þriðjudagur, janúar 27, 2004

Vegna fjölda áskoranna ætla ég ekki að leggja síðuna niður að svo stöddu. Þið sem viljið skora á mig að hætta getið skrifað mér bréf, krumpað því saman og troðið því upp í rassgatið á ykkur, og kúkað því síðan út um munninn á ykkur, þaðan sem allt frussið kom til að byrja með. Þetta á einkum við ónefndan aðila sem lét eftir sig ummæli varðandi síðustu færslu. Ummæli hans eru ekki aðeins óumbeðin, þau eru ósynja og óforbetranleg. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að Sólmundur er sjálfur álíka spennandi og fata full af köldu vatni, sem stendur bak við stæður af brettum og plastbökkum fyrir frosinn fisk í vöruskemmu á hafnarbakka. Hvað sem því líður...

Ég fylgdist með norðurljósunum í gær ásamt Seltyrningnum, og hafði ærna ástæðu til að verða innblásinn af óskynsamlegum, lífsfylltum anda sem hefði gert mér kleift að koma reynslu minni í orð- og þó, nei. - Ég gerðist æði menningarlegur um helgina, birti ljóð á netinu, las nýju bókina eftir Sjón, horfði á kvikmynd efti Almódovar og hlustaði á píanósónötur Beethoven. Eftir helgi hef ég síðan átti fundi með Hallgrími Helgasyni og Hjálmari H. Ragnarssyni (tónskáldi og rektor listaHáskólans) í tengslum við þá leiksýningu Stúdentaleikhússins sem stendur fyrir þrifum. Til að bíta höfuðið af skömminni hef ég gert ráðstafanir til að fara á sinfoníutónleika annað kvöld (4. sinfonía Sjostakóvits).

-En í miðjum dans norðurljósanna gat ég ekki betur séð en þau væru að umbreytast í einhverja mynd. Jú, það var að myndast andlit, kunnuglegt, ekki persónulegt, nei, sjómaður, já, söngvari: upplýst ásjóna Kalla Bjarna teygði sig yfir gervallan næturhimininn, rafmögnuð græn og fjólulá.

Hvers virði er menning? Svar mitt: hún er einskis virði! Hver sá sem starir á norðurljósin og stjörnurnar hlýtur að verða meðvitaður um hverfulleika og stundlega tilveru manna og menningar. Brunnur menningarleysunnar er jafn djúpur og ótæmandi og himinngeimurinn frá ystu mörkum til þeirra ytri. Hefur Kalli Bjarna ekki tekið eilífðina rækilega í stjörnuna með söng sínum? Hefur hann ekki rennt getnaðarhljóðnema sínu djúpt ofan í hyldýpi tímans, niður botnlausa þarma geimsins og kitlað blöðruhálskritilinn handan óendanleikans?

Jú, ótvírætt, það hefur hann svo sannarlega gert. Ég viðurkenni það núna að mér hefur skjátlast. Menntun er ekki svarið! Menntun er öngstrætið. Kalli Bjarna, Idol og plebbismi: það er svarið. Framvegis mun ég ekki leggjast svo lágt að reyna hefja mig upp yfir aðra með menntun minni, nei, ég ætla að hætta námi, hætta að tala, hætta að hugsa: taka þátt.

Frá og með næstu færslu nýr og hugsunarlaus Friðgeir.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home