laugardagur, febrúar 14, 2004

Mig dreymdi draum í nótt:

Ég var staddur á sveitabænum þar sem amma og afi bjuggu þegar ég var lítill og varð vitni að því þegar karl og kona, sem ég þekkti í draumnum, kölluðu fram eldauga upp á himininn, líkt og það sem var í Lortinum, enda fannst mér í draumnum að þetta væri nýstárlegur og betri endir á myndinni en sá sem var í bíó. Alltént, þegar augað var komið upp á himninn yfir bæjarfjallinu, sýndi parið því sverð, sem virtist ekki mjög efnilegt. Þau brutu sverðið og við það frostnaði augað.

Því næst var atriðið endursýnt og konan spurði mann sem sat við skrifborð í túninu við bæinn hvort hann hefði séð þetta, og jújú, hann hafði sarpað myndskeiðinu inn í tölvuna sína af netinu.

Næst man ég ekki betur en ég hafi verið í skálaferð með Stúdentaleikhúsinu sem virtist að mestu ganga út á eiturlyfjaneyslu. Ferðin var fljótlega orðin að æfingu niðri í Hskóla og það vakti athygli að leikstjórinn okkar frá síðasta ári, Þorleifur, var að æfa annað verk með öðrum leikurum í stofunni á móti. Hann var málaður í framan eins og indjáni, sat gleiður með lófanna á hnjánum og starði þögull á mig yfir ganginn. Ég var sá eini sem heilsaði honum.

Og svo var ég staddur aftur í sveitinni hjá ömmu og afa. Og nú var kominn heil skrifstofa á bæjarhlaðið. Starfsmennirnir voru allir breskir. Ég veitti því athygli að einn var sláandi líkur knattspyrnumanninum Mark Hughes (eða hvað hann nú hét) sem lék með Manchester United. Ég spurði hann hvort hann væri ekki sá sem ég hélt en hann sagðist þá vera Jason, bróðir hans, og var með húfu sem vottaði um það. Ég fullyrti að bróðir hans hefði spilað með Grindavík í sumar, og þarna hefur Hughes runnið saman við Lee Sharp í huga mínum. Það kom á daginn að þessi bróðir var heyrnarlaus en gat lesið af vörunum. Hann vildi sem minnst ræða um veru bróður síns á Íslandi og fékkst loks til að segja að hann dó stuttu eftir heimkomuna úr hjartaáfalli. Mér þótti þetta mjög miður og vildi komast að því hvernig það hefði gerst.

Næst man ég eftir að ég var að ganga út afleggjarann frá bænum upp á veg. Þá rak ég augun í síma sem ég einhvern veginn vissi að hefði verið í eigu Hughes/Sharp. Ég snéri við og lét símann í té búlduleitu dreng sem hafði verið í samfloti við mig áður (áköfum freud-þenkjandi draumgreinendum skal bent á að ég var alltaf grannur drengur, ekki búlduleitur). Ég sagði stráknum að skola moldina af símanum og setja hann svo á ofn í fjóra tíma. Eftir það ætti að vera hægt að kveikja á símanum og komast að því hvað kom fyrir Hughes/Sharp á Íslandi, sem olli því að hann fékk hjartaáfall. Hér líkur draumnum.


Mér fannst ég þurfa að deil þessu með öðrum (þ.e. skrifa þetta niður, ég efa stórlega að einhver nenni að lesa þetta). Þetta er bara nýjasta hjá mér, kom undir í nótt, þegar ég ætlaði ekki að framleiða neitt nema hrotur. Það elsta hjá mér er að sjálfsögðu allur ég sjálfur, sem kreistist slímugur og grenjandi inn í þennan heim fyrir 23 árum. Sá sem þar var á ferð var þó ekki elsti ég, 9 mánuðum áður var ég sæði, þar áður var ég blóð, Guð má vita hvað ég var þar áður, kannski pulsa eða fiskbolla úr dós. Já, þessir fingur sem slá inn á lyklaborðið eru 23 ára í dag, nýr draumur - gamlar hendur, það var það sem ég vildi segja. Mér datt nefninlega í hug, og vildi koma því að, að þessar hendur, og þessir fingur, eru kannski ekki að velja saman lykla eins haganlega og sjálfið inni í heilanum telur sér trú um: Hvað ef ég er ekki að gera þetta af fullri meðvitund - ekki frekar en mig dreymi meðvitað - hvað ef ég slæ bara niður höndunum eins og api slær með beini eða iðnaðar,,maður" slær með hamri? Já, er það ekki sú sama tilviljun sem ræður því að ég fæddist Friðgeir og varð Hskólamaður en ekki frumstæðari prímati? Er það ekki sama tilviljun sem ræður því að heyrnarlaus bróðir Lee Sharps og ég ræða saman á bóndabæ við Laugarvatn, í sama draumi í einu höfði í Reykjavík? Er það ekki sama tilviljun sem ræður því tæplega 24 ára pulsa, heldur uppá meint afmæli sitt með því að berja á plastbakka og glottir yfir eigin hugsunum þegar hún sér hvað örlögin draga upp úr hatti sínum og birta á skjánum?

Já, örlögin, einmitt. Þetta er engin tilviljun. Þetta er kerfi, eitt alsherjar kerfi, sem ólíkt draumnum, og ólíkt barningi mínum, lútir lögmálum, röklegum lögmálum. Það getur ekki verið tilviljun að fanir og klaufir í hakkavék í SS, sem seinna var sprautað inn í svínsþarma og selt í brauði á Austurstræti, sumarið árið 1980, hafi fyrir algjöra hendingu breyst í gráa fituklessu, vandlega pakkaða í forðlög inni í haganlega mótaðri og kúptri kalkúrfellingu, og að þessi gráa fituklessa komist að þeirri niðurstöðu að rafstraumarnir sem fara í gegnum hana séu mun betri en rafstraumar í gegnum aðrar pulsur eða bollur eða rúnstykki með osti eða pizzur eða saur, bara af því að þessi ákveðna klessa veit hvernig í pottinn er búið.

En veit klessan það? Og ef hún veit það, að í pottinum kraumar hálftkíló af mör, steikt í örbylgjugeislum sem kallast hugsanir, veit klessan þá nokkuð hvað leynist handan barma pottsins, fyrir ofan pottlokið? Og hvað er fyrir utan eldhúsið er út í það er farið, og verður einhvern tímann farið út í það? Ég held ekki, ekki meðan ég er á lífi. Ég á nefninlega ekki nema svona 77 ár eftir, gefið að ég yrði 100 ára og það er svo sem ekki gefið. Og loksins þegar við komumst að einhverju merkilegu varðandi þetta allt saman, þá verðum við ekki lengur við, við verðum ekki lengu mennsk. Við verðum dauð, við öll, og þeir sem tala og svara verða ekki menn, kerfið/tilviljun munu ráða því að það verða aðrar og þróaðari skepnur sem tala ekki íslensku og ekki einu sinni ensku. Þau munu reiða sig á kerfi sem síður tilviljunum háð. Og sjálfsagt verður deilt um svörin þá líka. En hvað veit ég svo sem um það.

Góðar stundir.

[Allur menntahroki og aðdráttanir í garð iðnaðarmanna í þessari grein, sem og í öðrum greinum mínum í fortíð og framtíð, er uppgerð og ber ekki að túlka sem einlæga skoðun höfundar. Slæmt umtal um verkamenn og fólk sem ekki hefur kosið að stundanám í Háskóla er einungis til þess fallið að stuðla að leiðindum, svo ekki sé minnst á sárindi, í hinum eiginlega heimi sem stendur sjálfstæður óháð ofangreindum orðum, jafnt sem orðum og hljóðum um gervallan heim.]

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home