miðvikudagur, maí 26, 2004

Ég er fluttur. Velkomin á: www.blog.central.is/freinarsson
Góðar stundir!

þriðjudagur, maí 25, 2004

Mig dreymdi að það væri pest. Öllu heldur dreymdi mig að ég væri að leika í leikriti sem fjallaði um að það væri pest en það voru rottur á stærð við ketti út um allt. Og ef ein af rottunum beit mann, sem var óumflýjanlegt (á þessum "tímapunkti" í draumnum var ekki ljóst hvort enn leiksýningin stæði enn þá yfir), varð maður skyndilega haldinn óstjórnlegri og takmarkalausri greddu. Eina leiðin til sporna við sýktum einstakling var að drepa hann með hnífsstungu í kviðinn. Nema hvað, að þegar minn karakter var bitinn, fór ég að spá í hvernig við myndum leika stunguna og einhver sem var nálægur, vanur leikari eða jafnvel leikstjórinn sagði mótleikara mínum að stinga mig bara alvöru. Það átti að vera raunverulegra og ég skyldi bara láta mig hafa það, það væri bara vont fyrst. Nema hvað, þegar hann er um það bil að fara stinga mig skorast ég undan og get ekki hugsað mér að láta stinga mig - mér bíður við tilhugsuninni og sársaukanum. Svo þegar ég hafði loks látið til leiðast vaknaði ég, rétt áður en blaðið fór inn í kviðinn. Raunar náði ég aldrei að leika þessa óstjórnlegu greddu því ég var svo hræddur við að vera stunginn.

Þetta var annar draumurinn. Hinn var flóknari, Simpson-þáttur sem snýst upp í launmorð á hendur mér. Ég nenni ekki að fara út í það núna. Draumar eru jú í eðli sínu heimskulegir.

sunnudagur, maí 23, 2004

Haldiði að strákurinn sé ekki bara búinn að grilla tvo daga í röð, og núna er ég einmitt að gera það upp við mig hvort ég eigi að grilla hérna í vinnunni þriðja daginn í röð. Allar líkur benda til þess. Það er sizzlandi sólarsumarstemning á landi og láði og mig langar bara að spretta út á svalirnar og munda grillspaðann yfir glóandi kolunum. Já, fátt er betra en gott grillkjöt, jú, nema að það sé vel grillað.

Annars langaði mig til að bera undir ykkur dálítið. Ég er nefninlega að velja mér grillnafn þessa daganna, fyrst við erum um það bil að stíga inn í sumarið. Tvö nöfn koma helst til greina: Grill-Geiri og Flaming-Geir. Hvort finnst ykkur betra? Ef þið hafið einhverjar aðrar tillögur, góðar uppskriftir, svo ekki sé minnst á góð grillráð eða tillögur (grilllögur), þá látiði mig vita. Og ekki er úr vegi að láta góða skapið fylgja með.

laugardagur, maí 22, 2004

Eftir að hafa eytt nánast allri síðustu viku í að horfa fótboltaþætti á erlendum sjónvarpsstöðvum, ef frá eru talin nokkur símtöl við fyrrverandi kærustur og þegar ég fór yfir ritgerð um fasteignaviðskipti fyrir mágkonu mína, fullvissaði ég eina fyrrverandi um að ég hefði það bara nokkuð gott, þrátt fyrir allt sem ég léti hafa eftir mér á blogginu mínu, og að því sögðu arkaði ég upp í Kringlu og keypti mér 500 ml af Havana Club, tvo Egils Pilsner í plastflöskum (til að prófa (kom ekki á daginn að Pilsner í plasti á vel heima í ógeðisdrykkjakeppninni í 70 mínútum)) og þrjá Heineken dark. Ég ákvað að skella mér á einn öllara seinni partinn, svona eins og hressra manna er siður, og horfa á umfjöllun um EM á Eurosport. En bjórinn hafði einkennilega áhrif, Heineken dark reyndist vera Heineken myrkur og það helltist yfir mig óstjórnanleg löngun til að hlusta á Caroline Says II af Berlin eftir Lou Reed.

En engar áhyggjur, þetta á eftir að lagast (þ.e. þetta hefur nú þegar lagast, en það á eftir að koma fram í frásögninni (þ.e. átti eftir að koma fram áður en ég sparaði mér ómakið)). Ég fór í grillveislu og hresstist allur af romminu. Og svo vaknaði ég þunnur og viðkvæmur heima hjá ömmu Hinna í Vesturbænum eftir ofurvenjulega og tíðindalausa bæjarferð, óheyrilega langt spjall um fótbolta og stuttan lúr á stásssófa. Klukkan var 9. Tilefnið af þessum óvenjulega svefnstað og fótaferðatíma voru áheyrnarprufur sem fóru fram fyrir einhverja bíómynd og er það svosem ekki í frásögur færandi, nema hvað að áheyrnin fór fram á Hótel Sögu, sem er svosem ekki í frásögur færandi, nema hvað að í salnum við hliðina var stórskemmtilegur fundur í gangi, eða svo sýndist mér.

Þetta var nefninlega svona eflisfundur fyrir Herbalife-sölufólk. Fyrst mættu allir í forsalinn og fengu sér sérstakt Herbalife-íste, könnu eftir könnu, allir Herbalife-sölumennirnir að þamba könnu eftir könnu af dýrindis Herbalife-ístei. Svo þegar allir virtust hafa drukkið nægju gengu þau inn í fundarsalinn og fundurinn hófst. Ég veit svosem ekkert um hvernig fundurinn fór fram en ég heyrði bara að hann byrjaði á að Simply the Best með Tinu Turner var blastað og allir klöppuðu í takt. Þetta er ekki grín, þetta var í alvöru svona, og ég hugsa að ef David Brent væri til í alvöruni þá myndi hann ekki vera neitt grínatriði á svona fundi. Sennilega myndi hann vera aðal spaðinn. Það var mikið klappað og þess á milli komu allir fram og fengu sér aðeins meira af dýrindis Herbalife-ístei, aðeins að sötra. Og það var ekki að sjá á nokkrum manni að hann væri svangur. Nei, það hressir, Herbalife-teið.

Þegar viðlagið úr Good day, sunshine með Bítlunum hljómaði í annað sinn gat ég ekki stillt mig um að kíkja aðeins inn og þá sá ég ekki betur en allir væru að nudda saman höndunum eins og þau væru að prófa eitthvert Herbalife-undrakremið. Og það svínvirkaði greinilega, því allir voru byrjaðir að klappa áður en viðlagið úr Good day, sunshine með Bítlunum hljómaði í þriðja skiptið, og nú taktfastar og hærra en nokkru sinni fyrr. Og svo komu allir fram og fengu sér te.

Já, þetta var stórkostlegt og ég held barasta að þetta hafi bjargaði lífi mínu. Þetta og alsberu tsjúí-dansararnir frá Þýskalandi, í sýningunni Körper sem sýnd var í Borgarleikhúsinu á vegum Listahátíðar núna áðan. Frábær sýning...í alvöru.

Já, Caroline segir margt, en það kemur mér ekkert við. Ekki er ég Alaska.

miðvikudagur, maí 19, 2004

Ekki er örgrant um að gæðum þessa bloggs hafi hrakað síðan ég skipti um útlit á síðunni, og hvaða ástæður sem kunna liggja að baki harma ég það mjög. Mig grunar þó að það hafi sama og ekkert að gera með umbúðirnar. E.t.v. er skýringanna frekar að leita í því að líf mitt hefur skyndilega snúist frá því að vera vel nýtt og glaðvært yfir í rólegheit og þær áhyggjufullu og kvíðablöndnu hugleiðingar sem gjarnan fylgja velmegunnar og iðjuleysis. Og þar sem ég hef ekki í hyggju að leggja á lesendur heiðarlegan og djúpstæðan texta um mínu sönnu líðan og hugrenningar hingað og þangað - ekki frekar en ég vil bera á torg iðrin í mér - þá hef ég í rauninni ekkert að segja. Nema kannski þetta:

Ég sá heimildamynd um skosku hljómsveitina Frankie goes to Hollywood á VH1 á sunnudaginn. Þeir höfðu ekki talast við síðan þeir héldu sína síðustu tónleika 1987, og þátturinn fjallaði um hvernig bandarískur sjónvarpsmaður leiddi þá saman á ný. Það tókst og um það hef ég ekkert fleira að segja. Vafalaust áttu margir von á einhverri heimspekilegri útleggingu á efni þáttarins, en fyrir því er ekki að fara. Það sem ég vildi að kæmi fram er að þessi þáttur var það merkilegasta sem ég upplifði þennan daginn, og er það enn einn dapurlegur minnisvarði um hversu fábreytileg tilveran birtist mér, nú þegar ég er orðinn akademískur fræðimaður/iðjuleysingi. Reyndar má geta þess að ég var með eindæmum þunnur þennan dag, en það mér varla til málsbóta, þ.e. að fyllirí og tilfinningasukk er eina leiðin sem ég hef séð út úr hversdagsleikanum. Nei, ég hafði meira segja gaman af Júróvisíon, og til að bíta höfuðið af skömminni lýsti ég yfir opinberalega fyrir helgi að ég hlakkaði til að sjá keppnina.

Já, öðruvísi mér áður brá. Reyndar held ég að enginn sem sá gríska atriðið, eða það bosníska, geti með góðu móti fúlsað við þvílíkum viðburði. En samt, öðruvísi mér áður brá.

Eins og ég sagði í upphafi hefur þessu bloggi hrakað, og glöggir lesendur veita því vafalaust athygli að ég hef ekki einu sinni botn á þessa færslu.

mánudagur, maí 17, 2004

Ég gekk niður í fjöru í morgun að leita að steinum í fiskabúrið mitt (fann enga) og var í sundi allan seinni partinn. Þannig eru þessi dagar mínir.

föstudagur, maí 14, 2004

Flórgoðinn og húsið hverfur

Lét freistast til að breyta um útlit á síðunni og get ekki annað sagt - þrátt fyrir að nýji bakgrunnurinn sé glæsilegur og ku vera líkur veggfóðrinu hjá vinum mínum í Danmörku - en að ég sjái eftir öllu saman og óska ég þess að ég hefði aldrei hróflað neinu. Nú hef ég glatað gamla kommentakerfinu, og þar með öllum komenntum síðan í nóvember, en fengið í staðinn glatað kommentakerfi sem ekki er hægt að kommenta á. Auk þess er teljarinn minn fyrir bí, sem og þær rúmlega 4200 flettingar sem hann sýndi. Svo ekki sé talað um linkana.

Einn helsti hvati minn til að skipta um útlit (og enn og aftur upplýsi ég hversu hégómlegur lítill maður býr innra með mér) var að ég gæti sett mynd af mér á síðuna. En nú krefst kerfið þess að ég setji mynd á url-tæku formi og ég hef ekki hugmynd hvað url er. Mig vantar sárlega liðveislu frá einhverjum sem kann á tölvur; jafn sárlega og hamar vantar ístað; jafn sárlega og knapa vantar hest; jafn sárlega og dauða vantar líf; jafn sárlega og eld vantar við; jafn sárlega og hressleikann vantar Hemma; jafn sárlega og nótt vantar dag; jafn sárlega og Stephen Hawking vantar talgervil; jafnsárlega og Christpher Reeve vantar stofnfrumur; jafn sárlega og barn vantar móður; jafn sárlega og orð vantar tungu; jafn sárlega og karl vantar konu; jafn sálega og konu vantar karl; jafn sárlega og barn vantar föður; jafn sárlega og Cristopher Reeve vantar barn/fóstur; og jafnvel meira.

Ef einhver getur veitt mér þessa liðveislu; hringið í mig eða sendið mér póst.

miðvikudagur, maí 12, 2004

Ég hef ekkert að gera. Ég tek til og fæ mér kaffi, og einstaka sinnum hugsa ég: ,,Ég byrja að læra fyrir þessa ritgerð á morgun.'' Þannig er líf mitt þessa dagana; áhættulaust og fábrotið. Ég óttast að einhvern af næstu dögum þrjóti langlundargeð algleymisins og ég verði óþægilega minnugur um tilgangsleysi þessa litla og þægilega lífs, og það að drekka ilvolgt svart kaffi verði ekki jafn áhugavert og áður, nú þegar óendanlegt svart ekkert liggur þögult undir og yfir. Þess vegna fékk ég mér fiska.

Ég er búinn að koma mér upp fiskabúri, ekki stóru, bara svona 25 lítra, en það dugar til að halda mér það uppteknum, þannig að öll neindarangist er fjarri - í bili. Og í gær keypti ég mér þrjá fiska. Maðurinn í fiskabúðinni var með dökk augu, næstum svört, svona eins og hann hefði ekki sofið í nokkra daga, og sagðist vera með 13 fiskabúr í stofunni hjá sér. hann sagðist eiga von á einu 5000 lítra á næstu dögum. Hann sérpantaði það. Hann á líka hund. Og rekur dýrabúð. Nóg að gera.

Ég stóð fyrir þeim mannlega vanda að geta ekki nefnt, í þessu tilfelli fiskana mína. Ég spjallaði við Hannes og við komumst að þeirri niðurstöðu að þeir skyldu hljóta einstök nöfn - nöfn sem væru ekki á neinu öðru fyrir. Þessir tveir minni heita Flomm og Klums, en þessi stóri heitir Suppumufsu, og leyfi ég mér að draga í efa að nokkur eða nokkuð, lifandi eða dautt, heiti eða hafi heitið Suppumufsu, nokkurn tímann, nokkur staðar. Alltént lýsi ég hér með eftir því fyrirbæri, ef einhver veit meira en ég. Það væri gaman að vita af því - ekki gagnlegt eða frelsandi, en gaman.

Annars skiptir það svo sem engu hvað þeir heita. Ekki það að maður geti kallað á þá. Og ef maður gæti það hvað ætti maður svo sem að segja. Jafnvel þótt maður gæti talað við fisk í búri - sem ég af eigin raun veit að hefur ekkert upp á sig - þá er það ekki farmiði útúr landi fábreytni og einmanaleika, eins og maður gæti trúað. Nei, eða gætuð þið hugsað ykkur samtal við fisk:

Friðgeir: Jæja, hvað segirðu? Hvað er verið að gera?
Suppumufsu: Ég var hjá steininum. Hefurðu séð steininn?
F: Já, já, ég sé hann núna.
S: Flottur steinn, maður.
F: Jahá.
S: Hvítur.
F: Já.
S: Er dælan biluð?
F: Nei, ég tók hana aðeins úr sambandi svo við gætum talað saman.
S: Já, einmitt. Er dælan biluð?
F: Nei, ég var að segja þér að ég tók hana úr sambandi.
S: Já, alveg rétt. Hvað er þetta?
F: Þetta er dælan.
S: Er hún biluð?
F: Hún er ekki biluð!
S: Ég var hjá steininum.
F: Ég veit að þú varst hjá steininum, Suppumufsu, þú ert búinn að segja mér það.
S: Hver er Suppumufsu?
F: Þú ert Suppumufsu.
S: Er það?
F: Já.
S: Skrítið nafn.
(þögn)
S: Er dælan biluð?


Ég hef ekkert að gera. Ég keypti mér þrjá fiska.

laugardagur, maí 08, 2004

Vélmennið af Dorian Gray

Eins og glöggir lesendur muna eflaust, snérist ein af fyrstu bloggfærslunum mínum um kynni af handalausum manni. Þetta var miðvikudaginnn 19. nóvember síðastliðinn og hvet ég alla sem vetlingi geta valdið að lesa færslur þennan dag. Alltént fjallaði hún um ólánssaman mann sem sótti áfangan Íslenskt mál að fornu og nagaði af sér hendurnar úr leiðindum í kjölfarið. Á þessum tíma var ég einmitt í þessum áfanga og var ánægður með að vera svo kjarkaður að geta stillt mig um að naga burt útlimi. En, bíðið hæg. Þá var um að ræða Íslenskt mál að fornu I. Nú á fimmtudaginn lauk ég síðan síðasta prófinu sem ég tek í mínu B.A.-námi, nefninlega Íslenskt mál að fornu II: back with vengence. Það gekk bara nokkuð vel og ég er enn þá með tvær hendur, tvo fætur og eitt typpi. Já, ég er sem sagt búinn í prófi, þetta var eina prófið sem liggur fyrir þetta vorið, og svo er lífð bara allt í einu byrjað. Sumarið fer í fræði- og ritstörf, því ég ætla skila B.A.-ritgerðinni minni í haust (þ.e.a.s. ef það kemur einhvern tímann haust aftur). Og svo er ég bara kominn með fínt innidjobb í júní og júlí: Reykjavíkurborg ætlar að borga mér fyrir að skrifa, hugsið ykkur.

Og hvað svo? Ja, ég er sko með svaka plön. Ég ætla ekkert nánar út í það núna, en ég er nokkuð viss um næstu þrjú árin verði mjög spennandi hjá mér. Verð bara að passa mig að gera ekki einhvern óléttan. Raunar skylst mér að það sé ómögulegt að gera einhvern óléttan - bara konur geta orðið óléttar, eða svo er mér sagt, og hér eru komin fram enn ein rökin fyrir mig að gerast samkynhneigður, en eins og glöggir lesendur muna eftir daðraði ég við þá hugmynd og Bergþór Pálsson, á sinfóníutónleikum í síðustu viku. (Ég biðst innilega afsökunar á öllu orðasprellinu, það er bara einhvern veginn ekki hægt að stoppa það þegar það byrjar).

(Hér verða ákveðin skil í textanum, bil sem mér reyndist um megn að brúa).

En nóg um mig: ég fór á Kraftverk tónleikanna í Kaplakrika síðasta miðvikudag og var mjög skemmt. Sviðsframkoma Þjóðverjanna var vægast sagt statísk, og ekki alltaf ljóst hvort þeir væru mennskir eða vélmenni, eða sambland af hvoru tveggja: halb Wesen, halb Ding - Mench Machine. Efnisskráin samanstóð af þeirra þekktustu lögum, en út úr samspili tónlistar, myndefnis (einkum hvað varðar hjólreiðar og lífefnafræði) og takmörkunar á hreyfingum þeirra sjálfra mátti lesa einhverja rómantíska hugmynd um mann og vél í einu mengi, og að samrunin væri ekki aðeins óumflýjanlegur heldur öllum í hag, en jafnframt var bent á galla skýlausrar tæknihyggju (Radio-Activitat, Autobahn).

Mest spiluðu Kraftwerk þekkt lög, en með litlum varíasjónum frá plötunum (þau fáu tilbrigði sem ég, óbreyttur og ósjóaður leikmaður, greindi voru stórskemmtileg). Oft spurði maður sjálfan sig hvort nauðsynlegt hefði verið fyrir þá sjálfa að koma, og svarið við þeirri spurningu fékk ég þegar í laginu Die Roboter, stóðu vélmenni fyrir aftan hljómborðin, og lagið hljómaði af pleibakki, meðan Kraftakarlarnir sátu baksviðs og drukku vatn (ég get ekki ímyndað mér annað en að þeir fúlsi við kaffi). Nei, þannig séð hefði verið óþarfi fyrir þá að koma. Ekki það að tónleikarnir hafi verið leiðinlegir, eða ómerkilegir. Nei, nei, nei. Þetta var eins konar yfirlýsing, eða það held ég. Það vakti athygli mína að vélmennin voru miklu unglegri en sjálfar fyrirmyndirnar. Og þá hvarflaði að mér sagan um myndina af Dorian Gray eftir Oscar Wilde, nema með smá viðsnúning. Hér má gera því skóna að þeir Bartos, Hütter, Flür og Schneider, sem stóðu á sviðinu í Kaplakrika á miðvikudagskvöldið, séu eftirmyndir vélmennanna úr framúrstefnuhljómsveitinni Kraftwerk frá Þýskalandi: það eru þeir sem hrörna og taka á sig spillingu tímans, lifa í minningunni um forna frægð og spila 30 ára slagara í íþróttahúsi á Íslandi - meðan vélmennin, vélarnar, eru föst við sinn keip, síung og falleg.

Svo fór í taugarnar á mér að lögin voru ekki öll á þýsku.

laugardagur, maí 01, 2004

Sinfóníutónleikar 30. apríl: Pissað með forsetanum

Það er ekki á hverjum degi sem manni gefst tækifæri á að sjá 9. sífóníu Beethovens flutta á sviði - jú kannski, ef umræddir dagar eru 29. og 30. maí 2004 - en þegar ég segi svona er ég víst að tala um alla daga í eilífðinni, sem ég veit svo sem ekki hvar byrjaði, og geri mér ekki grein fyrir hvar endar. Það eina sem ég veit er að í dag gefst mér ekki tækifæri á að sjá níuna (eins og við tónlistarspegúlantarnir köllum hana) og einn dagur án þess er nóg til að ekki sé um hvern dag að ræða, eða er það ekki. Hvað um það.

Ég brá mér semsagt í Háskólabíó í gær og sá Sinfóníuhljómsveit Íslands flytja tónverk Beethovens við ljóð Shillers. Ég fann það strax að það var svaka stemning, fólk kallaði hástöfum slagorð, gerði bylgjur og söng hvatningasöngva: Oleoleoleole-nían-nían; BeethOvEn (klapp, klapp, klapp); Beethoven og Shiller - algjör killer!; og allt eftir þessu. Fólk var líka ánægt með samninginn sem Rumon Gamba er nýbúinn (hehe nýbúinn) að skrifa undir, sem þýðir að hann stjórnar sveitinni til 2009. Gamba-Gamba-Gamba æpti fólk eða söng jafnvel: Já viltu koma út að dansa - það er sólarsumarsamba - Rumon Gamba stjórnar einu sinni enn!

Það ætlaði allt um koll að keyra þegar Gambarinn lyfti sprota sínum og hljómsveitn byrjaði að spila umræddan hittara. Og þvílíkt sjóv. Gambarinn tók af sér slaufuna og óð um sviðið með sprotann og lét rjúka úr honum rétt áður en kórinn kom inn, Kristinn Sigmundsson forsöngvari spúði blóði eftir síðasta erindið og Sigrún Eðvalds spilaði allan fjórða kafla ber að ofan. Skiljanlega ætlaði lófakapinu aldrei að ljúka. Fólk vildi fá aukasinfóníu, einhverjir kölluðu Tíundu, tíundu, tíundu, en allt kom fyrir ekki.

Ég var að sjálfsögðu í slagtogi með fræga fólkinu. Þorgerður Katrín og Gunar Eyjólfsson sátu þarna hlið við hlið og var ekki annað á þeim að sjá en að þau væru hæstánægð með tónlistina og nýju fjölmiðlalögin. Ég sá reyndar hvorki Thor Vilhjálmsson Sigurð A. Magnússon, sjálfssagt hafa þeir verið komnir í dauðaherbergið snemma, eða kannski drápust þeir bara í partýinu á undan. Hafa farið of geyst í hvítvínið. Sjálfur var ég bara rólegur og lét mér nægja að drekka þrjá bjóra áður en ég kom.

Það sem stóð hins vegar ótvírætt uppúr, var þegar ég, í hléi, gerði mér ferð á salernið, sem er svosem ekki í frásögur færandi - nema hvað, ég verð var við að hávaxinn ljóshærður maður gengur á eftir mér. Ég lít við og hvern haldið þið að ég hafi séð? Jú, engan annan en forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, á leiðinni á pissiríið. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar, að pissa við hliðina á forsetanum og kannski mæla út forsetaslátrið. Því voru það gríðarleg vonbrigði fyrir mig þegar Ólafur brá sér inn í klefa og læsti á eftir sér. Kannski var hann að kúka, eða þá að það er siður eða hefð að forsetar pissi sitjandi (e-ð sem Vigdís hefur komið í reglur). Ég held hins vegar að hann sé bara orðinn leiður á að allir séu að reyna að sjá hversu langan forseta forsetinn er með. Ég get rétt ímyndað mér að það sé dáldið pirrandi, en það er hins vegar ekki það sem skiptir máli. Það er nefninlega breiddinn sem gerir gæfumuninn, eða svo skilst mér. Ekki það að ég viti neitt um það, ekki hef ég prófað nein typpi né heldur hef ég möguleika á því. Og þó, ég þarf kannski engin leggöng. Nei, ég gæti reynt að fá nokkra mismunandi í endaþarminn og myndað mér síðan skoðun. Já, heyrðu, ég búinn að vera alltof lokaður, hef bara læst mig upp í fílabeinsturni gagnkynhneigðar minnar of lengi. Ég ætti bara að leyfa einhverjum að brúnka sinn fílabeins turn í mér, það myndi létta mér víðsýnina.
En þetta er náttúrulega útúrdúr.

Eftir tónleikana reyndi ég að komast í eftirpartý hjá Garðari Cortes en allt kom fyrir ekki.