sunnudagur, febrúar 29, 2004

Human is beautiful, perfect is boring!
-T. Banks

Blöðin sem ég hef afrekað að fletta í gegnum í dag, eru uppfull af fullyrðingum þess efnis, að fólki sé hollast að nýta sér ,,bónusdaginn", þ.e. hlaupársdagurinn sem kemur bara á fjögurra ára fresti, til að gera eitthvað uppbyggilegt eða koma einhverju í verk sem setið hefur lengi á hakanum. Ég vil gera þá athugasemd að hér er ekki um neinn béskotans bónus að ræða, þar sem þessi dagur hefði runnið upp hvort sem er, hvað nöfnum sem við köllum hann. Afstaða okkar til tímans skiptir tímann engu máli, hvort sem hann er afstæður eða ástæður. Og þess fyrir utan er afstaða tímans til okkar eins og afstaða hafsins til svifa. Þessi dagur er alveg jafn mikil viðbót og hver annarr, hvaða nöfnum sem við nefnum sandkorn í eyðimerkurbreiðum stundarglass eilífðarinnar.

Samt sem áður hef ég fundið mig knúinn til að skrifa hlaupárspistil. Og umræðuefnið er ekki af verri endanum.

Undanfarnar vikur hef ég notið þess að fylgjast með raunveruleika sjóvarpsþættinum ,,Americas next Top Model." (Hér skal það áréttað að, ólíkt flestum öðrum segðum undirritaðs, er framangreind segð sönn). Ég vil ekki reyna að breiða yfir þá staðreynd að áhugi minn á þáttunum grundvallast af mannfyrirlitningu. Þarna kemur nefninlega saman dágott safn af nautheimsku fólki sem keppist um að láta eftir sig meinfyndin ummæli og atferli, hvort sem um er að ræða þátttakendur í fyrirsætukeppninni eða dómarar. Það er engin önnur en þokkadísin Tyra Banks sem stjórnar þáttunum og þreytist hún seint á að uppfræða stúlkurnar sem keppa um ágæti Tyru Banks sem fyrirsætu og hvernig allur heimurinn lýsist upp þegar hún brosir. Af einhverjum ástæðum voru flestir keppendurnir kristnari en Jesús og voru býsna duglegar að útbreiða boðskap frelsarans í orði, en ekki á borði, og það varð einnig til að glæða kaldan fyrirlitningaeld minn.

Síðasti þáttur var lokaþáttur og gerði ég mér nokkrar væntingar miðað við það sem á undan hafði gengið. Og ekki brást tískubransinn. Í þáttunum keppti ein stúlka sem ólíkt flestum hinum virtist vera mjög gáfuð. Í lokaþættinum ræddi hún við dómaranna að útlitsmunur karla og kvenna ræðist af hormónum, og að kvenlegt og fínlegt útlit væri til komið vegna góðs skammts af östrógen hormóni. Dómararnir komu af fjöllum og höfðu aldrei heyrt minnst á þetta hormón. Þeir komust svo að þeirri niðurstöðu að gáfur umræddrar stúlku gætu aðeins orðið henni til trafala í tískuheiminum, og að hún virkaði yfirlætissöm þegar hún útdeildi úr brunnum visku sinnar. Að því sögðu var henni vísað úr keppni. Þess má geta að þessi stúlka hafði riðið röftum í keppninni fram að þessu, og taldi ég hana öruggan sigurvegara. En mér finnst samt að tíunduð leikslok hafi verið mun meira viðeigandi. Kornið sem fyllti mælinn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home