sunnudagur, júní 24, 2007

Ríkissjónvarpið brást ekki fræðsluskyldu sinni þessa vikuna og sýndi tvær heimildamyndir um aðkallandi málefni. Sú fyrri fjallaði um hvernig hlýnun jarðar og bráðnun er ekki einvörðungu komin til manna vegna og ekki endilega ávísun á heimsenda eins og sumir svartsýnismenn hafa viljað meina. Þetta fannst mér gleðilegur boðskapur af því að ég styð atvinnulíf og finnst álverum, olíuhreinsistöðvar og annar orkufrekur iðnaður áhugaverður kostur í atvinnulífi þjóðarinnar. Þess fyrir utan finnst mér gaman að keyra bílinn minn og er búinn að borga of mikið í bílalán til að fara að hjóla upp brekkur eins og heimskingi. En strax næsta kvöld var sýnd mynd þar sem fullyrt var að hlýnun jarðar væri á ábyrgð manna og að það væri skylda okkar gagnvart komandi kynslóðum að spara orku og finna upp orkugjafa sem ekki brenna jafn miklu kolvetni og þeir sem við höfum. Mér fannst erfitt að mynda mér skoðun og skipti því yfir á Skjá1 (það er því miður búið að rugla Sirkus) og horfði á skemmtilegan þátt af Life according to Jim. Gömul kærasta Jim kom í heimsókn og það var uppi fótur og fit á heimilinu þegar slettist upp á vinskapinn milli gömlu kærustunar og eiginkonu Jims. Ég samsamaði mig vel með viðfangsefni þáttarins því ég dreg í efa að minni konu myndi líka það vel ef einhver af mínum gömlu vinkonum bankaði upp á, þó að það sé sennilega ekki að fara að gerast.

Góðar stundir!
Fr. Pjetur Zoëga

fimmtudagur, júní 21, 2007

Feit börn

Það er kominn tími til að ég láti rödd mína á ný hljóma í umræðu þjóðþrifamála. Ég hef verið að fylgjast með framvindu mála í Íslandi í dag síðastliðnar vikur, og litist, eins og gengur og gerist, vel á sumt í þjóðfélaginu en verr á annað. Mér þótti í meira lagi spennandi, en um leið átakanlegt, að fylgjast með málum konunnar sem hefur átt við fíkniefnavanda að etja þangað til í síðustu viku að hún varð ólétt um leið og hún lenti á götunni, alveg staurblönk. Sem betur fer rættist úr þessu hjá henni, elskunni - félagsmálayfirvöld sáu sóma sinn í að koma henni til bjargar. Svo þótti mér skemmtilegt að sjá viðtölin við útrásarstrákana Ólaf Ólafs hjá Samskipum og Hannes Smárason (að ég held, eða var hann ekki annars þarna) og alla dugnaðarforkana sem hafa komið ár sinni vel fyrir borð. Það verður spennandi að fylgjast með eftir tíu ár þegar hann, þ.e.a.s. Ólafur, heldur upp á sextugsafmælið sitt, en hann lofaði að það yrði enn glæsilegra en þetta um daginn með Elton John. Vona að ég verði á lífi þá.

En fátt er svo með öllu gott að það sé ekki hafið yfir gagnrýni. Í umfjöllun um veður hefur verið bætt við nýju korti, þ.e. krakkaveðrinu, sem er svo sem gott og blessað - það er vissulega mikilvægt að börn komist sem fyrst inn í veðurumræðuna - en þar eru börnum sýndar myndir sen sýna þeim hvernig þau eigi að klæðast daginn eftir. Glettilega oft eru þau hvött til að vera í stuttbuxum, þó sýnu betra væri að þau væru í léttum buxum yfir stuttbuxurnar, þannig að þau geti brugðið sér úr ef veður leyfir. Ég myndi hins vegar mæla með að foreldrar kaupi léttar göngubuxur - eins og ég geng iðulega í sjálfur - en þær eru þannig úr garði gerða að skálmunum má renna af með lítilli fyrirhöfn. Á Íslandi eru veður válynd og ekki óska ég mínum börnum að koma heim með blöðrubólgu. Það sem mér þykir þó verst við þetta spákort eru myndirnar af börnunum á kortinu, „fyrirmyndirnar“ sem veðurfréttamaðurinn eða -konan bendir á og segir okkar börnum að líkja eftir. Börnin á kortinu eru öll með tölu spikfeit, hreinlega kringlótt, og er það mér til efs að hægt sé að fá keyptar út úr búð stuttbuxur eða úlpur, hvað þá regngalla, sem eru nógu stór til að passa. Þess fyrir utan skil ég ekki að þau eigi á annað borð erindi úr húsi, þau líta varla út fyrir að geta hreyft sig án þess að mása og blása, suða og rella um að fá að komast aftur inn úr vonda veðrinu og fá sælgæti að borða. Af hverju eru engar myndir af eðlilegum börnum á kortinu? Hvers eiga grönn börn að gjalda? Hvað leggst veðurfréttamönnum Stöðvar 2 til? Vita þeir ekki að hjarta- og æðasjúkdómar eru að öllum líkindu mest aðkallandi heilsufarsvandamál á Íslandi í dag (og vísa ég hér í samnefndan þátt)? Það hlýtur að vera aðkallandi verkefni fyrir uppalendur, í þjóðfélagi þar sem sjónvarpið er farið að spila sífellt stærri rullu í lífi fólks, að uppræta slík mein - en ekki auglýsa þau og hafa til eftirbreytni.

Góðar stundir,
Friðgeir Pjetur Zoëga.