sunnudagur, júlí 15, 2007

Die Nacht des deutschen Schlager

Um helgina fann ég fyrir veikindum, sleni og hita, sem er enn eitt merki þess að aldurinn sé farinn að færast yfir mig. Enn eitt segi ég því að flestir samnemendur mínir í þýskuskólanum eru á aldursbilinu 16 - 19 ára og halda valla haus yfir bókunum á morgnana vegna timburmanna eftir næturvist á diskótekum við Alexanderplatz. Ekki bætir úr skák að hitinn í Berlín hefur verið gríðarlegur undanfarna daga og á mánudaginn keyrði um þverbak, náði um 38 eða 39 gráðum, sem ku vera mesti hiti í hér um slóðir í 50 ár. Hvað sem því líður var ég á sunnudagskvöldið, þegar veikindin herjuðu á mig, langt frá því í stakk búinn til að sökkva mér í þýskar bókmenntir eða bregða mér út úr húsi til að mynda náin vitsmunaleg tengsl við íbúa heimsborgarinnar á þeirra tungu - en það var jú yfirlýstur tilgangur ferðarinnar. Þannig að ég kveikti á sjónvarpinu í von um að með þeim hætti gæti ég innbyrt þýska menningu áreynslulaust. Og ég varð ekki fyrir vonbrigðum; meðal þess sem var á dagskránni þetta kvöld var heimildamynd um ostagerð og ferðaþáttur þar sem fjallað var um litla bruggverksmiðju með bjórgarði sem liggur við stöðuvatn í nágrenni við stórborg. Það sem vakti þó mesta athygli mína var þáttur sem hófst á rbb um níuleytið. Þegar ég kom inn í dagskrána voru á skjánum svipmyndir af miðaldra fólki og eldri borgurum að taka pylsur og ávexti upp úr nestiskörfum og koma sér þægilega fyrir með bjór í plastglösum á leikvangi með íburðarmiklu sviði fyrir miðju. Og áður en langt var liðið tilkynnti þulur að nú væri að hefjast útsending frá söngdagskránni Die Nacht des deutchen Schlager 2006, nú tækju við hátt í 15 klukkustundir af því besta sem þýsk slagaratónlist hefur upp á að bjóða. Raunar var þátturinn ekki nema tvær klukkustundur, sennilega hefur hann verið klipptur þannig til að sjónvarpsáhorfendur fengju að sjá bestu bitana. En ég horfði á þáttinn allan og þótti mikið til koma.

Slagaraformið er háttur sem hefur ekki náð að hastla sér völl í íslenskri dægurmenningu. Meðal þeirra íslensku dægursöngvara sem helst sverja sig í ætt við formið má nefna Geirmund Valtýrsson, André Bachman og ef til vill þá smelli Herberst Guðmundssonar sem ekki hafa (enn) fangað hylli fólks á erlendri grundu. Af þessu má dæma að í slagarasöng kennir ýmissa grasa, það er farið um víðan völl og stefnt saman áhrifum og straumum úr dægurtónlist frá öllum löndum og öllum tímum. Þannig má heyra í sömu dagskránni sambatakta, smá kántrý, ballöður, kímni og skop, og jafnvel rapp og hipp hopp (án pólitískrar ádeilu og/eða meðvitaðar kvenfyrirlitningar). Sameiginlegt einkenni slagara er þó áreynsluleysi; lögin nánast undantekningarlaust útsett á skemmtara og krefjast lítillar hugsunar eða skilnings. Framsækni er ekki til eftirbreytni - eftirbreytni er til erftirbreytni. Því er stefnan öllum aðgengileg. Lifandi flutningur er líka oftar en ekki formsatriði og virðist það vera hinum dæmigerða slagaraáhanganda nóg, að sjá uppáhalds tónlistarmanninn hreyfa varirnar og dilla sér af innlifun og gleði. Fáum ætti að dyljast að slagarar eru nánast alltaf leiknir af bandi þegar um ,,lifandi" flutning er að ræða.

Eins og nærri má geta var eitthvað fyrir alla í dagskránni. Sum atriðin féllu mér raunar betur í geð en önnur, en þegar eitt lagið nær ekki tilætlaðri ómþýðu eða er ekki til þess fallið að syngja með, er tilvalið að bregða sér á klósettið og kasta af sér þvagi eða saur. Þannig missir maður ekki af neinu sem skiptir máli. Bíð ég nú spenntur eftir Nótt hinna þýsku slagara 2007.

Die Nact des deutchen Schlager

Add to My Profile | More Videos

föstudagur, júlí 06, 2007

Nýtt símanúmer

Þar sem ég er nú staddur í Berlín, og hef ekki í hyggju að yfirgefa Berlín á næstu dögum, hef ég fengið mér nýtt símanúmer og það símanúmer sem er jafn langt og hjá Berlínarbúum sjálfum. Nýja númerið er eftirfarandi : 0 176 76065279

Sé hringt frá öðru landi en Þýskalandi (t.a.m. frá Íslandi) er ráðlegt að slá inn tölustafina 00 og svo 49 á undan númerinu sjálfu.

Friðgeir E., Þýskalandi.

mánudagur, júlí 02, 2007

Trúverðugleiki símaskráarinnar?




Öruggt merki um sumarkomuna eru vorfuglarnir lóan og spóin, sem og hlýrri daga og sólin okkar yndislega sem skýn af auknum krafti og þokka. En þegar sumarið er gengið í garð er jafnframt hægt að reiða sig á útgáfu nýrrar símaskrár sem er orðin jafn þýðingamikill hluti af tilveru Íslendinga í þéttbýli og árstíðarbundin störf í bústjórnun sem landsbyggðafólkið sinnir af mikilli eljusemi og sóma, sauðburður, heyskapur, smölun et cetera. Mikilvægi sitt á símaskráin því að þakka að hún veitir mikilvægar upplýsingar, upplýsingar sem skiptir fólk það miklu máli að það getur ekki með nokkru móti hugsað sér að lifa án hennar. Þar er undirritaður engin undantekning.


Nú hef ég í gegnum tíðina gagnrýnt ekki gagnrýnt mikið þjónustu Pósts & síma, enda hefur að öllu jöfnu ekki verið mikið út á hana að setja - jafnvel eftir að tilkomu Landssímans hef ég haldið tryggð minni, jafnvel þótt auglýsingar fyrirtækisins hafi smátt og smátt hætt að höfða til þekkingar alþýðufólks á klassískum viðmiðum og gildum í smekkvísi. Ég er enn með heimasíma, farsíma og veraldarvefstengingu frá Símanum, eins og hann heitir víst núna. Ríður þar baggamuninum útgáfa á áreiðanlegri símaskrá, en að henni á Síminn veg og vanda. Og þó að nafngift símaskrárinnar hafi lengi verið mér þyrnir í augum - nær væri jú að tala um símanúmeraskrá, hægt er að hafa marga síma tengda við sama símanúmerið og því dugir númerið sem slíkt ekki til að auðkenna símann - hef ég vanist henni og nota opinbert nafn hennar að jafnaði (eins og þessi pistill er til merkis um). Iðulega hef ég þó í frammi vinsamlega ívilnun og tillögu að skynsamlegra heiti.


Lesendur draga ef til vill þá ályktun af ofangreindu að símaskráin sé vammlaus, óaðfinnanleg, glæsileg frá mínum bæjardyrum séð. Og þangað til daginn fór að lengja nú í vor er það nokkuð nærri sanni. Að jafnaði hef ég hlakkað til að fá í hendurnar glóðvolgt eintak af nýrri símaskrá. En svo þegar ég átti leið um bensínstöð ekki fyrir alls löngu, í annars persónulegum erindagjörðum, var þar kominn laglegur bunki af þykkum skrám á bretti. Hugsaði ég mér nú gott til glóðarinnar.
En þá blasti við mér eitt mesta smekkleysi sem ég hef á ævi minni litið. Ég veit ekki hver hannaði þessa kápu, og ég kæri mig ekki um að vita það. Maður sér ekki einu sinni hvað þetta á að vera. Þið sem hafið þegar náð ykkur í eintak, eða séð eitt slíkt á opinberum vettvangi eða heimili, vitið um hvað ég er að tala, þið hin ættuð ekki að kæra ykkur um að vita það - trúið mér. Þetta er ekki myndlist. Ég minnist þeirra daga með söknuði þegar verk eftir frænda minn Gunnlaug Scheving prýddi útgáfuna. Sú var tíðin að myndir gömlu meistarana áttu vísan stað á forsíðunni. Voru þau ekki nógu góð?


Ég bjargaði málunum með því að rífa kápuna af skránni 1989 (þannig fórnaði ég einni af mínum uppáhalds skrám) og límdi hana yfir nýju kápuna. En ekki tók betra við þegar ég fór að virða fyrir mér efni skráarinnar. Aftast er listi yfir ,,hæstu tinda veraldar". Ég minntist þess að hafa lesið á vefdagbók fyrir nokkrum árum að ungur maður sem á vingott við nána vinkonu unnustu dóttursonar míns hafði klifið fjallið Cotopaxi í Ekvador og sagði það vera um 5800 metrar á hæð. Mér brá því heldur betur í brún þegar ég sá að þetta fjall var ekki tíundað, en lægsti tindurinn á listanum var í innan við fimmþúsund metra hæð. Ég reyndi því næst að fletta unga manninum upp (þ.e. þessum sem átti vingott við nána vinkonu unnustu dóttursonarmíns), ég vildi fá hæð hans fjalls á hreint, en þá er enginn maður með því nafni í skránni. Er hann kannski ekki til?


Ég veit fyrir víst að hann er til, og þá er mér það jafnljóst að skráin er ónákvæm og grisjótt. Það gefur gefur augaleið fyrst að ekki eru allir í henni sem hafa símanúmer. Ég brá því á það ráð að afla mér upplýsinga á veraldarvefnum. Hér birti ég réttan lista yfir 10 hæstu tinda veraldar, hæð þeirra (hvort tveggja í metrum og fetum (enda hæpið að treysta umreikningum símaskráarinnar í ljósi aðstæðna)), hverjir klifu þá fyrst og hvenær:


1. Everest
Nepal/Tíbet
8,850
29,035
Edmund Hillary (Nýsjálendingur), Tenzing Norgay (Nepali)
May 29, 1953
2. K2 (Godwin Austen)
Pakistan/Kína
8,611
28,250
A. Compagnoni, L. Lacedelli (Ítali)
July 31, 1954
3. Kangchenjunga
Nepal/Indland
8,586
28,169
G. Band, J. Brown, N. Hardie, S. Streather (Bretar)
May 25, 1955
4. Lhotse
Nepal/Tíbet
8,516
27,940
F. Luchsinger, E. Reiss (Svisslendingur)
May 18, 1956
5. Makalu
Nepal/Tíbet
8,463
27,766
J. Couzy, L. Terray, J. Franco, G. Magnone-Gialtsen, J. Bouier, S. Coupé, P. Leroux, A. Vialatte (Frakkar)
May 15, 1955
6. Cho Oyu
Nepal/Tíbet
8,201
26,906
H. Tichy, S. Jöchler (Austurríkismaður), Pasang Dawa Lama (Nepali)
Oct. 19, 1954
7. Dhaulagiri
Nepal
8,167
26,795
A. Schelbert, E. Forrer, K. Diemberger, P. Diener (Svisslendingur), Nyima Dorji, Nawang Dorji (Nepali)
May 13, 1960
8. Manaslu
Nepal
8,163
26,781
T. Imamishi, K. Kato, M. Higeta, (Japanskur) G. Norbu (Nepali)
May 9, 1956
9. Nanga Parbat
Pakistan
8,125
26,660
Hermann Buhl (Austurríkismaður)
July 3, 1953
10. Annapurna
Nepal
8,091
26,545
M. Herzog, L. Lachenal (Frakki)
June 3, 1950



Hér má sjá að tindarnir tíu eru allir yfir 8000 metrar.


Gjóðar stundir,

Fr. Pj. Zoëga