laugardagur, janúar 24, 2004

Af hverju hætti ég ekki bara? Meðan fúskarar, snarhugsuðir, þágufallssjúklingar og aðrir móðurserðar um allan bæ fá einkunnina ,,góðir pennar" hefur enginn fyrir því að segja mér hvað ég er frábær. Ef þið haldið að ég standi í skrifum á borð við þessi, á fyrirlitlegum vettvangi á borð við þennan, bara til að veita innsýn inn í mitt líf mitt eða tjá mig og koma frá mér því sem liggur eins og mara á hjarta mínu, þá skjátlast ykkur hrapalega. Ég er að þessu fyrst, fremst og einvörðungu til að fá hrós, gjöriði svo vel að gefa mér það!

Ég ætla að gefa ykkur eitt tækifæri enn, og á ég von á heillaóskaskeytum og að farin verði blysför að heimili mínu (Laugateigur 3, 105 Reykjavík; Verð heima til kl. 17 á morgun og síðan eftir kl. 19; Þið getið líka hringt á undan ykkur).

Nú á dögunum fjallaði ég um hina afburðaslöku ljóðagerð menntleysingjans John Lennons. Og ég hef enga löngun til að fara ofan af því. Sömu sögu má segja um Halldór Laxness, Sephan G. Stephansson, Stein Steinarr og James Hetfield: allt eru þetta ómenntaðir vesalingar sem aldrei lögðu leið sína í háskóla; sumsé ömurleg skáld.

Öðru máli gegnir um mig. Ég er nemandi við virtasta háskóla á Íslandi og er hef hlotið menntun sem ljóðskáld. Ég hef einingar í ljóðagerð. Það má því heita með eindæmum að ég skuli ekki verða frægari en ég er. Hér ætla ég að birta almennilegt ljóð eftir sjálfan mig, skynsamlegt og upplýst skáld. Mér til ágætis vil ég taka fram að ég samdi það í strætisvagni:

Grun(n)hyggja

Grunur um gylltan vagn
sem þeysir um himininn og geyslar
ofbjörtum stöfum,
um að guðir hvetji áfram
fola með skýjafax og þeyti upp
jóreyk úr geislaryki
sem byrgir sýn á mánann
í vegakanntinum.
Á hverjum degi nýr vagn.

Nei, óstaðfestur grunur.
Heimsku Grikkir,
horfðuð þið í sólina of lengi
og urðuð blindir?
Heimsku Rómverjar,
af hverju sáuð þið ekki
það sem blasti við:
Á hverjum degi sama sólin.

Heimsku jarðarbúar allra tíma!
Fóruð þið aldrei í skóla?
Hafið þið aldrei heyrt um vogarafl?
Hafið þið aldrei heyrt um þyngdarafl?

Sólin er eldhnöttur,
jörðin er á sporbaug,
tunglið er tungl.

Og talandi um afl:
Enn hefur enginn skrifað skýrslu
sem sannar tilvist guða!

(HÖFUNDUR ER LANGSKÓLAGENGINN)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home