mánudagur, desember 15, 2003

Nú þegar nýja brumið er endanlega farið af þessu bloggi, er undirritaður er ekki aðeins búinn að biðja hlutstæð og óhlutstð fyrirbæri ítrekað afsökunar á mislyndi sí­nu í­ von um að hann hafi ekki fælt burtu lesendur, heldur er hann lí­ka farinn að bregða á það ráð að reyfa atburði helgarinnar, til að feta þann venjubundna stí­g hins almenna bloggara að blaðra um það smásmugulegasta í fábrotinni tilveru sinni til þess að engum detti í­ hug að hann bindi bagga sí­na öðrum hnútum en samferðamenn sínir. Ég biðst hér með afsökunar á þessum kamelljóns-töktum, jafnframt því að bloggarar eru beðnir afsökunar á ofangreindum ummælum, og í­ kjölfarið ætla ég að segja frá einhverju sem tengist mí­nu ofurhversdagslega og vægast sagt stundlega lífi.

Einhverjum lesendum er sjálfsagt í­ fersku minni að í­ niðurlagi færslu sem birtist á þessum vef fyrir nokkru, var Darwin sagt að éta hattinn sinn. Með þessari (annars vanhugsuðu) skýrskotun var að sjálfsögðu vísað til þróunnarkenningu Charles Darwsins, sem kom út um miðja 19. öld og byggði á athugunum sem þessi enski náttúruvísindamaður gerði varðandi mismunandi fínkutegundir á Galápagos-eyjum og í Puerto Rico. Það var niðurstaða mín í­ grein minni að fyrirbæri sem kallast Sea Monkeys kollvarpi, eða altént ætti að kollvarpa, heimssýn okkar á þvílíkan hátt að þróunarkenning Darwins, sem á sínum tíma olli þónokkrum straumhvörfum, mætti sín lítils í samanburði. Hér var að sjálfsögðu um innantómt paródískt háð að ræða og bar að taka því­ með litlum hátíðleika og engri alvöru (ókunnugum er reyndar bent á að gera yfirleitt öll ummæli mín í­ ræðu og riti ómerk, annað er ósynja). Þegar sjóapakettirnir (sem eru raun ferskvatnsskeldýr) hurfu svo fyrirvaralaust, hugðist ég halda spauginu áfram og segja að Darwin gæti svo sem ælt út úr sér hattinum aftur og þvegið hann á 90 gráðum (en eins og flestum er kunnugt er Darwin löngu dáinn og því er hér á ferðinni enn eitt spaugyrðið frá undirrituðum (Friðgeir er nú meiri kallinn)). En þegar ég undirbjó skrif þar sem Darwin yrði beðinn afsökunar birtust apakettirnir skyndilega á ný og aldrei sprækari. Og hananú! Hvað skilur þá þessi texti eftir og hvers virði er hann? Hann skilur ekkert eftir og er með öllu tilgangslaus, sem og tilvera mín og okkar og skrif Darwins, því­ eins og við vitum skapaði Guð okkur öll og hrifsar okkur í­ burtu þegar honum sýnist svo (og gerir undirritaður sig sekann um að endurtaka eigin brandara síðan í gær í örvæntingarfullri, en árangurslausri viðleitni til að gæða skrif sí­n tilgangi).

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home