sunnudagur, mars 26, 2006

Nýbylgjan

Ég er spámaður. Ég hef fyrir nokkru útlistað hvernig hressisminn/hessistensialisminn, sem andstætt afl við uppljómun, sé ekki aðeins væntanlegur heldur varanlegt ástand mannkynsins. Hafi einhver áhuga á að sjá fram yfir hið greinanlega og hið áþreifanlega má sá hinn sami vita að vilji hans er einungis til að særa upp óhamingju hans, leiða og þrá sem verður ekki uppfyllt með efni - m.ö.o. verður ekki uppfyllt með neinu. Raunar var ég að fjalla um leiklist í þeim pistli sem ég vísa nú til, en ég fullyrði hér að stefnan á við allar formgerðir sem við hljótum að keppast við að halda óbreyttum svo hægt sé að reiða hendur á veruleikanum. Ég hef jafnframt haldið fram að útvarpsstöðin Bylgjan sé sennilega ötulasti málsvari hressismans hér á landi og að hún hafi - með miklum ágætum - gengið hvað hvað harðast fram í blinda sýn okkar á hvað sýn okkar er blinduð. Eiga forsvarsmenn hennar fyrir þetta þakkir skyldar. En jafnframt megum við ekki gleyma öðrum útvarpsstöðvum sem hafa lagt sitt af mörkum í baráttunni. Nægir þar að nefna Kiss FM, FM 957, Létt FM og að sjálfsögðu Gullið sem var og hét. Þessar stöðvar hafa sýnt lofsvert framtak í að forðast fjölbreytni, frumleika, umrót og annan rugling sem hefur óumdeilanlega slæm áhrif á sálarlíf okkar.

En ágætu hressistensialistar til sjávar og sveita. Ávarp mitt er ritað í þeim sára einfalda og ótvíræða tilgangi að fagna einlægt eins og barn þeirri ákvörðun sem forsvarsmenn Bylgjunnar hafa tekið, nú á 20 ára afmæli Bylgjunnar (sem í sjálfu sér er kampavínsins virði), að sameina undir einn hatt Bylgjuna, Létt FM og gamla Gullið, sem og stofna nýja stöð sem mun einbeita sér að léttri rokktónlist (U2, Coldplay, Sting og einhverju létta og skemmtilegu frá 9. áratugnum) og mun bera heitið - gerið ykkur tilbúin - einn, tveir og nú - NÝBYLGJAN!!! :):);)

Eins og glöggir lesendur muna er eitt af heitum umræddrar stefnu, til hliðar við þá tvo sem notast er við í fyrstu efnsgrein þessa skjals, einmitt Nýbylgja, og er það tilefni broskarlasetningarinnar hér að ofan - ekki skilja það sem háð (ég vil alls ekki að fólk lesi þessa grein sem háð:). Það er jafnframt þess vegna sem ég segi hér að framan að ég sé spámaður. Smá grín af minni hálfu. Svona til að létta upp á hversdaginn. Gamla Bylgjan mun áfram heita Bylgjan og ef eitthvað er að marka auglýsingarnar (sem ég sé reyndar ekki nokkra ástæðu til að draga þær í efa) þá mun hun halda fyrri stefnu og spila afurðir tónlistammanna á borð við Sheryl Crow, sem ég vel að merkja elska. Gull mun heita Bylgjan Gull og á auglýsingunni fyrir hana má líta spaðann og hjartagosann Tom Jones - glæsileg auglýsing það, enda er Tom Jones jú hvers manns hugljómi. Og Létt fetar ekki erfiðu leiðina í nafnavali og mun hreinlega bera heitið Bylgjan Létt. Hér er það engin önnur en krúsidúllan kræsilega Mariah Carrey sem er á auglýsingunni og tel ég að nokkuð skýra ábendingu um efni stöðvarinnar megi lesa úr þeirri myndbirtingu. Vart þarf að taka fram að Mariah er nánast hin fullkomna kona, í útliti og eiginleikum eins og brúða en syngur eins og engill og þegar ég dey (án þess að ég vilji hugsa það frekar) vona ég að Mariah Carrey syngi fyrir mig á himnum.

Það telst varla ofsögum sagt að undirritaður hugsi sér gott til glóðarinnar og hlakki til hlustunar í leik og starfi um ókomna tíð. Ef ég kvíði einhverju þá er það að þurfa að velja á milli.

Lifi augnablikið, lifi blindan, lifi lífið.
Bravó fyrir Bylgjunni! Bravó!

Góðar stundir :)

sunnudagur, mars 12, 2006

Upp á síðkastið hef ég orðið var við að lífið er í sjáfu sér ófullnægjandi, í raun þung byrði og óumflýjanleg þjáning. Þegar öllu er á borninn hvolft orsakast þessi þjáning af endalausri löngun, þrá og eftirsókn eftir hlutum. En einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að hægt sé að stöðva þjáningu með því að hætta hreinlega að þrá og langa.

En hvernig ætli maður geri það?

Jú, með því að fylgja hinu göfuga. Mig langar að fylgja hinu göfuga. Ég þrái að fylgja hinu göfuga.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Skylda hins pirraða

Ekki kaupa hp-tölvu. Aldrei kaupa hp-tölvu. Niður með Opin kerfi.

Góðar stundir!