laugardagur, janúar 31, 2004

Jæja, búinn að vera lágmenningarfrömuður í tvo daga. Gengur býsna vel. Hef ekki lesið neitt sem hefur fengið Booker-verðlaunin eða eftir einhvern eins og Gyðri eða Sjón. En ég horfði á kvikmyndaþáttinn Sjón á Popptíví, enda er Heiðar Austmann snillingur (það er sem sagt álit mitt núna eftir hamskiptin). Ég stend nefninlega í þeirri meiningu að það sé alþýðlegt að horfa auglýsingar fyrir kvikmyndir og hlakka síðan til að sjá myndirnar eins og þær séu börnin manns að koma úr sumarbúðum. Og þarna var auglýsing fyrir kvikmyndina The Human Stain með þokkagyðjunni Nicole Kidman og Antony Hopkins úr Bad Company og Zorro. Ég var orðinn vel heitur fyrir þeirri ræmu enda er Antony Hopkins snillingur. En í lok auglýsingarinnar kom í ljós að þessi kvikmynd er byggð á sögu eftir Phillip Roth, Booker-verðlaunahafa. Ég verð þá að vera heitur fyrir einhverri annarri mynd, t.d. Last Samurai.

Í gær lagði ég líka býsna þungt lóð á vogaskálina í viðskilnaði mínum við akademíuna. Ég fór í vísindaferð í Landsvirkjun og drakk frá mér mannorðið án þess að eyða krónu. Ég drakk fjóra bjóra og þagði meðan almannatengslafulltrúi fyrirtækisins sannfærði mig um að Kárahnjúkavirkjun væri réttlætanleg því maðurinn gæti ekki gert neitt ónátturulegt og að þetta land myndi breytast miklu meira í eldgosum og landhræringum eftir nokkur þúsund ár. Þessi rök ætla ég að nota verði ég einhvern tímann kærður fyrir morð: vissulega stakk ég hann með finnskum kuta, en náttúran hefði drepið hann hvort sem er. Og á þessum forsendum rændi ég fjórum bjórum til viðbótar af Landsvirkjun og drap sjálfan mig (tímabundið) með því að drekka þá í snarhasti á þorrablóti íslenskunema í Breiðholti. Ég man svo sem ekki hvað það var nákvæmlega sem ég gerði, en ég er nokkuð viss um að ég er búinn að fyrirfara menntaheiðri mínum og að þessi kynslóð fræðimanna mun aldrei taka mig alvarlega framar. Ég missti meðvitund fyrir kl. 00 og var borinn út í leigubíl nokkru seinna. Þar með má segja að ég hafi verið borinn út úr hinu akademíska samfélagi. Gott. Og nú þarf ég bara að losna við vini mína. Þið eruð fífl.

föstudagur, janúar 30, 2004

[Eftirfarndi texti var sleginn inn að kvöldi dags 29. janúar s.l. af manni sem eitt sinn var menningarviti. Andlaus hamur hans fannst undir morgun daginn eftir í bakháum, leðurklæddum og býsna virðulegum skrifborðsstól, sem reyndist vera keyptur í Rúmfatalagernum. Köflótta peysan er nú til sýnis í glerkassa á Þjóðarbókhlöðunni.]

29.1. 2004
Ég á skilið að hljóta Menningarverðlaun DV, þvílíkur þungaviktar menningarfrömuður er ég orðinn. Í kvöld fullkomnaði ég menningarlegustu viku sem nokkur manneskja hefur lifað í þessum hluta heimsins eftir stríð. Ég gerði mér ferð í HÁSKÓLAbíó og hlýddi á flutning Sinfoníuhljómsveitar Íslands á fjórðu sinfoníu Sjostakóvits. Mér var skapi næst að fara á Kaffi List á eftirog drekkja almúgamanninum í sjálfum mér í eitt skiptið fyrir öll í glasi af ódýru rauðvíni. Svo svæsinn gerðist ég ekki í þetta skiptið, né mun ég nokkurn tímann gerast. Ég hef nefninlega náð fullkomnun sem snobbhænsni, ég var snobbaðasta hænsnið í kofanum þetta kvöld, og hér eftir yrði bara farið niður á við, hér eftir yrði ef ég hefði ekki ákveðið að umpóla.

Ég segi hér með skilið við menninguna og menntunina, hef smeygt mér úr flauelisbuxunum og mokkasíunum og klætt mig í joggingbuxur og X-18-skó. Kveikt á Jay Leno og kela við 17 ára stelpu sem vinnur á Aktu Taktu og hefur að baki fleiri ljósatíma en Danny Glover. Á morgun mæti ég ekki í skólann, ég er hættur. Ég vakna samt snemma, ætla að keyra kellinguna í ljós og nýta mér tilboð á nærfötum í Dressman. Kannski ég borði morgunmat í 10-11, eina Júmbó langloku eða pulsu með kartöflusallati á bensínstöð, og að sjálfsögðu drekk ég hálfan líter af kóki með, ekki Pefsi, ég hef nefninlega skoðun á því hvort er betra, ég hef líka skoðun á hvort sé betra að hafa Pésé eða Makka, hvor er fyndnari Sveppi eða Auddi, hvor er betri kynnir Simmi eða Jói, hvort Kalli Bjarni hefði átt að vinna Idol (hver annar), hvort Logi Bergmann ætti að vera með konunni sinni eða Svanhvíti (Svanhvíti), hvort sé betra að versla í Bónus eða Europrís, hvort það sé betra að pumpa í World Class eða Hreyfingu og hvort Bad Boyz I eða II var betri (Toxedo var betri en báðar). Ég safna Séð og heyrt og læt binda það inn fyrir mig (gleymum ekki sögunni svo hún endurtaki sig ekki). Sama gildir um Undirtóna, en ekki Orðlaus því ég hata feminista. Ég klippi út nærfatasíðurnar úr Hagkaupsbæklingunum og runka mér yfir Írisi Ósk á morgnanna og Manuelu Ósk áður en ég fer að sofa. Ég veit hvað nærfatamódelin í Hagkaupsbæklingnum heita. Og ég les Birtu meðan ég kúka.

Þetta er ég, nýji Friðgeir, eða Geiri, Geir glaumur, Glaum-Geiri, frelsaður plebbi, sem saknar Fríkortanna. Ég fer ég ekki framar á sinfoníutónleika, nei, á fimmtudögum fer ég á Gunnar Óla og Einar Ágúst órafmagnaða á Glaumbar. Á föstdögum drekk ég Bud Ice með félögunum, á laugardögum tek ég Friends-spólur með kærustunni. Þið sem haldið að þið séuð vinir menningarvitans Friðgeirs Einarssonar, þið eruð á röngum slóðum. Hans slóð lá hærra upp á menningarstjörnuhimininn en hann þorði að fara án þrýstijöfnunarbúnaðar. Þið eruð vinir minningarinnar um Friðgeir, hann sjálfur er dáinn. Maður stígur ekki í sömu ánna tvisvar. En maður kaupir Séð & Heyrt í hverri viku. Það er sjálfgefið. Þið getið sagt ykkur það sjálf. Eins og allt sem ég segi. Framvegis segi ég bara það sem liggur í augum uppi.

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Vegna fjölda áskoranna ætla ég ekki að leggja síðuna niður að svo stöddu. Þið sem viljið skora á mig að hætta getið skrifað mér bréf, krumpað því saman og troðið því upp í rassgatið á ykkur, og kúkað því síðan út um munninn á ykkur, þaðan sem allt frussið kom til að byrja með. Þetta á einkum við ónefndan aðila sem lét eftir sig ummæli varðandi síðustu færslu. Ummæli hans eru ekki aðeins óumbeðin, þau eru ósynja og óforbetranleg. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að Sólmundur er sjálfur álíka spennandi og fata full af köldu vatni, sem stendur bak við stæður af brettum og plastbökkum fyrir frosinn fisk í vöruskemmu á hafnarbakka. Hvað sem því líður...

Ég fylgdist með norðurljósunum í gær ásamt Seltyrningnum, og hafði ærna ástæðu til að verða innblásinn af óskynsamlegum, lífsfylltum anda sem hefði gert mér kleift að koma reynslu minni í orð- og þó, nei. - Ég gerðist æði menningarlegur um helgina, birti ljóð á netinu, las nýju bókina eftir Sjón, horfði á kvikmynd efti Almódovar og hlustaði á píanósónötur Beethoven. Eftir helgi hef ég síðan átti fundi með Hallgrími Helgasyni og Hjálmari H. Ragnarssyni (tónskáldi og rektor listaHáskólans) í tengslum við þá leiksýningu Stúdentaleikhússins sem stendur fyrir þrifum. Til að bíta höfuðið af skömminni hef ég gert ráðstafanir til að fara á sinfoníutónleika annað kvöld (4. sinfonía Sjostakóvits).

-En í miðjum dans norðurljósanna gat ég ekki betur séð en þau væru að umbreytast í einhverja mynd. Jú, það var að myndast andlit, kunnuglegt, ekki persónulegt, nei, sjómaður, já, söngvari: upplýst ásjóna Kalla Bjarna teygði sig yfir gervallan næturhimininn, rafmögnuð græn og fjólulá.

Hvers virði er menning? Svar mitt: hún er einskis virði! Hver sá sem starir á norðurljósin og stjörnurnar hlýtur að verða meðvitaður um hverfulleika og stundlega tilveru manna og menningar. Brunnur menningarleysunnar er jafn djúpur og ótæmandi og himinngeimurinn frá ystu mörkum til þeirra ytri. Hefur Kalli Bjarna ekki tekið eilífðina rækilega í stjörnuna með söng sínum? Hefur hann ekki rennt getnaðarhljóðnema sínu djúpt ofan í hyldýpi tímans, niður botnlausa þarma geimsins og kitlað blöðruhálskritilinn handan óendanleikans?

Jú, ótvírætt, það hefur hann svo sannarlega gert. Ég viðurkenni það núna að mér hefur skjátlast. Menntun er ekki svarið! Menntun er öngstrætið. Kalli Bjarna, Idol og plebbismi: það er svarið. Framvegis mun ég ekki leggjast svo lágt að reyna hefja mig upp yfir aðra með menntun minni, nei, ég ætla að hætta námi, hætta að tala, hætta að hugsa: taka þátt.

Frá og með næstu færslu nýr og hugsunarlaus Friðgeir.

laugardagur, janúar 24, 2004

Af hverju hætti ég ekki bara? Meðan fúskarar, snarhugsuðir, þágufallssjúklingar og aðrir móðurserðar um allan bæ fá einkunnina ,,góðir pennar" hefur enginn fyrir því að segja mér hvað ég er frábær. Ef þið haldið að ég standi í skrifum á borð við þessi, á fyrirlitlegum vettvangi á borð við þennan, bara til að veita innsýn inn í mitt líf mitt eða tjá mig og koma frá mér því sem liggur eins og mara á hjarta mínu, þá skjátlast ykkur hrapalega. Ég er að þessu fyrst, fremst og einvörðungu til að fá hrós, gjöriði svo vel að gefa mér það!

Ég ætla að gefa ykkur eitt tækifæri enn, og á ég von á heillaóskaskeytum og að farin verði blysför að heimili mínu (Laugateigur 3, 105 Reykjavík; Verð heima til kl. 17 á morgun og síðan eftir kl. 19; Þið getið líka hringt á undan ykkur).

Nú á dögunum fjallaði ég um hina afburðaslöku ljóðagerð menntleysingjans John Lennons. Og ég hef enga löngun til að fara ofan af því. Sömu sögu má segja um Halldór Laxness, Sephan G. Stephansson, Stein Steinarr og James Hetfield: allt eru þetta ómenntaðir vesalingar sem aldrei lögðu leið sína í háskóla; sumsé ömurleg skáld.

Öðru máli gegnir um mig. Ég er nemandi við virtasta háskóla á Íslandi og er hef hlotið menntun sem ljóðskáld. Ég hef einingar í ljóðagerð. Það má því heita með eindæmum að ég skuli ekki verða frægari en ég er. Hér ætla ég að birta almennilegt ljóð eftir sjálfan mig, skynsamlegt og upplýst skáld. Mér til ágætis vil ég taka fram að ég samdi það í strætisvagni:

Grun(n)hyggja

Grunur um gylltan vagn
sem þeysir um himininn og geyslar
ofbjörtum stöfum,
um að guðir hvetji áfram
fola með skýjafax og þeyti upp
jóreyk úr geislaryki
sem byrgir sýn á mánann
í vegakanntinum.
Á hverjum degi nýr vagn.

Nei, óstaðfestur grunur.
Heimsku Grikkir,
horfðuð þið í sólina of lengi
og urðuð blindir?
Heimsku Rómverjar,
af hverju sáuð þið ekki
það sem blasti við:
Á hverjum degi sama sólin.

Heimsku jarðarbúar allra tíma!
Fóruð þið aldrei í skóla?
Hafið þið aldrei heyrt um vogarafl?
Hafið þið aldrei heyrt um þyngdarafl?

Sólin er eldhnöttur,
jörðin er á sporbaug,
tunglið er tungl.

Og talandi um afl:
Enn hefur enginn skrifað skýrslu
sem sannar tilvist guða!

(HÖFUNDUR ER LANGSKÓLAGENGINN)

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Aðvörun: Sómakært fólk haldi sig fjarri!

Hver á sér gröf sem grefur. Ég hef grafið mína gröf og bíð nú í sagga og myrkri eftir að rotnir ávextir myrkustu hugskóga minna verði kreistir og safinn látinn drjúpa yfir dagfarsprúða ásjónu mína. (ofhlaðið? Já, ofhlaðið!). Ég hef þroskast mikið og hratt í dag - svo hratt að því mætti líkja við myndskeið undir þekktu dægurlagi sem lýsa þroskaferli meginpersónu (oftast í átt að efldri vitund um reglur: boð og bönn samfélags eða hóps), t.d. í mynd eftir John Hughes eða Baywatch-þáttunum. Í mínu tilfelli væri klassíska dægurlagið hljóma eitthvað á þess leið: Imagine all the people, reading your blog, Friðgeir, he-hey!

Ég hef sumsé áttað mig á því að frásagnir mínar og vægast sagt groddalegar lýsingar (á köflum hrottalegar) sem virðast saklaus skemmtun á yfirborðinu, eru í raun mitt eigið mannorðssjálfsmorð. Og nú get ég ekki annað en beðið þess að sómakært fólk villist inn á síðuna og sjái svart á hvítu hvers konar dæmalaus og ógeðfelldur öfuguggi ég er þegar grannt er skoðað.

Því beini ég þeim tilmælum til þeirra sem vilja halda til haga mynd af mér sem heilbrigðum og fagurþenkjandi einstakling, sem og alla góðborgara sem þekkja mig ekkert en kæra sig ekki um að fólk opinberi sínar sóðalegustu hugrenningar í sín eyru, að vinsamlegast hætta lestri hér og eiga góðar stundir. Þeir sem ekki kæra sig um frásagnir af mannáti, barnáti, eiturlyfjaháðum vændiskonum í þjónustu poppara, kynlífi handalausra, kynferðislegt ofbeldi gagnvart líkum og Hrafni Gunnlaugssyni, er ráðið frá því að halda áfram lestri. Þeim sem þora er velkomið að lesa lengra, en lengstra orða bið ég alla að hafa varann á.
Góðar stundir!

P.S. Hins vegar vil ég deila þessu með öllu fólki á jörðinni.

mánudagur, janúar 19, 2004

Mig rak í rogastans á föstudagskvöld. Hefur landið verið hertekið af menntleysingjum? Eru ómenntaðir að taka völdin? Ef ég hefði horft á Stöð 2, hefði ég sennilega byrjað að trúa því að svo sé, þ.e. þegar ólangskólagengnu plebbarnir í karaoke-keppninni sem kölluð er Idol, eða Fyrirmyndirnar, hófu upp raust sína. En ég neita að trúa því, ég neita að trúa að Íslendingar séu svona auðveldlega gabbaðir, að þeir haldi að persónuleikasneyddur karaoke-söngur sé ómissandi sjónvarpsefni og frábær réttlæting á því að greiða 99 krónur fyrir að mega senda inn sitt atkvæði. (Lesendum er vinsamlega bent á (í eitt skiptið fyrir öllu að þó undirritaður neiti einhverju, og þó að ég yfir höfuð segi eitthvað, þá hefur það engin áhrif á ytri veruleika (slíkt er eðli allra orða, neikvæðra jafnt sem jákvæðra)). Þegar ég vil sjá karaoke, þá fer ég á Ölver, þar sem hvorki Simmi né Jói segja mér hvers konar síma ég á að kaupa.

Nú spyr ég þjóðina. Viljum við að sjómenn, ómenntaðir sjómenn, séu fyrirmynd barnanna okkar (ég get ekki ímyndað mér að aðrir en börn láti bjóða sér upp á umrætt sjónvarpsefni (börn eru jú heimsk, er það ekki)). Og ef sjómenn eiga vera fyrirmyndir barnanna okkar, eiga það ekki að vera alvöru sjómenn, karlmannlegir jaxlar með tattú sem vilja bara sækja sjóinn fast og ríða hórum í útlöndum, ekki einhverjir aumingjar sem hætta á sjónum til að syngja í ofvaxinni Samfés-keppni. Nei, við viljum það ekki. Ekkert okkar getur fallist á að æska landsins fylkist í kringum þvílíkan falsspámann. Nei, takk. Viljum við ekki frekar að börnin okkar ánetjist eiturlyfjum og lolli einhvern úr Mínus inni á klósetti á Vegamótum fyrir kókaín?

Reyndar var einn keppendanna langskólagenginn (hann hlýtur samt að vera að ljúga). Hann má eiga að hann söng það lag sem komst næst því að vera heimspekilegt (lesendum er vinsamlega bent á (aftur) að orð hafa engin áhrif á ytri veruleika (slíkt er jú eðli orða)). En tók ekki menntaskólafraukan Imagine? Sjálfsagt vilja einhverjir meina að John Lennon hafi verið meiri heimspekingur en Maurice Gibb. En þeir eru þá að gleyma að John Lennon var aldrei í háskóla. John Lennon tók aldrei gráðu í heimspeki og er því ekki heimspekingur.

Ég vil að lokum árétta að ég horfði ekki á umrættsjónarspilá föstudaginn, ég horfði á endursýningu nú síðdegis. Ég naut menningar í Þjóðleikhúsinu, ásamt Seltyrningnum og fleiri frómum Hákólamönnum. Við sáum nýtt íslenskt leikrit, réttilega niðurgreitt af íslenska ríkinu (þó að það hafi reyndar verið frekar leiðinlegt). Að leikritinu loknu brugðum við okkur á Ölver.

þriðjudagur, janúar 13, 2004

Ég má til með að útlista nánar mína hlið málsins, gera atvikum betri skil, a.m.k. eins og þau snúa að mér. Á sinni heimasíðu hefur sá handalausi hefur nefninlega látið gamminn geysa um hvernig kynni okkar hafa þróast og sagt mig fara með fleipur. Til að taka af öll tvímæli ætla ég að segja söguna eins ítarlega og mér er unnt:

Þannig var að síðastliðinn að á mánudag í síðustu viku var einkunn mín í umræddu námskeiði færð upp á tölvukerfi Háskólans. Ég hringdi, jafnóðum og ég vissi að ég hefði náð, í farlama vin minn og sagðist ætla kíkja í heimsókn og tjá honum óvænt tíðindi. Hann bað mig um að koma við í Kveldúlfi í leiðinni og kippa með ýmsu sem hann vanhagaði um: Mjólkurlíter, tvo þrumara frá Kökugerðinni á Selfossi (ekki frá Myllunni), tvo pakka af Prins, kindakæfu, lítið sérsaltað smjörstykki og, síðast en ekki síst, poka af kleinum í tilefni dagsins, sennilega hefur hann grunað á hverju ég lumaði.

Eftir þó nokkra bið tókst hon loks að opna fyrir mér og bað mig strax að setja vörurnar inn í ísskáp fyrir sig. Ég varð við þessu og meðan ég setti upp ketilinn spurði hann mig hvaða stórtíðindi ég ætlaði að segja sér. Ég dró upp útprentuna af einkunum og sýndi honum. Hann pýrði augun vel og lengi og bað mig loksins um að setja á sig gleraugun hans, sem ég og gerði, en þá vildi hann að ég rétti sér blöðin. Ég var frekar vantrúaður á að það hefði neitt upp á sig, en vissi ekki hvernig ég ætti að koma orðum að því. Enda kom á daginn að um leið og hann tók við blaðinu missti hann það í gólfið. Jæja, gott og vel, hugsaði ég, ekkert til að gera veður útaf og teygði mig eftir blaðinu.

En sem ég beygði mig niður fann ég hvernig hann strauk handalausum úlnliðunum eftir afturenda mínum, eldsnöggt. Ekkert til að gera veður útaf, hugsaði ég og sagði ekki neitt af ótta við að hafa kannski misskilið eitthvað, já, sennilega hafði ég misskilið eitthvað, hugsaði ég - sagði ekki neitt - fór bara aftur inn í eldhús og hellti upp á.

Við fengum okkur sæti í stofunni og ég setti hálfa kleinu upp í hann og gaf honum að súpa kaffi. ,,Mikið var þetta gott ljúfur, en langar þig ekki að fá soldið gott í kroppinn." Ég hef aldrei verið ginkeyptur fyrir pikköpp-línum, og það allra síst frá manni af sama kyni með engar hendur. Ég vil þó líta á mig sem fordómalausan mann og vildi ekki gera lítið úr því að miðaldra maður hafi kynhvöt, hvað þá að vanvirða kynhneigð hans, þannig að ég sagði ,,Jæja, sástu Opinberun Hannesar" svona til að slá ryki í augu hans. En handalausi maðurinn var greinilega ekki ginkeyptur fyrir neinum línum frekar en ég. ,,Ég krefst þess að við höfum mök" sagði hann.

Ég tjáði handlama vini mínum að ég gæti ekki orðið við þessari kröfu, en hann lét það ekki á sig fá, heldur hélt hann áfram að biðla til mín með þvílíku orðalagi, að ég sem sómakær ungur með eðlilegar, hreinar hugsanir treysti mér ekki til að menga orðræðu mína með því að hafa það eftir. Til að gera langa sögu stutta hafnaði ég alfarið boðum hans um samfarir.

Hann gafst ekki upp fyrr en í fulla stubbana, en stakk þá upp á málamiðlun. Kálkinn á honum titraði örlítð og ég gat ekki betur séð en að tár væri u.þ.b. að læðast undan vinstra augnlokinu. ,,Hvað segirðu um að ég frói þér?" Ég álít mig vera góða og fordómalausa manneskju, óhræddann við að prófa nýja hluti. Ég þurfti samt að hugsa mig um. Jú, fjandinn hafi það, hverju hef ég að tapa, hugsaði ég, hvað er það versta sem gæti gerst, að ég fengi eitthvað útúr því? Ég yrði þá a.m.k. reynslunni ríkari. Ég tjáði vini mínum að ég væri tilbúinn til að prófa.

Það versta við þetta var hvað þetta virtist ætla að taka langann tíma. Og svo auðvitað lyktin af Carbonide-kreminu. Fljótlega eftir að við byrjuðum sá ég að þetta hefði verið slæm hugmynd. Ég var oft við það að spyrja hann hvort við ættum ekki bara að sleppa þessu en kunni einhvern veginn ekki við það. Einu sinni spurði ég hvort ég ætti kannski að gera þetta sjálfur, en hann brást ókvæða við og sagði að þá gæti ég alveg eins bara gert þetta einn heima hjá mér. Sjálfsagt er það rétt hjá honum, alltént stöðvaði ég hann ekki. Hvað sem sagt verður um þessa athöfn, verður ekki sagt að hann hafi vantað eldmóðinn. Á tímabili gerði hann tilraun til að nota fæturnar en það gerði bara illt verra. Fyrir ókunnuga skal það tekið fram að handalausi maðurinn er ekki ófríður maður, nokkuð karlmannlegur, þykkt skegg og lítið hrukkaður miðað við aldur, en kannski ekki mín týpa.

Þegar hann stóð upp til að ná í handklæði, brast loksins síðasta þolrifið. Ég varð djúpt haldinn af einhverri ókennilegri tilfinningu, og aðstæðurnar fóru að þjaka mig á þann hátt að ég gat ekki umborið þær lengur. Ég þurkaði mér í sófapullu, hysjaði upp um mig og rauk út, áttaði mig á því í stigaganginum að ég hafði gleymt jakkanum mínum, en gat ekki snúið við. Ég skil vel að hann sé reiður, en að einhverju leyti getur hann sjálfum sér um kennt. Ég er að manna mig upp í að hringja í hann, til að spjalla og til að spyrja eftir jakkanum mínum, en það er alltaf svo erfitt að ræða málin í gegnum síma þegar tilfinningar eru í spilinu.

mánudagur, janúar 12, 2004

Það bætist ekkert við. Kannski er ég bara búinn að segja allt sem ég hef að segja, og eftir næstum 23 ár þá hef ég dregið líf mitt saman í lygasögur og gróteskan þankagang um þessar lygasögur. Nei, þessi samdráttur er ekki lýsandi, það er bara myndin sem ég dreg upp því mér leiðist. Líf mitt er í raun fullt af atvikum og hlutum og endurtekningum, venjulegum endurtekningum, sem ég hef ekki enn haft fyrir því að tíunda út af því að mér hefur ekki enn leiðst svo mikið. Það er að sjálfusögðu ósanngjarnt af mér að draga undan, bara af því að það sem ég hef að segja er ómerkilegt, meðan þið bíðið óþregjufull eftir að geta drukkið í ykkur smásmugulegustu ítaratriðin í tilveru minnar eins og eitur af kaleik.

Ég hef þurft að tauta sjálfan mig í svefn síðustu vikuna, allt frá því að ég áttaði mig á því að þessi síða gerir mig að aðhlátursefni. Ég fékk nefninlega ummæli 2. janúar síðastliðinn þar sem slegið var upp hlutum úr gagnrýni Sigurjóns Kára Aðalsteinssonar um þessa heimasíðu. Þar var farið (l)ofsamlegum orðum um skrif mín og var ekki laust við að ég yrði örlítið upp með mér. Ekki laust við er þó ekki nema úrdráttur því ég var í sjöunda himni og hélt að ég hefði náð tengingu við einhvern málsmetandi mann. En annað kom á daginn. Ekkert bendir nefninlega til að Sigurjón Kári Aðalsteinsson sé til, hvergi kemur nafn hans fyrir á veraldarvefnum, og samkvæmt þjóðskrá er enginn með því nafni ríkisborgari á Íslandi. Þetta var gabb.

Ég hef sumsé ekki átt sjö dagana sæla. ,,En hvað um það" hugsaði ég. ,,Ef engum finnst þetta, þá gerir enginn sér vonir um að ég bæti mig" hugsaði ég jafnframt. ,,Ég get skrifað um hvað sem mér dettur í hug, hversu lítið vægi sem það kann að hafa í lífsins hringrás og lögmálaskipulagi heimsins" hugsaði ég enn fremur. Og núna líður mér bærilega og ætla að segja frá áfanga í mínu lífi. Það hafa nefninlega orðið þau vatnaskil að ég hef lokið námskeiðinu Íslenskt mál að fornu I og fékk einkunina 7. Það er reyndar lægst einkunin sem ég hef fengið í mínu námi, en ef ég get reitt mig á að lesendur mínir hafi minni, þá ætti þeim að vera kunnugt um að ég hef haft lítið yndir af þessu námskeiði, og e.t.v. ekki að vænta betri árangurs, nema ef ég hefði afneitað persónuleika mínum og horfst í augu við að líkami minn er ekki annað en vél í höndum fornmálssérfræðinga. Ég tók þann pólinn í hæðina að knýja líkama minn áfram af hugsjónum og miðað við þær tiktúrur mínar verður einkunin að teljast ásættanleg.

Það fannst handalausa manninum líka, en eins og þeir lesendur mínir sem hafa minni ætti að vera í fersku slíku, þá komst hann aldrei í gegnum námskeiðið því hann nagaði af sér hendurnar vegna leiðinda (sbr. ég sjálfur 19. nóvember 2003) og þurfti í kjölfarið að leggjast inn. Hann varð heldur en ekki ánægður með árangur minn og sagðist vera tilbúinn að njóta ásta með mér. Ég svaraði þessu ekki og lét ummælin í léttu rúmi liggja uns ég fann stubbana hans nema við rassinn á mér þegar ég beygði mig eftir eftir blöðum sem hann þóttist hafa misst (engar hendur sjáiði til). Eftir þó nokkrar fortölur féllst ég á hann fróaði mér, af því að hann sótti það svo stíft og svo var ég forvitinn. Og ég tilkynni hér með að það var ekkert sérstaklega gott og mjög vandræðalegt.

þriðjudagur, janúar 06, 2004

Alltaf annað veifið missi ég út í þá gryfju að tala um sjálfan mig og það sem á sér stað í kringum mig. Þetta geri vegna þess að ég er haldinn þeirri ranghugmynd að líf mitt sé áhugavert. Þetta er að sjálfsögðu firra, ég er leiðinlegur og líf mitt er mjög fábrotið, hjákátlegt og í hæsta máta venjulegt. Ég vil biðjast afsökunar á þessu. En um leið ætla ég að biðja lesendur um að taka þessari afsökunarbeiðni með fyrirvara. Ég kem nefninlega áreiðanlega til með að fjallla meira um böggla sem fylgja skammrifum ítrekað svo lengi sem ég nenni að sóa eldmóð í þess háttar, um áfengisdrykkju og afleiðingar, um kvikmyndir eða bækur sem annað fólk hefur þegar séð og fjallað um, um nám sem annað fólk hefur stundað og fólk sem annað fólk hefur haft samskipti við.

Á hinn bóginn hef ég mest fjallað um ekki neitt, þ.e. ég hef haft mörg orð um eitthvað sem í fljótu bragði virðist vera eitthvað ákveðið en reynist síðan ekki vera áþreifanlegra en fimmta frumefnið í gömlu og úreltu frumefnaheimspekinni.

Í þriðja lagi hef ég fjallað um hver umfjöllunarefni mín hafa verið, og hversu leiðinlegt eða tilgangslaust það hafi verið að varpa þeim fram, með meðfylgjandi afsökunarbeiðni til lesenda, sem færir okkur að fjórða megin umfjöllunarefninu: Beðist afsökunar á of tíðum afsökunarbeiðnum.

Sem tilraun til nýbreytni ætla ég nú að segja sögu af mínu daglega lífi, en til að krydda hana ætla ég að ljúga inn á milli.

Ég var á göngu gegnum Hljómskálagarðinn í gær og virti fyrir mér gullrðoinn skýjinn sem teygðu sig yfir himininn. Ég var að flýta mér á fund en staldraði samt við í nokkrar sekúndur til að skoða skýin. Ekki langt frá mér var maður með gleraugu sem glápti á sömu sjón og veitti mér enga athygli. En ég var að flýta mér eins og áður sagði og óð nú upp Sóleyjargötuna, fundurinn var á Óðinsgötu. Kom við í húsi þar sem býr gömul kelling sem gefur okurlán og drap hana og systur hennar með exi og rændi þær svo. Þegar ég kom út aftur, í hitamóki og vænissjúkur, sá ég manninn úr Hljómskálagarðinum arka upp götuna á eftir mér. Ég snéri mér við og gekk eins hratt og ég gat í áttina að Óðinsgötu, maðurinn áfram í kjölfarið. Ég ákvað að koma við í bakaríinu og fá mér brauðbita og te því ég hafði ekki borðað í marga daga, og borgaði með gullúri sem ég var nýbúinn að stela. En viti menn, maðurinn með gleraugun kom inn á eftir mér og keypti heilhveitihorn. Ég fór aftur út og upp á Óðinsgötu á fund hjá stjórn Stúdentleikhússins, en ég er þar framkvæmdastjóri. Ekki vildi betur til en að ég var í óráði þegar ég kom inn og svívirti við manninn sem ætlar að giftast systur minni aður en ég leið út af og vaknaði ekki fyrr en eftir nokkra daga. Þá sat hjá mér maður sem sagði: Þú þekkir mig ekki enn þá.

Hún er reyndar ennþá frekar bragðlaus þessi saga, en ég þykist hafa verið innblásinn af nægilegu menntasnobbi til að það réttlæti birtingu.

sunnudagur, janúar 04, 2004

Konan á Hverfisgötunni er ekki lengur til. Hún er reyndar ekki dáinn, sem betur fer, og er enn þá kona, sem betur fer, en örgrant er um að hún búi á Hverfisgötunni lengur. Núna býr hún á Seltjarnarnesi og þar vaknaði ég í morgun og var ekki alveg viss hvar ég væri niðurkominn, því ég var mjög ölvaður í gærkvöldi, enda drakk ég duglega úr rommflöskunni minni áður en ég missti hana í gólfið þegar ég var í Cocktail-leik, með þeirri afleiðingu að flaskan mölbrotnaði, en um þetta ætla ég að hafa sem fæst orð því djamm er hálfgert tabú á þessari síðu, það er hægt að lesa um þess háttar svo víða og yfirleitt er þetta allt eins, þ.e. bæði djammið sjálft og frásagnir af því, en ég kemst þó ekki frá að segja frá býsna skemmtilegum drykkjuleik...nei, ég læt ekki hafa mig út í svona froðu...og þó ég vil segja frá þessu...nei...jú, þannig er að Ylfa fann upp drykkjuleikinn Heyr mitt ljúfasta lag sem gengur út á að leikmenn skiptast á að syngja íslensk dægurlög og ef hinum leikmönnunum finnst lagið leiðinglegt þá verða þeir að drekka. Þessi leikur er þó skárri en spurningaspilið Ísland sem er til háborinnar skammar fyrir mannkyn allt, en aðrir gestir í þessari veislu voru að reyna að spila það spil þegar ég kom...djöfull var þetta leiðinleg frásögn...þegiðu!...

Og já, alveg rétt, eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er ég ekki dáinn. Það var svo mikil rigning og slabb þegar ég lauk skriftum að ég nennti ekki út í sjoppu að kaupa eldspýtur. Síðan verður líka einhver að sitja við tölvuna og hvetja fólk áfram, stjórna aðgerðum, keyra baráttuna áfram, setja saman slagorðin og svona.

En af því að ég hóf mál mitt með því að fjalla um konuna á Seltjarnarnesi er best að ég endi á sama stað. Við horfðum nefninlega á ansi merkilega mynd um helgina, miklu merkilegri en strjúparíðingar Hrafns Gunnlaugssonar. Þessi mynd sem við sáum er 30 ára gömul mynd sem námsgagnastofnun dreyfir og fjallar um termíta. Reyndar hef ég séð hana oft áður og notaði tímann til að skaka mér á meðan Katrín horfði á myndina. En hvað sem því líður er líf og þjóðfélagsskipulag termíta magnað fyrirbæri, termítar hafa á að skipa einstaklega markvissri stéttskiptingu sem enginn deilir um og eru því aldrei erjur innan búsins. Það er engin leið fyrir mig að miðla snilldinni hérna. Takið þið bara myndina Leirkastalar á Borgarbókasafninu, þ.e. eftir að ég man eftir að skila henni.

föstudagur, janúar 02, 2004

Sjónvarpsgagnrýni

Gleðilegt ár!

Ég var búinn að gera drög að einhvers konar áramótavarpi í höfðinu, sem átti að fjalla um eitthvað þurrprumpulegt eins og alltaf þegar ég þykist vera háfleygur. Ég kom aldrei í verk að skrifa það og eftir að hafa sett það í pækil í nokkra daga sé ég að þetta var bara áframhald af þeirri núll-heimspeki sem ég hef haft í frammi hér á síðunni síðasta hálfa misserið; sama bullið um ekkert, illa uppdubbað í gáfulegan búning, innihaldslaust prump um blablablablablablablablablablablablablablablablablabla.

En geigvænleg teikn birtust um áramótin, og urðu til þess að ég setti loftkenndar hugmyndir mínar um ekkert á hakann og snéri til jarðarinnar. Og nú loksins er mér mikið niðri út af einhverju sem átti sér stað í þessum heimi. Já, ég er yfir mig hneykslaður og raunar sleginn í rot yfir þeim fáheyrða viðbjóði sem Ríkissjónvarpið skvetti eins og rafgeymasýru framan í landsmenn, fullorðna jafnt sem börn.

Fyrst ber að nefna áramótaskaup sjónvarpsins, sem var fyrir neðan allar hellur. Ég legg til að þeir, og þeirra nánasta fjölskylda, verði limlest og svívirt í strjúpann. Þetta er reyndar ekki frumleg tillaga hjá mér (síðustu tvær eða þrjár færslur hafa snúist um einmitt þetta) en mér finnst hún viðeigandi. Til að sýna lit skala ég reyna að toppa hana: Hvernig væri að Hrafn Gunnlaugsson myndi ásamt ríkisstjórninni troða limi sínum í strjúpann á leikstjórum og handritshöfundum þessarar viðurstyggðar.

Nei, það væri fulllangt gengið. Enginn á slíkt skilið og ég skil ekki hvaðan ég fæ þessar hugmyndir. Og þó! Mér dettur einn í hug. En þá stöndum við frammi fyrir röklegum vanda. Hann er sá að Hrafn sjálfur er einmitt sá sem á skilið að Hrafn Gunnlaugsson fái vilja sínum framgengt við afskræmt lík hans, rétt eins og hann hefur þvingað vilja sínum og afskræmdu líki huga síns upp á þjóðina og heiminn. Það var þessi viðurstyggilega mynd hvers nafn ég vart þori að nefna, Opinberun Hanne... nei gefið mér salt að eta svo tunga mín skorpni og harmur minn þagni, gefið mér rafgeymasýru í andlitið, gefið mér endaþarmsmök við Hallgrímskirkjuturn. Full djúpt í árina tekið? Það er þá ekki við mig að sakast.

Reyndar verð ég að viðurkenna að ég enntist ekki yfir öllum soranum, þegar myndin var rúmlega hálfnuð hrökklaðist ég kjökkrandi frá skjánum og var aldeilis búinn að fá nóg. Fyrst ber að nefna að efni myndarinnar er býsna ófrumlegt, eitthvað sem t.d. Orwell og Andri Snær og margir fleiri hafa gert mun betur. Það er reyndar ekkert nauðsynlegt að vera alltaf frumlegur, altént ég ekki barnanna bestur hvað það varðar. En ef maður hefur ekki frumleika og ætlar að apa einhverjar klisjur upp eftir öðrum, þá verður maður að gera það vel. Umrædd mynd bjó ekki yfir neinu góðu. Hún var t.d. illa leikinn þrátt fyrir að leikararnir hafi greinilega allir verið af vilja gerðir. Sennilega er handritinu þar um að kenna. Það var sérstaklega vont, textinn óþjáll og rytmalaus, samtölin voru ósannfærandi og ómarkviss, sem og ,,framvinda" sögunnar sem var ruglingsleg og náði engan veginn að skapa mótvægi við hversu óáhugaverðar persónurnar voru. Og svo var hún bara leiðinleg og langt, langt frá því að vera fyndin.

Og svo eru herlegheitinn bara sett beint í bíó, til að "réttlæta" styrkveitingu úr kvikmyndasjóði. Þetta er sjálfsagt líka gert til að fólk fái tækifæri til að mótmæla opinberlega. Og ég mælist til þess að við mótmælum. Ég mæli með fjöldasjálfsmorðum, t.d. að fólk fari á myndina og kveiki í sér í sýningarsalnum (það ætti ekki að verða erfitt eftir að myndin er hafin). Reyndar kallar það á að fólk kaupi miða á myndina, sem er ekki réttlækanlegt undir nokkrum kringumstæðum. Ég ætla því bara að kveikja í mér núna hérna við tölvuna, ég er búinn að hella yfir mig bensíni og ætla að drífa mig út í sjoppu að kaupa eldspýtur. En ekki gráta mig. Núna, þegar ævi mín er um það bil að taka enda, skil ég loksins muninn milli góðs og ills og það er meira en flestir geta sagt. Góðar stundir!