miðvikudagur, desember 24, 2003

Allt útlit er fyrir að bloggið sé dautt. A.m.k. hefur enginn skrifað neitt á bloggsíðu síðustu daga. Og enginn hefur virt mín skrif viðlits heldur. Einhver myndi sjálfsagt segja að það væri vegna þess hversu fádæma leiðinlegur ég er. Ég veit að það er svo. Og sjálfsagt segir þessi einhver að annað fólk sé hætt að skrifa vegna jólanna og þeirra anna sem jólunum fylgja. Það hins vegar leyfi ég mér að draga í efa. Ég tel að ég hafi drepið bloggið, og undir þetta taka bloggararnir með þögninni. Hér er um að ræða útvíkkun á þeim áþreifanlegu leiðindum sem ég hef haft í frammi á þessari voluðu síðu, sem þú lesandi góður ættir að yfirgefa núna hið snarasta. Já, hver nennir til lengdar, eða yfirleitt þolir eitt augnablik, að fylgjast með orðhengli á borð við mig, engjast í óeiginlegu blóði sínu, eins og barn í þróunnarlandi á sjónvarpsskjánum, en þó ekki hungurðmorða, heldur sjálfsmorða af eigin vesældóm, og reynir að slá af sér flugurnar suða inni í hausnum á honum. Það þori ég að fullyrða (og Guð veit að ég er ekki hugrakkur) að engin getur látið slíkt viðgangast, en jafnframt getur enginn sem kallar sig manneskju hugsað sér að takast á við þess háttar og því hafa allar skyniklæddar verur yfirgefið ritvöllinn og snúið sér að þarfari viðfangsefnum.

Ég hef mest megnis leitast við það í pistlum mínum (ef slíkt heiti á við skrif mín) að skilgreina sjálfan mig. Það hlýtur þó að teljast eðlilegt, það er viðleitni í þá áttina í öllum textum manna alls staðar. Ég heyrði til dæmis lag um daginn sem ég veit ekki hvað heitir en viðlagið hljómaði ,,fiskinn minn, nammi nammi namm" eða ,,kokkinn minn nammi nammi namm", ég lagði mig ekki eftir að heyra hvort það var. Alént er þetta lag viðurstyggð í alla staði og sársaukafullt áheyrnar svo það komi skýrt fram. Hvað sem því líður vakti byrjun lagsins mig til umhugsunar en þar kynnir ,,ljóð"mælandi sig sem kokk á togaranum Voninni. Hvað sem annars má segja um þetta lag þá er það greinilega samið í þeim tilgangi að skilgreina stétt skipskokka (ef það væri samið fólki til skemmtunar þá hefði það verið skemmtilegt, er það ekki).

Ég aftur á móti, er ekkert. Ég er bara að reyna að skilgreina mig sem höfund þessa texta, og ef þessi texti er saminn með því augnamiði að skilgreina höfundinn, þá er skilgreinandinn að skilgreina sjálfan sig sem skilgreinanda, og skilgreingin skilgreining á skilgreiningunni sjálfri, og skilin milli skilgeiningar og greindarlegrar umræðu um ekki neitt, óskilmerkileg og þokukennd, enda ekki við öðru að búast þar sem innihald þessa texta er gufa, og það óeiginleg gufa. Um það hef ég margt fleira að segja, en neita mér um það, því jú, ég hef rétt næginlega mikið hugrekki eftir til að horfast í augu við að slík umræða hefur ekkert upp á sig.

Gleðileg jól.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home