laugardagur, apríl 24, 2004

Áskorun

Nú nýverið barst mér til eyrna að einhver samtök hálfvita hér á Íslandi hafi byrjað að safna undirskriftum til að fá Paul McCartney, höfund Obladi-oblada, Bang bang Maxwell Silver og Silly Love Song til að halda tónleika hér á Íslandi. Þetta væri svo sem ekki frásögur færandi, frekar en önnur heimskuleg uppátæki, nema hvað að 2000 Íslendingar hafa skrifað undir þessa áskorun.

Ekki er þó öll nótt úti enn, og gera má ráð fyrir að þeir sem ekki hafa skrifað undir, hartnær þrjúhundruð þúsund manns, séu þessu með öllu mótfallnir. Þar sem ég er (greinilega ekki alltof) frægur áhugaleikari í Reykjavík, sem hefur komið fram í sjónvarpi og blöðum, sem og á plaggötum í miðbænum; og þar sem ég hef áður lagt í vana minn að nota nafn mitt til að styrkja brýn málefni, t.d. með því að safna undirskriftum gegn illum áformum, þá ætla ég aldeilis ekki að láta mitt eftir liggja að þessu sinni.

Nú hvet ég alla, sem ekki kæra sig um að Paul McCartney og hans lýður mengi íslenskt þjóðlíf með tónleikahaldi, til að skrifa nafn sitt og fyrrihluta kennitölu, ásamt velvöldum níðyrðum í garð vonda bítilsins (ef tungan fæst ekki hamin), í ummælagluggann hér að ofan (merktur Comment). Stöndum saman.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home