mánudagur, desember 15, 2003

Hefðir og venjur

Á þessum vef hefur skapast hefð fyrir ýmsu, svo sem að byrja hverja færslu á að afskaka þá síðustu. Þetta kann að fara í taugarnar á einhverjum, en ef við spyrjum okkur sjálf: er öll okkar ræða ekki fólginn í því að bera í bætiflákann fyrir það að vera til? Ég get ekki ímyndað því hverju þið hafið svarað, enda er ég einn hérna í myrkrinu undir flúorljósunum á Þjóðarbókhlöðunni. Því verð ég bara að svara fyrir sjálfan mig og láta aðra svara fyrir sig. Í heimi kristninar er hefð fyrir því að biðjast afsökunar á öllu frá vöggu til grafar (og jafnvel leitað lengra fram og aftur). Og þar sem ég hef týnt Guði einhvers staðar neyðist ég til að demba yfir ykkur, samferðarmenn mína, eldregni af leiðindum. E.t.v. er þessi plága er sprottin af niðurbældri þrá eftir yfirbót fyrir að ég sé á lífi en ekki einhver annarr. ,,Enginn ámælir/ þeim undir björgum/ liggur lifandi/ með limu brotna,/ og hraunöxum/ holdi söxuðu,/ að ei hann æpir/ eftir nótum." Vafalaust orka þessar afsökunarbeiðnir þó tvímælis því í heiminum er til fólk sem myndi drepa fyrir að hafa þann tíma sem ég ver í þessi skrif. Fólkið myndi ekki verja tímanum í skrif, né heldur til að losa flóðgáttir fyrir bældar tilfinningar, þetta fólk myndi leggja sig. Til að reyna að mæla bót fyrir sjálfan mig mun ég í augnablik beina sjónum mínum að umheiminum.

Það er nóg úr að moða í fréttatímum um þessar mundir. Saddam er fundinn og minnir óneitanllega á Karl Marx, enda orðinn vel skeggjaður eins og helstu illmenni sögunnar og óvinir Bandaríkjanna gegnum tíðina (ótrúlega hentugt, ekki satt!), Keikó er allur og farið hefur fé betra. Ef einhver hefur þörf á yfirbót fyrir að eyða dýrmætum tíma af lífi sínu í vitleysu þá er það fólkið sem borgaði í Free Keiko-sjóðinn.

Það merkilegasta sem ég hef þó frétt undanfarna daga er að tveir karlkyns elskendur í Þýskalandi komust að samkomulagi um að annar myndi éta hinn hægt og hægt meðan hinn væri enn á lífi. Þeir ku víst hafa byrjað á fætinum, svo étið hinn fótinn, en að lokum var erótíkin og kynferðislega spennan í sambandiinu orðin slík að gerandinn kom fram vilja sínum við ástina sína, drap hann og snæddi svo leifarnar. Ekki er með öllu útséð hvort mannætan fái háan dóm því að ástarleikirnir voru teknir upp á myndband og þykja myndböndin staðfesta að veislan fór fram að yfirlögðu ráði beggja aðila.

Það sem félagsráðgjafarnemi á þrítugsaldri benti mér á er að ástmögur mannætunnar var verkfræðingur, sum sé langskólagenginn. Þetta, vildi hún meina, ætti að draga að einhverju úr menntahroka mínum. Á þessari síðu er enn ein hefðin fólgin í því að að hylla nám og menntamenn á kostnað ólangskólagenginna. Hér verður ekki staðar numið. Nei, það er sama hvaðan gott kemur. Ef það að vera étin gefur þér hamingju, þá láttu éta þig. Og ekki segja að það sé jafnvel afbrigðilegra en að svívirða móður sína. Setjum upp jöfnu: Langskólagengnir eru betri og æðri en allir og allt milli himins og jarðar. langskólagengnir taka þátt í kynferðislegur mannáti. ERGO: Kynferðislegt mannát er fróm og heilbrigð iðja sem meðal annars langskólagengnir taka þátt í. Hví ekki að verja tíma sínum í það.

Góðar stundir!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home