þriðjudagur, janúar 06, 2004

Alltaf annað veifið missi ég út í þá gryfju að tala um sjálfan mig og það sem á sér stað í kringum mig. Þetta geri vegna þess að ég er haldinn þeirri ranghugmynd að líf mitt sé áhugavert. Þetta er að sjálfsögðu firra, ég er leiðinlegur og líf mitt er mjög fábrotið, hjákátlegt og í hæsta máta venjulegt. Ég vil biðjast afsökunar á þessu. En um leið ætla ég að biðja lesendur um að taka þessari afsökunarbeiðni með fyrirvara. Ég kem nefninlega áreiðanlega til með að fjallla meira um böggla sem fylgja skammrifum ítrekað svo lengi sem ég nenni að sóa eldmóð í þess háttar, um áfengisdrykkju og afleiðingar, um kvikmyndir eða bækur sem annað fólk hefur þegar séð og fjallað um, um nám sem annað fólk hefur stundað og fólk sem annað fólk hefur haft samskipti við.

Á hinn bóginn hef ég mest fjallað um ekki neitt, þ.e. ég hef haft mörg orð um eitthvað sem í fljótu bragði virðist vera eitthvað ákveðið en reynist síðan ekki vera áþreifanlegra en fimmta frumefnið í gömlu og úreltu frumefnaheimspekinni.

Í þriðja lagi hef ég fjallað um hver umfjöllunarefni mín hafa verið, og hversu leiðinlegt eða tilgangslaust það hafi verið að varpa þeim fram, með meðfylgjandi afsökunarbeiðni til lesenda, sem færir okkur að fjórða megin umfjöllunarefninu: Beðist afsökunar á of tíðum afsökunarbeiðnum.

Sem tilraun til nýbreytni ætla ég nú að segja sögu af mínu daglega lífi, en til að krydda hana ætla ég að ljúga inn á milli.

Ég var á göngu gegnum Hljómskálagarðinn í gær og virti fyrir mér gullrðoinn skýjinn sem teygðu sig yfir himininn. Ég var að flýta mér á fund en staldraði samt við í nokkrar sekúndur til að skoða skýin. Ekki langt frá mér var maður með gleraugu sem glápti á sömu sjón og veitti mér enga athygli. En ég var að flýta mér eins og áður sagði og óð nú upp Sóleyjargötuna, fundurinn var á Óðinsgötu. Kom við í húsi þar sem býr gömul kelling sem gefur okurlán og drap hana og systur hennar með exi og rændi þær svo. Þegar ég kom út aftur, í hitamóki og vænissjúkur, sá ég manninn úr Hljómskálagarðinum arka upp götuna á eftir mér. Ég snéri mér við og gekk eins hratt og ég gat í áttina að Óðinsgötu, maðurinn áfram í kjölfarið. Ég ákvað að koma við í bakaríinu og fá mér brauðbita og te því ég hafði ekki borðað í marga daga, og borgaði með gullúri sem ég var nýbúinn að stela. En viti menn, maðurinn með gleraugun kom inn á eftir mér og keypti heilhveitihorn. Ég fór aftur út og upp á Óðinsgötu á fund hjá stjórn Stúdentleikhússins, en ég er þar framkvæmdastjóri. Ekki vildi betur til en að ég var í óráði þegar ég kom inn og svívirti við manninn sem ætlar að giftast systur minni aður en ég leið út af og vaknaði ekki fyrr en eftir nokkra daga. Þá sat hjá mér maður sem sagði: Þú þekkir mig ekki enn þá.

Hún er reyndar ennþá frekar bragðlaus þessi saga, en ég þykist hafa verið innblásinn af nægilegu menntasnobbi til að það réttlæti birtingu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home