ber eitt það djöfullegasta sem mannvera getur lent í aldrei á góma í fjölmiðlum eða í þessari dæmalausu sífeldu volbylju, þá er ég að sjálfsögðu að tala um að halda út reglulegu bloggi. Ég hef sopið marga fjöruna í þeim efnum og ekkert fengið til að skola því niður nema einstaka sopa af eigin meðali. Það er með ólíkindum hvernig þessi þriðjaheimsskríll getur litið framhjá þessu, meðan ég læt ekki heyrast múkk í mér, held bara áfram og kvarta ekki.

Þessa daganna dvelst ég á bæ Björns bónda, sem vinnumaður hans. Eftir að mér var sleppt gegn tryggingu úr gæsluvarðhaldi (vegna skipta minna við iðnaðarmann) tók ég áskorun Björns um glímu. Skemst er frá að segja að ég tapaði með skömm, bóndinn tók mig sniðglímu á lofti og skellti mér á höfuðið. Þegar ég vaknaði höfðu liðið þrír dagar og þess vegna hef ég bloggað svona lítið upp á síðkastið. Ég ílengdist hér í sveitinni til að hugsa ráð mitt. Það er býsna mikið að gera hjá á búinu og lítill tími fyrir blogg. Til að mynda bloggar Björn sjálfur æði sjaldan. Við erum bara fjögur í búi: Björn, konan hans, niðursetningurinn og ég (Björn kallar mig reyndar líka niðursetning). Á nóttinni þykist ég sofa, en raunar er ég að lesa við kertaljós. Ég les talmeinafræði fyrir próf á föstudaginn. Já, það er svo, ég hyggst strjúka á morgun úr vistinni, og mæta í prófið á föstudagsmorguninn hvað sem Björn segir. Ég hef tekið eftir að þegar hann hefur lokið sér af við að berja mig og snýr sér að hinum niðursetningum, er hugur hans allur við verkið, og ég fæ að vera óáreittur í augnablik. Það er þetta augnablik sem ég mun nota til að strjúka. Það væri því mjög vel þegið ef eitthvert ykkar gæti komið á bíl og beðið á veginum fyrir neðan bæinn Neðraból í Eyjafjarðasveit, á milli kl. 14:55 og 15:02 á morgun. Súr lundabaggi og smjörklína í boði fyrir hjálpsaman aðila.

Ykkar,
Friðgeir Einarsson, bústólpi.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home