mánudagur, ágúst 27, 2007

Hjólaði næstum því veg fyrir sporvagn um daginn eftir að hafa brotið umferðarreglur. Vart er hægt að hugsa sér miðevrópskari dauðdaga.

Hugsa að ég fari bara að síga heim.

mánudagur, ágúst 20, 2007

Á skrifstofutímum, reyndar líka stundum á kvöldin og um helgar, en þá að jafnaði í 8 stundir í senn (e.t.v. væri hægt að nota hugtakið vaktavinna í þessu samhengi), situr tiltölulega illa tilhafður, svartklæddur og útitekinn maður á sama bletti, á rist fyrir utan pósthúsið beint á móti íbúðinni minni. Oftar en ekki hefur hann í frammi ræður, með tilheyrandi handapati, sem hann beinir að skiltum og lofti í nánasta nágrenni, tölur mér illskiljanlegar, en þar gæti takmörkuð kunnátta mín í tungumáli heimamanna riðið baggamuni. Ég sé hann iðulega út um gluggann eða þegar ég bregð mér út á svalir. Þegar hið seinna á við finnst mér eins og hann reyni að hafa samband við mig með bendingum og merkjasendingum. Hvað hann vill mér, og hvort hann vill mér nokkuð á annað borð, er mér algjörlega á huldu. Þrisvar hefur hann orðið á vegi mínum (eða ég á hans) á öðrum stöðum í borginni: í fyrsta skiptið í nágrenni við fjölfarna lestarstöð, næst á Rosenthaler-torgi í skrefa fjarlægð frá heimili mínu, og þar með aðsetri hans, og nú síðast fyrir utan eftirlætiskaffihús þar sem ég sat í sólinni og drakk límónaði. Í öll skiptin var ég uggandi um að hann teldi nærveru mína uggandi; að hann þekkti mig af svölunum og teldi sennilegt að ég væri að veita honum eftirför. Mér finnst nefnilega sennilegt að hann sé sú manngerð sem býr yfir ranghugmyndum og gefur sér óeðlilegar orsök fyrir samhengi hluta og uppröðun þeirra í veröldinni, þ.m.t. nærveru ákveðinna einstaklinga þar sem þeirra er ekki vænst. Því hef ég eftir fremsta megni, þegar ,,fundum'' okkar hefur borið saman, lagt fæð á hann og farið huldu höfði svo hann bæri ekki kennsl á mig. Sem betur fer hefur hann, að því er virðist, ekki enn veitt mér eftirtekt. Ég findist óþægilegt að eiga eitthvað sökótt við þennan mann, hvaða ástæður sem kunna að búa þar á bak við.









miðvikudagur, ágúst 08, 2007

Lúkas 1

Add to My Profile | More Videos
Þegar tiltölulega skammt var liðið á dvöl mína hér í borg (en ég er staddur í höfuðstað Þýskalands), spurði skólabróðir minn, verðandi doktor í sagnfræði frá Bandaríkjunum, í kurteislegu spjalli tveggja tiltölulega ókunnugra manna frá sitthvoru landinu, hvað væri helst að frétta frá mínum heimaslóðum. Ég sagði honum eins og var, að þegar ég steig upp í flugvél hefði verið í hámæli fréttir af meintu hundsmorði; að í bæ í norðurhluta landsins, ekki svo mjög stórum, hefði sérræktaður kjölturakki, í sérstöku uppnámi vegna geldingaraðgerðar, strokið af heimili sínu og lifað af nokkrar vikur eða mánuði í viltri náttúru, til þess eins að vera myrtur af reykvískum bílaáhugamönnum sem höfðu tekið sér hlé frá megin áhugamáli sínu til að sparka hundinum á milli sín í íþróttatösku.

Af einhverjum ástæðum hafði Bandaríkjamaðurinn fram til þessa farið varhluta af fréttflutningi tengdum þessum atburðum. Engu að síður tók hann tíðindunum með aðdáunarverðri ró og sagði að sér fyndist þetta í sjáflu sér ekki í frásögur færandi. Ég tók undir skoðun hans.

Stuttu seinna gerði ég mér far um að nálgast íslenskan sjónvarpsfréttatíma á veraldarvefnum. Ein af fyrstu fréttunum fjallaði um blysför og minningarathöfn þar sem hundurinn óheppni var tregaður. Ekki svo löngu seinna, í öðrum fréttatíma, var andlátstilkynningin borin til baka; til hans hafði sést í hlíðunum fyrir ofan Akureyri þar sem fjölmennur hópur fólks leitaði hans. Þeir sem áður höfðu fengið líflátshópanir voru beðnir velvirðingar. Daginn eftir fékk þær upplýsingar frá víðfemustu veffréttaveitu, að þvert á spádóma mína og efasemdir hafði rakkinn skilað sér upp í kjöltu eiganda síns, með öllu ódauður.Eftir þetta sór ég þess heit að leggja fæð á fréttaflutning frá heimalandi mínu.

Bandaríkjamanninum fannst málið vissulega spaugilegt, en sagði það þó löndum mínum til málsbóta, þegar ég gerði mig í stakk búinn að formæla þeim fyrir molbúahátt og sinnuleysi í garð háleitra málefna, að í sínu heimalandi væri ástandið ekki aðeins jafnslæmt, ef ekki verra. Í samræðum okkar á milli komumst við að því að þetta væri eftir allt saman eðli megin þorra frétta: þær væru flestar neytendum sínum með öllu gagnslausar.

Eftir þó nokkuð gláp á hérlenda sjónmiðla hef ég orðið þess áskynja að ég hef nánast einskiss orðið áskynja. Megnið af þeim upplýsingum sem ég meðtek úr sjónvarpinu eru rusl og síðan þarf ég rýna annars vegar í hvað nýtist mér sem manneskju, sem mannfélagsþegn, en hins vegar hvaða fréttir eru lesnar einungis í þeim tilgangi að hafa ofan af fyrir mér. Áhugi Berlínarbúar um þessar mundir beinis til dæmis einna helst að uppvexti ísbjarnarunga í dýragarði, hugsanlegum búferlaflutningi Brad Pitts til borgarinnar (sem og brestir í hjónabandi hans og Angelinu Jolie), og vinfengi Tom Cruise (sem um þessar mundir leikur nasista í sögulegri stórmynd) við knattspyrnuhetjuna David Beckham. Ekkert af þessu skiptir neina manneskju raunverulegu máli.

Þetta er engu að síður ekki réttlæting fyrir smáborgaralegri hegðun. Hér vil ég mælast til þess að Íslendingar nýti sér gúrkufréttaþófið í kringum andlát og upprisu hundsins Lúkasar sem sýnidæmi um að það er munur á gagnlegum og gagnslausum upplýsingum; nú vitum við -svart á hvítu- hvaða fréttir skipta okkur engu máli, en kannski hjálpar það okkur að sjá hvenær við fjöllum um eitthvað sem varðar okkur í raun og veru. Kannski.
Lúkas 2

Add to My Profile | More Videos