fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Ég hef nokkrum sinnum áður yfir ævina flutt mig um set, og þá er ég ekki bara að tala um mig sem holdtæka eind í tíma og rúmi, heldur líka þetta stafræna aukasjálf mitt sem talar til þín nú, þessi framlenging af því yfirborði sem sál mín, ef hún lúrir einhvers staðar ósönnuð og kjarnalaus innan vefja minna, hefur viljað birta umheiminum, mál hennar þýtt í hugsanir, letur, kóða, forritun og rafmagn. Og nú hefur mig borið að enn einum slíkum ósi: ég ætla að flytja skrif mín á aðra síðu. Breytingin hefur engin önnur tímamót í för með sér en þau sem felast í henni sjálfri; áhugasömum lesendum (ef ég get gerst svo djarfur að skeyta saman þessum tveimur orðum þegar ég tala um móttakendur þessara skrifa) ættu hér eftir að leggja á minnið að nýja slóðin er

freinarsson.bloggar.is

Sum sé, nánast alveg eins. Tekur því varla að standa í þessu. Og svo flyt ég mig örugglega aftur.

Þessari breytingu fylgja einnig heit. Ég ætla að reyna, leggja mig allan fram, að vera einn af þessum náungum sem bloggar á hverjum degi. Það er kannski fram úr hófi bjartsýnt - segjum hverjum virkum degi. Þetta vex mér strax dálítið í augum, sérstaklega í ljósi þess að ég ætlaði varla að drífa þessa færslu til enda. Lesendur geta þá átt von á færslu á nýju síðunni á morgun, þótt þeim væri að sjálfsögðu hollara að reyna að fyrirbyggja öll vonbrigði og forðast allt tal um háleit markmið og drauma rétt eins og í daglega lífinu þegar vel lætur.

Góðar stundir.