föstudagur, apríl 30, 2004

[Þeir sem eru að leita að undirskriftasöfnun gegn tónleikum Paul McCartney þá fer hún fram hér að neðan (lau. apr. 24. yfirskrift: Áskorun)]

Ég er staddur á Þjóðarbókhlöðunni, sem er svosem ekki í frásögur færandi. Enda hafði ég ekki hugsað mér að miðla frásögn að þessu sinni heldur hughrifum. Ég áði nefninlega í andyrinu á áðan og gæddi mér á Júmbósamloku og kókmjólk, sem er einmit alls ekki í frásögur færandi. Nema hvað, að þarna er staddur þessi rauði köttur, Brandur eða Funi eða hvað hann heitir. Ég strauk á honum bakið og hann virtist kunna því vel, en samskipti okkar ristu ekki dýpra að þessu sinni, enda eigum við fátt sameiginlegt annað en að hafa komið nokkrum sinnum fram á síðum dagblaðanna undanfarin misseri. Þetta er í sjálfu sér í frásögur færandi - og er þetta í næstsíðasta skiptið sem ég ætla að slá upp þessum frasa - nema hvað niður tröppurnar gengur rauðhærð kona einbeitt og akademísk á svip. (Áhugamönnum um frásagnarfræði er bent á að sögumaður hefur skyndilega breytt úr þátíð í nútíð, sem bendir til þess að frásögn sé hafin). En þegar menntakonan sér köttin lifnar yfir henni eins og munaðarleysingja sem hefur tekist að endurvekja foreldra sína með stofnfrumugjöfum. Það var eins og hún sæi í logandi feldi kattarins vonarneista, klappaði honum vel og lengi, lét ekki þar við sitja, tók hann upp og handfjatlaði hann og brosti sínu harmfirrta brosi. Kötturinn reyndi að umbera meðferðina, en var nóg boðið þegar konan (sem nú skal tekið fram að var á fimmtugs- eða sextugsaldri) setti hann upp í runnann sem eru í öðrum marmarapottinum í andyrinu. Nú reyndi kisi að láta í veðri vaka að honum væri sárlega misboði og stökk aftur niður á gólf, en konunni var sléttsama, handsamði hann aftur og kom honum fyrir uppi í runnanum. Stuttu eftir að rauðar hærur konunnar flöksuðu á ný í vindinum handan rennihurðanna í andyrinu, fór rauði kötturinn - sem eftir aðfarirnar hafði ekki fundið eyrð í sér til að leggjast aftur á mottuna og brosa nautnalega við aðkomumönnum - út, og sjálfsagt kemur hann aldrei aftur. En þetta var svosem ekki í frásögur færandi.

Og þá að hughrifunum: Það er sérkennilegt til þess að hugsa að köttur, sem sækir í það að láta klappa sér, eins og katta er siður, verði frægur. Það hlýtur einkum að vera sérkennilegt fyrir eigendurnar að vakna einn morguninn og fletta morgunblaðinu og sjá köttinn sinn á baksíðu. Kannski eru eigendurnir óuppgötvaður rithöfundur sem hefur gefið út þrjár ljóðabækur sem enginn hefur skrifað gagnrýni um, eða nýútskrifuð leikkona sem fær ekkert að gera, aldrei komið í Séð & heyrt og enginn lítur hornauga þegar hún fer út í bakarí um morgun í miðri viku. Hlýtur að vera svekkjandi, er það ekki. Það hlýtur líka að teljast sérkennilegt að vera seleb, og allir sem auðkenna þig strjúki á þér bakið eða taki þig jafnvel upp og láti þig upp í runna.

Ég held jafnvel að eftir þessa frásögn (hún var það víst) og meðfylgjandi hughrif, hafi ég uppgötvað lykilinn á smáborgarafrægð (mini-celebretism). Trykkið er (fylgist nú vel með) að vera á röngum stað á kolröngum tíma - en - láta líta út fyrir að þér líki það ágætlega. Eða hvað, Geir Ólafs? Leoncie? Simmi og Jói? Siggi Hlö og Valli Sport? Eyþór Arnalds?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home