miðvikudagur, maí 12, 2004

Ég hef ekkert að gera. Ég tek til og fæ mér kaffi, og einstaka sinnum hugsa ég: ,,Ég byrja að læra fyrir þessa ritgerð á morgun.'' Þannig er líf mitt þessa dagana; áhættulaust og fábrotið. Ég óttast að einhvern af næstu dögum þrjóti langlundargeð algleymisins og ég verði óþægilega minnugur um tilgangsleysi þessa litla og þægilega lífs, og það að drekka ilvolgt svart kaffi verði ekki jafn áhugavert og áður, nú þegar óendanlegt svart ekkert liggur þögult undir og yfir. Þess vegna fékk ég mér fiska.

Ég er búinn að koma mér upp fiskabúri, ekki stóru, bara svona 25 lítra, en það dugar til að halda mér það uppteknum, þannig að öll neindarangist er fjarri - í bili. Og í gær keypti ég mér þrjá fiska. Maðurinn í fiskabúðinni var með dökk augu, næstum svört, svona eins og hann hefði ekki sofið í nokkra daga, og sagðist vera með 13 fiskabúr í stofunni hjá sér. hann sagðist eiga von á einu 5000 lítra á næstu dögum. Hann sérpantaði það. Hann á líka hund. Og rekur dýrabúð. Nóg að gera.

Ég stóð fyrir þeim mannlega vanda að geta ekki nefnt, í þessu tilfelli fiskana mína. Ég spjallaði við Hannes og við komumst að þeirri niðurstöðu að þeir skyldu hljóta einstök nöfn - nöfn sem væru ekki á neinu öðru fyrir. Þessir tveir minni heita Flomm og Klums, en þessi stóri heitir Suppumufsu, og leyfi ég mér að draga í efa að nokkur eða nokkuð, lifandi eða dautt, heiti eða hafi heitið Suppumufsu, nokkurn tímann, nokkur staðar. Alltént lýsi ég hér með eftir því fyrirbæri, ef einhver veit meira en ég. Það væri gaman að vita af því - ekki gagnlegt eða frelsandi, en gaman.

Annars skiptir það svo sem engu hvað þeir heita. Ekki það að maður geti kallað á þá. Og ef maður gæti það hvað ætti maður svo sem að segja. Jafnvel þótt maður gæti talað við fisk í búri - sem ég af eigin raun veit að hefur ekkert upp á sig - þá er það ekki farmiði útúr landi fábreytni og einmanaleika, eins og maður gæti trúað. Nei, eða gætuð þið hugsað ykkur samtal við fisk:

Friðgeir: Jæja, hvað segirðu? Hvað er verið að gera?
Suppumufsu: Ég var hjá steininum. Hefurðu séð steininn?
F: Já, já, ég sé hann núna.
S: Flottur steinn, maður.
F: Jahá.
S: Hvítur.
F: Já.
S: Er dælan biluð?
F: Nei, ég tók hana aðeins úr sambandi svo við gætum talað saman.
S: Já, einmitt. Er dælan biluð?
F: Nei, ég var að segja þér að ég tók hana úr sambandi.
S: Já, alveg rétt. Hvað er þetta?
F: Þetta er dælan.
S: Er hún biluð?
F: Hún er ekki biluð!
S: Ég var hjá steininum.
F: Ég veit að þú varst hjá steininum, Suppumufsu, þú ert búinn að segja mér það.
S: Hver er Suppumufsu?
F: Þú ert Suppumufsu.
S: Er það?
F: Já.
S: Skrítið nafn.
(þögn)
S: Er dælan biluð?


Ég hef ekkert að gera. Ég keypti mér þrjá fiska.

1 Comments:

Blogger Fridgeir said...

Ég er gersamlega búinn að klúðra mínum málum með þessum útlitsbreytingum. Öll ummmælasaga bloggsins míns er horfinn. Allt er í heiminum hverfullt. Og ég er ekki búinn að venjast þessu nýja ummælakerfi.

2:48 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home