laugardagur, maí 22, 2004

Eftir að hafa eytt nánast allri síðustu viku í að horfa fótboltaþætti á erlendum sjónvarpsstöðvum, ef frá eru talin nokkur símtöl við fyrrverandi kærustur og þegar ég fór yfir ritgerð um fasteignaviðskipti fyrir mágkonu mína, fullvissaði ég eina fyrrverandi um að ég hefði það bara nokkuð gott, þrátt fyrir allt sem ég léti hafa eftir mér á blogginu mínu, og að því sögðu arkaði ég upp í Kringlu og keypti mér 500 ml af Havana Club, tvo Egils Pilsner í plastflöskum (til að prófa (kom ekki á daginn að Pilsner í plasti á vel heima í ógeðisdrykkjakeppninni í 70 mínútum)) og þrjá Heineken dark. Ég ákvað að skella mér á einn öllara seinni partinn, svona eins og hressra manna er siður, og horfa á umfjöllun um EM á Eurosport. En bjórinn hafði einkennilega áhrif, Heineken dark reyndist vera Heineken myrkur og það helltist yfir mig óstjórnanleg löngun til að hlusta á Caroline Says II af Berlin eftir Lou Reed.

En engar áhyggjur, þetta á eftir að lagast (þ.e. þetta hefur nú þegar lagast, en það á eftir að koma fram í frásögninni (þ.e. átti eftir að koma fram áður en ég sparaði mér ómakið)). Ég fór í grillveislu og hresstist allur af romminu. Og svo vaknaði ég þunnur og viðkvæmur heima hjá ömmu Hinna í Vesturbænum eftir ofurvenjulega og tíðindalausa bæjarferð, óheyrilega langt spjall um fótbolta og stuttan lúr á stásssófa. Klukkan var 9. Tilefnið af þessum óvenjulega svefnstað og fótaferðatíma voru áheyrnarprufur sem fóru fram fyrir einhverja bíómynd og er það svosem ekki í frásögur færandi, nema hvað að áheyrnin fór fram á Hótel Sögu, sem er svosem ekki í frásögur færandi, nema hvað að í salnum við hliðina var stórskemmtilegur fundur í gangi, eða svo sýndist mér.

Þetta var nefninlega svona eflisfundur fyrir Herbalife-sölufólk. Fyrst mættu allir í forsalinn og fengu sér sérstakt Herbalife-íste, könnu eftir könnu, allir Herbalife-sölumennirnir að þamba könnu eftir könnu af dýrindis Herbalife-ístei. Svo þegar allir virtust hafa drukkið nægju gengu þau inn í fundarsalinn og fundurinn hófst. Ég veit svosem ekkert um hvernig fundurinn fór fram en ég heyrði bara að hann byrjaði á að Simply the Best með Tinu Turner var blastað og allir klöppuðu í takt. Þetta er ekki grín, þetta var í alvöru svona, og ég hugsa að ef David Brent væri til í alvöruni þá myndi hann ekki vera neitt grínatriði á svona fundi. Sennilega myndi hann vera aðal spaðinn. Það var mikið klappað og þess á milli komu allir fram og fengu sér aðeins meira af dýrindis Herbalife-ístei, aðeins að sötra. Og það var ekki að sjá á nokkrum manni að hann væri svangur. Nei, það hressir, Herbalife-teið.

Þegar viðlagið úr Good day, sunshine með Bítlunum hljómaði í annað sinn gat ég ekki stillt mig um að kíkja aðeins inn og þá sá ég ekki betur en allir væru að nudda saman höndunum eins og þau væru að prófa eitthvert Herbalife-undrakremið. Og það svínvirkaði greinilega, því allir voru byrjaðir að klappa áður en viðlagið úr Good day, sunshine með Bítlunum hljómaði í þriðja skiptið, og nú taktfastar og hærra en nokkru sinni fyrr. Og svo komu allir fram og fengu sér te.

Já, þetta var stórkostlegt og ég held barasta að þetta hafi bjargaði lífi mínu. Þetta og alsberu tsjúí-dansararnir frá Þýskalandi, í sýningunni Körper sem sýnd var í Borgarleikhúsinu á vegum Listahátíðar núna áðan. Frábær sýning...í alvöru.

Já, Caroline segir margt, en það kemur mér ekkert við. Ekki er ég Alaska.

5 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

voðalega áttu margar fyrrverandi kærustur;)

kreisí upplifun að fara í hörballæf partí greinilega! hún ylfa okkar á nupo létt aspassúpu sem bragðaðist víst eins og djöfullinn.. kannski hún prófi ísteið í staðinn

kveðja, punkturis

7:49 e.h.  
Blogger Fridgeir said...

Það er reyndar kannski orðum aukið, að ég eigi margar fyrrverandi kærustur - þannig séð bara bull. Maður ýkir bara stundum. En það eru engar ýkjur að hörbalæf er fræbært, svo ekki sé minnst á núpólétt aspassúpurnar frægu.

9:09 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

9:11 e.h.  
Blogger Fridgeir said...

Og þó, það eru reyndar ýkjur að Herbalife sé fræbært. En frábært er það. Það verður ekki af því tekið.

10:11 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég brúkaði einmitt Herbalife hér um árið og get vottað það að það er kókaín í þessu ístei! Kókaín segi ég! Þegar ekkert var eftir af löppunum mínum blessuðu nema blóðugir stubbar (eftir að hafa hlaupið í hringi til að brenna allri auka orkunni) notaði ég afgangs birgðirnar sem eldsneyti, -keyrði til Reyðarfjarðar. Svo ég skil sem sagt æsinginn í ráðstefnufólkinu afskaplega vel. Annars var ég einmitt að tala við eina vinkonu mína í gær sem er enn þann dag í dag mikið brennd eftir að hafa tekið þátt í Herbalifeköltinu...hún á enn erfitt að vera í kringum mikið af fólki...

7:13 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home