miðvikudagur, janúar 21, 2004

Aðvörun: Sómakært fólk haldi sig fjarri!

Hver á sér gröf sem grefur. Ég hef grafið mína gröf og bíð nú í sagga og myrkri eftir að rotnir ávextir myrkustu hugskóga minna verði kreistir og safinn látinn drjúpa yfir dagfarsprúða ásjónu mína. (ofhlaðið? Já, ofhlaðið!). Ég hef þroskast mikið og hratt í dag - svo hratt að því mætti líkja við myndskeið undir þekktu dægurlagi sem lýsa þroskaferli meginpersónu (oftast í átt að efldri vitund um reglur: boð og bönn samfélags eða hóps), t.d. í mynd eftir John Hughes eða Baywatch-þáttunum. Í mínu tilfelli væri klassíska dægurlagið hljóma eitthvað á þess leið: Imagine all the people, reading your blog, Friðgeir, he-hey!

Ég hef sumsé áttað mig á því að frásagnir mínar og vægast sagt groddalegar lýsingar (á köflum hrottalegar) sem virðast saklaus skemmtun á yfirborðinu, eru í raun mitt eigið mannorðssjálfsmorð. Og nú get ég ekki annað en beðið þess að sómakært fólk villist inn á síðuna og sjái svart á hvítu hvers konar dæmalaus og ógeðfelldur öfuguggi ég er þegar grannt er skoðað.

Því beini ég þeim tilmælum til þeirra sem vilja halda til haga mynd af mér sem heilbrigðum og fagurþenkjandi einstakling, sem og alla góðborgara sem þekkja mig ekkert en kæra sig ekki um að fólk opinberi sínar sóðalegustu hugrenningar í sín eyru, að vinsamlegast hætta lestri hér og eiga góðar stundir. Þeir sem ekki kæra sig um frásagnir af mannáti, barnáti, eiturlyfjaháðum vændiskonum í þjónustu poppara, kynlífi handalausra, kynferðislegt ofbeldi gagnvart líkum og Hrafni Gunnlaugssyni, er ráðið frá því að halda áfram lestri. Þeim sem þora er velkomið að lesa lengra, en lengstra orða bið ég alla að hafa varann á.
Góðar stundir!

P.S. Hins vegar vil ég deila þessu með öllu fólki á jörðinni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home