föstudagur, apríl 30, 2004

[Þeir sem eru að leita að undirskriftasöfnun gegn tónleikum Paul McCartney þá fer hún fram hér að neðan (lau. apr. 24. yfirskrift: Áskorun)]

Ég er staddur á Þjóðarbókhlöðunni, sem er svosem ekki í frásögur færandi. Enda hafði ég ekki hugsað mér að miðla frásögn að þessu sinni heldur hughrifum. Ég áði nefninlega í andyrinu á áðan og gæddi mér á Júmbósamloku og kókmjólk, sem er einmit alls ekki í frásögur færandi. Nema hvað, að þarna er staddur þessi rauði köttur, Brandur eða Funi eða hvað hann heitir. Ég strauk á honum bakið og hann virtist kunna því vel, en samskipti okkar ristu ekki dýpra að þessu sinni, enda eigum við fátt sameiginlegt annað en að hafa komið nokkrum sinnum fram á síðum dagblaðanna undanfarin misseri. Þetta er í sjálfu sér í frásögur færandi - og er þetta í næstsíðasta skiptið sem ég ætla að slá upp þessum frasa - nema hvað niður tröppurnar gengur rauðhærð kona einbeitt og akademísk á svip. (Áhugamönnum um frásagnarfræði er bent á að sögumaður hefur skyndilega breytt úr þátíð í nútíð, sem bendir til þess að frásögn sé hafin). En þegar menntakonan sér köttin lifnar yfir henni eins og munaðarleysingja sem hefur tekist að endurvekja foreldra sína með stofnfrumugjöfum. Það var eins og hún sæi í logandi feldi kattarins vonarneista, klappaði honum vel og lengi, lét ekki þar við sitja, tók hann upp og handfjatlaði hann og brosti sínu harmfirrta brosi. Kötturinn reyndi að umbera meðferðina, en var nóg boðið þegar konan (sem nú skal tekið fram að var á fimmtugs- eða sextugsaldri) setti hann upp í runnann sem eru í öðrum marmarapottinum í andyrinu. Nú reyndi kisi að láta í veðri vaka að honum væri sárlega misboði og stökk aftur niður á gólf, en konunni var sléttsama, handsamði hann aftur og kom honum fyrir uppi í runnanum. Stuttu eftir að rauðar hærur konunnar flöksuðu á ný í vindinum handan rennihurðanna í andyrinu, fór rauði kötturinn - sem eftir aðfarirnar hafði ekki fundið eyrð í sér til að leggjast aftur á mottuna og brosa nautnalega við aðkomumönnum - út, og sjálfsagt kemur hann aldrei aftur. En þetta var svosem ekki í frásögur færandi.

Og þá að hughrifunum: Það er sérkennilegt til þess að hugsa að köttur, sem sækir í það að láta klappa sér, eins og katta er siður, verði frægur. Það hlýtur einkum að vera sérkennilegt fyrir eigendurnar að vakna einn morguninn og fletta morgunblaðinu og sjá köttinn sinn á baksíðu. Kannski eru eigendurnir óuppgötvaður rithöfundur sem hefur gefið út þrjár ljóðabækur sem enginn hefur skrifað gagnrýni um, eða nýútskrifuð leikkona sem fær ekkert að gera, aldrei komið í Séð & heyrt og enginn lítur hornauga þegar hún fer út í bakarí um morgun í miðri viku. Hlýtur að vera svekkjandi, er það ekki. Það hlýtur líka að teljast sérkennilegt að vera seleb, og allir sem auðkenna þig strjúki á þér bakið eða taki þig jafnvel upp og láti þig upp í runna.

Ég held jafnvel að eftir þessa frásögn (hún var það víst) og meðfylgjandi hughrif, hafi ég uppgötvað lykilinn á smáborgarafrægð (mini-celebretism). Trykkið er (fylgist nú vel með) að vera á röngum stað á kolröngum tíma - en - láta líta út fyrir að þér líki það ágætlega. Eða hvað, Geir Ólafs? Leoncie? Simmi og Jói? Siggi Hlö og Valli Sport? Eyþór Arnalds?

fimmtudagur, apríl 29, 2004

[Þeir sem eru að leita að undirskriftasöfnun gegn tónleikum Paul McCartney þá fer hún fram hér að neðan (lau. apr. 24. yfirskrift: Áskorun]

Ég er ekki örlagatrúar, mér finnst það þá heimskuleg hugmynd að láta kvikindi (t.d. okkur mennina) - sem búa yfir kerfisbundnum hæfileikum til að stjórna sér sjálf - hreyfa sig og hrærast eftir einhverjum löngu ákveðnum fyrirmælum eins og þau séu í danssýningu Jaquin Cortes eða jafnvel Twister. Ég aðhyllist trú á tilviljanir, þ.e. þau tilviljanakendu hvörf sem verða þegar kerfi skarast. En nóg um hverju ég trú og hverju ég trúi ekki. Í dag hafa annað hvort tilviljanirnar eða örlögin (ég er í of miklu uppnámi til að ákvarða hvort) hagað því þannig að ég hef átt gersamlega miheppnaðan dag.

Til að byrja með ætla ég að vekja athygli á þeirri meðvituðund minni sem lítur að sjálfsvaldi yfir eigin örlögum. Flest allt sem fór úrskeiðis í dag (og í gær líka) er mér sjálfum að kenna. Til dæmis er það út í hött að fara skella á einhvern skuldinni fyrir að ég svaf yfir mig í morgun. það var mér að kenna. Í öðru lagi er það mér að kenna að ég byrjaði ekki að læra loksins þegar ég vaknaði, heldur byrjaði ég að taka til heima hjá mér - eitthvað sem ég geri ekki öllu jöfnu, þ.e. ef ég þarf ekki að læra undir leiðinleg próf. Eftir að hafa tekið til í tvo og hálfan tíma, sá ég að eina leiðn til að hefja mig upp úr sleninu væri að fá mér kaffi og horfa á fótbolta á Eurosport. Eftir fyrri hálfleik í leik Rúmeníu og Þýskalands, sá ég að eina leiðin út úr sleninu væri að drífa mig upp á Þjóðarbókhlöðu. Nú gripu ,,örlögin" í taumanna og Strætó bilaði á leiðinni (það var ekki mér að kenna).

Útúrdúr:
Ég er nýklipptur, var klipptur (eins og útúr mynd, að mér fannst) í gær þegar ég var að passa barn Öddu og Benna. Davíð nokkur Hedtoft átti leið um og bauðst til að munda skærin yfir þéttvöxnu (að utan sem og innan) höfði mínu. Og sem ég sat ber að ofan og hélt á ungabarni, meðan annar karlmaður klippti mig, efaðist ég um karlmennsku mínu. Þökk sé Decartes (efinn og tilvist efans og allt það, sko) og óvæntum klippihæfileikum Davíðs upplifði ég mig sem Guðs gjöf til kvenna og homma það sem eftir lifði gærdagsins. Svo kom babb í bátinn...

Aftur að deginum í dag:
Á Þjóðarbókhlöðunni hitti ég fálkagötukonuna sem var ekki jafn viss um að hér væri á ferðinni best klippti maður áratugarins. Raunar komumst við að þeirri niðurstöðu að klippingin hefði verið meira viðeigandi við lok níunda áratugarins, og ég áttaði mig á því að ég hafði valsað um götur Reykjavíkur í heilan sólarhring eins og ég væri að fagna Bjórdeginum, 1. mars 1989, vantaði bara Löwebrau dós, rúllukragabol, alltof stór gleraugu og Ég held ég gangi heim og fleiri góðum með Valgeiri Guðjónssyni á kasettu, já, og eitt eða tvö með Bjartmari kannski líka.

Um það bil sem þetta rann upp fyrir mér var hringt úr vinnunni og mér gert að mæta tafarlaust. Vaktaplaninu hafði nefninlega verið breytt (ekki mér að kenna). Og hér sit ég og bíð þess sem koma skal. Það eina sem ég get gert er...,jah, minnt á undirskriftarsöfnuna gegn tónleikum Paul McCartney. Síðustu tölur segja tíu, sem þýðir að 1990 undirskriftir skortir til að stemma stigu við undirdkriftarlistum fávita. Látum ekki deigan síga.

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Konan sem eitt sinn bjó á Hverfisgötunni og síðan á Seltjarnarnesi er flutt enn og aftur. Í þetta skiptið býr hún á Fálkagötunni og unnir þar hag sínum vel, sennilega til langframa þar sem hún hefur fest kaup á kofanum. Þessa dagana auglýsir hún eftir meðleigjanda, enda dýrt að kaupa kaupa íbúð í Reykjavík einn síns liðs. En þótt hagir hennar hafi breyst (lesist á tvennan hátt) virðist það ekki verða til þess að blogghæfileikar hennar hafi horfið. Hitt þá heldur. Ég ætla að birta hér, með leyfi höfundar, eitt lítið dæmi:

[af www.kmaster2000.blogspot.com]

þriðjudagur, apríl 20, 2004

Ég hef verið að fara yfir það í huganum afhverju Hemmi Gunn hefur svo mikið sem tja,aldregi boðið mér á date í öll þessi ár?
1.Þegar hann hringir í mig er alltaf á tali......
2.Hann hefur verið svo lengi á Tælandi
3.Hann heldur kannski að ég sé barnið hans
4.Hann vill ekki deita grúppíur/aðdáendur sína
5.Hann er stundum of þunnur til að hringja
6.Hann setur það fyrir sig að ég á ekki ennþá frískur&fjörugur
7.Honum finnst ég vanrækja ljóabekki óhóflega
8.Vanmetur hvað ég er epísk í fótbolta
For the love of Heisús cristús-call me Hemmso áður en ég kemst úr barneign eða verð afhuga þér,u here me?U is Maradonna of Iceland...




Af mér er það annars að frétta að frægðarsól mín er ennþá langt frá því að síga bak við sjóndeildarhringinn ásamt fuglasöng, spegilflötum tjörnum og sljóvgandi hlýju og ofbirtu liðinna daga. Nei, í gær, þegar ég hýrðist í Vogahverfinu í klukkutíma meðan ég beið eftir filmum úr framköllun, fékk ég mér sæti á sveittustu búllu austan við Glæsibæ, þ.e. Pizza Uno. Og hverjir haldið þið að hafi setið þar? Jú, engir aðrir en Siggi Hlö og Valli Sport! Siggi og Valli úr hausverkjaþáttunum á sama stað og ég að bíða eftir pizzu. Það lá við að ég skellti upp úr þegar ég sá þá, það er nefnilega ekki á hverjum degi að jafn fornfrægir húmoristar verða á vegi manns. Þeir reyndu ákaft að fela það að þeir þekktu mig af blaðaljósmyndum og sjónvarpsframkomum, en ég gat ekki betur séð en að Siggi gjóaði til mín augunum á leiðinni út.

Og svo er náttúrlega ekki úr vegi að minnast á að kapinn (þ.e. ég, hvorki Siggi né Valli) var kallaður í prufu fyrir nýjan íslenskan sjónvarpsþátt á mánudaginn. Strákur 2 er kannski ekki stórt hlutverk, en það er góð byrjun, og gott ef að kappinn (þ.e. ég, hvorki Siggi né Valli) hafi ekki bara verið á samlestri með frægum leikurum úr Vesturportsgenginu. Svo ekki sé minnst á að ég sat bíl með Hjálmari Hjálmarssyni, frægum leikara úr áramótaskaupinu, í hartnær klukkutíma í gær, og ekki nóg með það, við brugðum okkur inn á gafl til Einars Vilhjálmssonar, fyrrum Ólympíufara, og núverandi dýnusala, og skröfuðum við við hann í hartnær 10 mínútur. Eitthvað fleira...bíddu nú við... já. Einhverjum af næstu dögum mun ég leika í bandarískri stórmynd með Jason Briggs eða Biggs í aðalhlutverki. Þó að um sé að ræða statistahlutverk, verður þetta að teljast langt frá því að vera amarlegt.

Vil líka minna á undirskriftasöfnina gegn tónleikum Paul McCartney (hér að neðan). Við eigum langt í land. 9 komnir, 1991 eftir. Láttu ekki þitt eftir liggja.

laugardagur, apríl 24, 2004

Áskorun

Nú nýverið barst mér til eyrna að einhver samtök hálfvita hér á Íslandi hafi byrjað að safna undirskriftum til að fá Paul McCartney, höfund Obladi-oblada, Bang bang Maxwell Silver og Silly Love Song til að halda tónleika hér á Íslandi. Þetta væri svo sem ekki frásögur færandi, frekar en önnur heimskuleg uppátæki, nema hvað að 2000 Íslendingar hafa skrifað undir þessa áskorun.

Ekki er þó öll nótt úti enn, og gera má ráð fyrir að þeir sem ekki hafa skrifað undir, hartnær þrjúhundruð þúsund manns, séu þessu með öllu mótfallnir. Þar sem ég er (greinilega ekki alltof) frægur áhugaleikari í Reykjavík, sem hefur komið fram í sjónvarpi og blöðum, sem og á plaggötum í miðbænum; og þar sem ég hef áður lagt í vana minn að nota nafn mitt til að styrkja brýn málefni, t.d. með því að safna undirskriftum gegn illum áformum, þá ætla ég aldeilis ekki að láta mitt eftir liggja að þessu sinni.

Nú hvet ég alla, sem ekki kæra sig um að Paul McCartney og hans lýður mengi íslenskt þjóðlíf með tónleikahaldi, til að skrifa nafn sitt og fyrrihluta kennitölu, ásamt velvöldum níðyrðum í garð vonda bítilsins (ef tungan fæst ekki hamin), í ummælagluggann hér að ofan (merktur Comment). Stöndum saman.

fimmtudagur, apríl 22, 2004

[frá sumardeginum fyrsta]

Ég má reyndar ekkert vera að því að skrifa núna, ég er nefninlega í útvarpsviðtali, hjá Hannesi. Hannes er bara að spila lög í augnablikinu svo ég ákvað að taka mér pásu til að skrifa. Þó að maður sé frægur má maður ekki gleyma að láta vita af sér, ekki hlusta allit á útvarpið og ekki horfa allir á Ísland í bítið. Mér finnst samt bara ágætt að vera frægur, ég get látið margt gott af mér leiða, t.d. birti ég á síðunni áskorun til fólks að mótmæla útlendingalögunum. (Reyndar held ég að það sé búið að skila inn undirskriftarlistanum, en ég læt samt lógóið vera til að sýna hvað ég er fínn gaur).

En frægðinni fylgja ýmsir vankanntar. Margir eru öfundsjúkir, nú síðast afhjúpaði karl faðir minn öfund sína með því að draga fram úrklippu úr Alþýðublaðinu 16. apríl 1962, þar sem hann var á forsíðu að vinna einhverja barnaskóla skíðagöngukeppni eða eitthvað þvíumlíkt. Mér finnst það nú ekkert spes ef ég á segja alveg eins og er, og til merkis um rokna barnaskap hjá karlinum að ota þessum bleðli framan í mig. En hvað um það. Ég held að fleiri hafi orðið fyrir innblástri og það þykir mér vænt um. Ég var t.d. að fletta Fréttablaðinu í morgun og sá að Hildur, kólegi minn og fyrrverandi leikskólasystir er komin í úrslit í ljóðakepninni. Hún keppir þar á móti dóttur Ingibjargar Haralds og það merkile...ég ætlaði að minnast á að bæði ljóðin taka á sjálfsfróun en áttaði mig á því í þessum skrifuðu orðum að þessi kólegi minn og leikskólasystir er sjálfsagt orðin frægari en ég, bara sísvona með því að skrifa ljóð. Djöfulsins djöfull. Eins og ég hefði ekki getað hripað niður eitt ljóð. Ég hef oft hripað niður ljóð og það tekur töluvert skemmri tíma en að æfa upp heila leiksýningu, það tekur töluvert skemmri tíma en að fá fólk með fortölum til að prenta út nokkur hundruð plaggöt með myndum af sér ... heyrðu hún er ekki með nein plaggöt. Og hún er bara í Fréttablaðinu, engum öðrum blöðum. Hvers konar frægð er það nú. Jæja, best að drífa sig aftur í útvarpið.

þriðjudagur, apríl 13, 2004

Ég var bara í sjobbanum í morgun, Ísland í bítið, og ef til vill hvarflar að einhverjum að þá sé ég orðinn frægur. Það er þó kannski hæpið að setja samasemmerki þarna á milli. Bara af því að andlitið mitt, er á plaggötum útum allan miðbæ, og af því að hálfnakin líkami minn er iðulega á síðum dagblaðanna, (og reyndar sat ég inni í hljóðveri Tvíhöfða í morgun, en sagði ekki neitt nema nafnið mitt) þá þýðir það alls kostar ekki að ég sé frægur. Það getur enginn orðið frægur áhugaleikari, sennilega afþví að enginn ótengdur leikurunum í tiltekinni sýningu, gerir sér nokkru sinni fra um að sjá áhugaleiksýningu. Hér gildir einu hversu mörg plaggöt hanga uppi með mynd af mér.

Nei, maður verður frægur af því að fara í sjónvarpið. Í dag (eða í bítið a.m.k.) (var) er ég a.m.k. jafn frægur og 5 barna móðirin sem fór í ,,meik óver", formaður samtaka kjörforeldra og golfkennarinn sem sagði að fullkominn sveifla samanstæði af 70 mismunandi þáttum. Ég er orðinn mjög frægur.

Og það á eftir að koma mér verulega á óvart ef einhverjir verða ekki frá að hverfa á næstu sýningum Stúdentaleikhússins á 101 Reykjvavík í Grýtuhúsinu, Keilugranda 1, 107 Rvk, þ.e.a.s. þremur síðustu sýningunum, á miðvikudag (14. apríl) fimmtudag (15.apríl) og laugardag (17.apríl). ,,Eru krakkarnir úr sjónvarpinu ekki örugglega í þessu" á fólk eftir að segja við innganginn, ,,og er Friðgeir ekki örugglega í þessu, þúveist, þessi sem sagði þarna brandarann um að það væri fínt að fá alla Háskólanema á sýninguna, þvílíkur spéfugl" eiga einhverjir eftir að segja ,,Eru ekki mörg þúsund manns í Háskólanum?",,Jú,jú. Það sem honum dettur í hug, ha. Jeminn. Verð að sjá hann á sviði",,Já hann hlýtur að vera óborganlegur í eigin persónu." Og áhorfendaskarinn (miklu fleiri en húsrúmleyfir (húsið er 2000 fermetrar)) á eftir að ærast þegar ég, og vinir mínir úr Ísland í bítið 13. apríl 2004, stíga fram á sviðið. Það verður varla hægt að heyra hvað við segjum. En það breytir engu. Ég verð jafn töfrandi og David Blaine að galdra kanínu útúr leginu á einhverri konu úti á götu í New York, ég verð jafn töfrandi og ég var í Ísland í bítið í morgun. Endilega verðið ykkur úti um spóluna.

föstudagur, apríl 09, 2004

Stutt úttekt á heilbrigðisþjónustu á Íslandi

Ég spilaði knattspyrnu í nokkrar mínútur í gær með félögum mínum úr Stúdentaleikhúsinu, eða þangað til að ég varð fyrir ótímabæru og einkar sársaukafullu óhappi, og í nokkrar mínútur þar á eftir leið mér eins og dananum sem mölvaði á sér hnéð á EM ’92 móti Hollandi, ég man aldrei hvað hann heitir. En eftir að konurnar á Slysó höfðu fullvissað mig um að ég væri hvorki brotinn né slitinn og að hnúðurinn á öklanum væri bólga en ekki brot, og eftir að hafa þegið frá þeim tvær 500 mg parkódín forte var ekki örgrant um að mér liði eilítið skárr. Ég keyrði mig sjálfur milli hæða á spítalanum í hjólastól og gerði hlutlægar athugasemdir án allrar afleiðslu, eins og að u.þ.b. helmingur allra sem voru á Slysó á skírdagseftirmiðdegi blóðugir og með öndunartregðu eða í sjúkrarúmum með kraga og næringu í æð voru innflytjendur. Ég gerði tilfinningalausar athuganir eins og þá að illalyktandi kerling vandlegadúðuð ofan í rúllurúm með slöngur í nefið, muldrandi, hálf-grátandi þurfti að bíða meðan ég, fótboltameiðurinn, fór á undan henni í röntgen. Og einhvern veginn var mér skítsama og raunar hurfu allar áhyggjur eins og dögg fyrir sólu. Það helsta sem hrjáði mig var hugmyndin um að lenda í gifsi, því ég átti að sýna um kvöldið, sem ég og gerði gifslaus því ég er bara tognaður, en draghaltur, og á tímabili í sýningunni leið mér eins og ég léki aðalhlutverkið í uppfærslu Halaleikhópsins á My Left Foot. En þá var parkódín-víman ekki enn runnin af mér, þannig að mér var bara nokk sama.

Það er samt með ólíkindum hugnanlegra að fara á Slysó en t.d. til augnlæknis, og það eru ekki bara verkjalyfin sem ríða baggamuninum þar um. Raunar er við hæfi að dópa niður þær ólánssömu sálir sem þurfa að dúsa langtímum saman á biðstofunni. En ekkert slíkt er þar í boði, bara kaffi, ekkert venjulegt kaffi heldur kaffi sem er beinlínis, hreint út sagt og vífilengjulaust mannskemmandi og satt best að segja ógeðslegt.

Ég lenti nefninlega í því að fá flís í augað, en það henti einmitt líka í Stúdentaleikhús vafstri og sjálfsagt eru einhverjir sem vilja setja samansemmerki milli þessa meins og tíundaðra fótameina minna, en þeim skal þá bent á að ég hef nánast ekki gert annað síðustu tvo mánuði en að vafstra með Stúdentaleikhúsinu. Í kjölfar augnflísarinnar (sem reyndist þegar altt kom til alls gera tilkall til að kallast bjálki) sat ég í þrígang heilan eftirmiðdag á þessari steingeldu biðstofu og sötraði kaffi. Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum þurfti égr að bíða í tvær klukkustundir á biðstofunni í öll skiptin þrjú, og það átti líka við um alla hina sem voru staddir á þessu auma pastelgræn tómi við Eiríksgötu (og bíða þar sjálf sagt enn). Á meðan ég beið hafði ég ekkert fyrir stafni nema að lesa tveggja ára gömul Séð & Heyrt blöð sem lágu í búnka í einu horni stofunnar.

Eftir að hafa lesið tvisvar um fótbrot og skeggvöxt Brad Pitt, um skilnað foreldra Britney Spears, um klæðnað Hilton-systranna á myndbandahátíð MTV, um krumpaða lotugráðuga konu í Noregi, um nýjan kærasta Chloe, um fund Leoncie og Sigurjóns Kjartanssonar í Sandgerði, um afmælisveislu DJ Sóleyjar, um ljóðlist og þunglyndi Evu Sólan, um kynþokkafyllsta mann heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu 2002 og um gömlu konuna á Eyrarbakka sem horfði á alla leikina og tók þá athyglisverðustu upp, og eftir að hafa yfirfarið öll rittákn undir glanshúðinni á síðum tveggja ára gömlu Séð & heyrt blaðanna í búnkanum, og eftir að hafa lagt hvert þeirra frá mér einu sinni og tekið þau síðan öll upp aftur til að gera könnun á hversu margar Séð & heyrt stúlkur vinna í bakaríi (9 af 21) og lagt þau síðan frá mér aftur, og eftir að hafa rótað í gegnum bunkann aftur í leit að einhverju blaði sem ég var ekk búinn að lesa og endað með að lesa lengstu greinarnar aftur, nú í þriðja sinn, og eftir að hafa lagt þau öll frá mér aftur þegar klíník-daman gekk inn en kallaði ekki nafnið mitt heldur nafn zen-búddistans við hliðina á mér (hann hét Guðmundur) sem hafði setið þarna kjurr síðan ég kom en ekki svo mikið sem gjóað augunum undan þykku gleraugunum sínum á blaðabunkann sem lá á borðinum á milli okkar, og eftir að hafa horft á manninn fara inn til læknisins, eftir að hafa lagt hægri fótinn yfir vinstra hnéð, eftir að hafa hrist fótinn í hartnær mínútu, eftir að hafa sett fótinn niður á gólfið og seilst í blað efst í búnkanum (mynd Dorrit Mussajeff framaná) en hætt við á miðri leið, eftir að hafa staðið upp, gengið að kaffikönunni, tekið upp plastmál, dælt kaffi í bollann upp til hálfs, gengið aftur að pastelgræna sætinu, sest, og eftir að hellt í mig kaffi sem reyndist (rétt eins og fyrir 20 mínútum) ógeðfelldara en morðið á Sharon Tate og eftir að hafa hugsað með sjálfum mér í sjötta skiptið „ég drekk ekki meira af þessu“, og eftir að hafa lagt frá mér bollann og eftir að hafa tekið upp efsta blaðið úr búnkanum, eftir tveggja klukkustunda bið á biðstofunni var ég kominn á fremsta hlunn með að fara bara.

Það var þá sem ég var kallaður inn. Læknirin skoði mig í samtals tvær og hálfa mínútu og sagði síðan að ekkert væri hægt að aðhafast frekar, bæjó. Þegar ég var síðan í andyrinu að borga 1700 kr. fyrir úrskurðinn, heimtaði þýski augnfræðingurinn að ég kæmi aftur daginn eftir.

Daginn eftir átti það nákvæmlega sama sér stað.

Á þriðja degi,eftir að augnlæknirinn hafði í þriðja skiptið úrskurðað að ekkert væri hægt að gera nema bíða, og skammað þýska augnfræðinginn í leiðinni, ítrekaði þýska fraukan enga síður boð sitt um næstu heimsókn mína. Þá loksins mannaði ég mig uppí að segja að ég gæti ekki staðið í frekari viðtölum og biðstofusetum, og að það væri mér of dýrt. Og hún varð ekki einu sinni móðguð, rukkaði mig bara 1700 kr. í síðasta skiptið og gaf mér þriðja lyfseðilinn.

Það er kannski erfitt að átta sig á boðskap þessarar sögu, en kanski er hann sá að vera ekki of kurteis, það borgar sig einfaldlega ekki þegar þýskir augnfræðingar standa í stórræðum við að félfletta mann. E.t.v. er einhver að lesa núna að hugsa: „Og ég var of kurteis til að hætta að lesa þegar ljóst yrði að boðskapurinn yrði enginn.“ Já, jú, en það er svo sem ekki mér að kenna. Það er bara alltaf erfitt að finna endi. Ég sleppi því bara, étiði skít.

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Jæja, ég er byrjaður aftur. Ég er búinn að vera mjög upptekinn allan mars við að gera sjálfan mig frægan. Og nú þegar það hefur tekist, nú þegar allir helstu miðlar landsins eru búnir að birta mynd af mér á nærbuxum, get ég snúið mér aftur af smáborgaralegri efnum, t.d. bloggi og innpökkun. Ég á mér nefnilega lítið áhugamál sem ég hef ekki rætt mikið á opinberum vettvangi. Ég fæ mikið út úr því að pakka gjöfum og ýmsu smálegu inn í fallegar umbúðir. Ég fór á svona námskeið fyrir tveimur árum. Þetta voru tvö kvöld í Garðheimum. Sigríður Thorlasius var að kenna. Hún fór með okkur í gegnum þetta helsta, fyrst vorum við bara að vinna með pappírinn. Það er nefninlega hægt að gera meira með pappírinn en að pakka inn í hann – fólk sem heldur að það sé ekki hægt að nota pappírinn í neitt annað er bara þröngsýnt. Það kemur nefninlega á óvart hvað er hægt að skreyta mikið bara með pappír. Svo fórum við náttúrulega í borða og svona strá, eða hálm, eða hvað þetta heitir. Ég náði góðu valdi á að krulla borða með skærum og hef síðan verið að þróa mig betur í því. Það má segja að það sé mín sérgrein í dag. Við rétt náðum að fara í kortin, staðsetningu og hvernig á að festa þau. Við haft tíma til að læra að búa til svona kort, með laufum og hálmi og svona, ef kellingarnar þarna hefðu ekki alltaf verið að spyrja heimskulegra spurninga. Þetta eru mest kellingar sem eru í þessu, svona gamlar hórur. Þegar ég byrjaði í þessu var ég náttúrulega í og með að vona að ég hitti einhverja. Ég hef ekkert lent í neinu svoleiðis ennþá, enda hef ég enga sérstaka lyst á þessum keramík-mellum sem voru á námskeiðinu. Það er svosem nóg af fiskum í sjónum. Svo er maður líka löngu búinn að læra að mixa ekki bissness við plesjúr. Mér finnst reyndar svo skemmtilegt að pakka eða maður er varla viss hvort þetta er bissness og hvort er plesjúr, kannski svona blanda. Mér finnst bara gaman að gera eitthvað fallegt. Ja, þetta er náttúrulega enginn bissness. Það eru náttúrulega engir peningar í þessu. En maður getur ekkert alltaf verið að pæla í því, verður náttúrulega líka að hafa gaman, hafa smá fútt í þessum táradal hérna, lífinu sko. Fyrir mér þá gefur þetta lífinu gildi. Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að gefa einhverjum gjöf sem er fallega innpökkuð. Maður kannski gefur vini sínum eitthvað gagnlegt sem endist lengi, en pakkar því inn mjög flott og síðan er þetta flotta bara rifið. Og þá er það bara búið, bara búið að gegna sínum tilgangi skiluru. Síðan á hann þetta gagnlega náttúrulega áfram. Ég hef verið að stefna á framhaldsnám í dáldin tíma. Ég get bara ekki séð að það sé neitt framboð að ráði hérna á Íslandi. Sigríður Thorlasíus stendur náttúrulega feti framar í þessu en aðrir hérna á klakanum, en hún er flutt eitthvert út á land og kennir ekkert hérna í bænum núorðið. Það er reyndar einhver hommi sem hefur verið með námskeið í námsflokkunum, Páll eitthvað. Maður tekur nú ekki sjensinn á því. Svo er líka örugglega bara sama námsefnið og hjá Sigríði, svona eitthvað byrjendakjaftæði. Ég er bara kominn miklu lengra. Þú veist, maður er eiginlega fullnuma, að minnsta kosti er ekki meira að læra fyrir mann hérna á klakanum. Ég stefni út. Þetta er ekki lánshæft. Þessir fasistar þarna hjá lánasjóðnum eru alltaf með hausinn uppi í rassgatinu á sér. Þetta er náttúrulega klár mismunun. Mér gremst samt mest er skilningsleysi íslenskra búðaeigenda. Það ætti náttúrulega að vera helst um jólin sem maður fær eitthvað að gera. En samt hefur mér nú reynst bara frekar erfitt að finna mér jóladjobb tvö síðustu jól. Það eru alltaf einhverjir fúskarar sem fá bestu giggin, svona fjórtán ára handbolta-hórur að safna fyrir keppnisferðalagi eða eitthvað. Ég stend ekki einu sinni í að reyna að fara í samkeppni við þær. Þær undirbjóða svo svakalega. Svo er þetta neitt neitt sem þær eru að gera. Bara skella pappírnum utan um, langsum teiping, allt upp í 20 cm á einfalda bók. Og ekkert flúrað með pappírinn, engin dassering eða rósun. Þær velja líka alltaf kolrangan borða, kannski rauðan eða gylltan með jarðlit, eða eitthvað eftir því. Bara forbundin slaufa með dobbulími. Svo er engin krullun að ráði, skærunum bara rent einhvern veginn, og lúppurnar eftir því misstórar, ekkert verið að spá neitt í sniðið. Og engin fléttun á borðum, allt singelt bara. Og það versta er eiginlega að fólk virðist kæra sig kollótt um allt fúskið. Það er eins og enginn hafi vit á þessu. Fólk kann bara ekki að meta fegurð.