fimmtudagur, desember 01, 2011

ný síða/new page:
www.fridgeireinarsson.com

bkv./BG
friðgeir

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Ég hef nokkrum sinnum áður yfir ævina flutt mig um set, og þá er ég ekki bara að tala um mig sem holdtæka eind í tíma og rúmi, heldur líka þetta stafræna aukasjálf mitt sem talar til þín nú, þessi framlenging af því yfirborði sem sál mín, ef hún lúrir einhvers staðar ósönnuð og kjarnalaus innan vefja minna, hefur viljað birta umheiminum, mál hennar þýtt í hugsanir, letur, kóða, forritun og rafmagn. Og nú hefur mig borið að enn einum slíkum ósi: ég ætla að flytja skrif mín á aðra síðu. Breytingin hefur engin önnur tímamót í för með sér en þau sem felast í henni sjálfri; áhugasömum lesendum (ef ég get gerst svo djarfur að skeyta saman þessum tveimur orðum þegar ég tala um móttakendur þessara skrifa) ættu hér eftir að leggja á minnið að nýja slóðin er

freinarsson.bloggar.is

Sum sé, nánast alveg eins. Tekur því varla að standa í þessu. Og svo flyt ég mig örugglega aftur.

Þessari breytingu fylgja einnig heit. Ég ætla að reyna, leggja mig allan fram, að vera einn af þessum náungum sem bloggar á hverjum degi. Það er kannski fram úr hófi bjartsýnt - segjum hverjum virkum degi. Þetta vex mér strax dálítið í augum, sérstaklega í ljósi þess að ég ætlaði varla að drífa þessa færslu til enda. Lesendur geta þá átt von á færslu á nýju síðunni á morgun, þótt þeim væri að sjálfsögðu hollara að reyna að fyrirbyggja öll vonbrigði og forðast allt tal um háleit markmið og drauma rétt eins og í daglega lífinu þegar vel lætur.

Góðar stundir.

miðvikudagur, október 31, 2007

Hausthækan

Brá mér til Berlínar um helgina að hitta borgina og nokkra góða vini, þar á meðal Sebrarjúpuna okkar sem kurrar friðuð í bláum lyngmóum menningarinnar og unir sér vel. Svefn og annir þessara vina gáfu mér þó rými til að ganga um haustslegnar göturnar og virða fyrir mér visnað mannlíf. Ég fékk mér kaffi í götumál og settist á bekk í garði þar sem menn og hundar gengu hjá undir laufregni. Mér fannst eiginlega ekkert annað viðeigandi að semja hæku sem umsvifalaust braust út í framheilann, nánast fullsköpuð ef frá er talinn síðasta línan sem ómyndaðist við að myndast, rétt eins og hún tregaði sumarið og vildi þess vegna varna því eins lengi og mögulega væri unt að ég kæmi blæ- og árstíðarbrigðum í orð. Ég var búinn að ákveða að línan hæfist á orðinu "Garðurinn" - 3 atkvæði sem þýddi að ég átti 2 eftir, upplagt til að enda á andlagslausri sögn; "Garðurinn þagnar" eða "Garðurinn þegir" var meðal þess sem ég var að hugsa en það passaði ekki alveg. Það var hreyfing og hljóð í þessum garði þótt hann týndist hægfara og sveimandi niður á jörðina. Þá bar að mann sem virtist ekki með nokkru móti gera sér grein fyrir að ég var að semja hæku, og gat sér þess til að vera mín á bekk í almenningsgarði klukkan hálfellefu um morgun gæti ekki fyrirstillt annað en að mig vantaði eiturlyf – sem hann og bauð mér. Hugur minn og sál var hins vegar í svo eftirsóknarverðu jafnvægi sköpunar að ég hafnaði boðinu ítrekað. Og nú datt mér í hug, fullur af kerskni og galgopahætti, að hafa lokalínuna í hækunni “Garðurinn býður mér eiturlyf”, en það er að sjálfsögðu allt of mörg atkvæði og auk þess óljóðrænt. Ég breytti hins vegar uffsiloni í einfallt og lét það standa: “Garðurinn bíður”. Hækan hljómar því svona, fullsköpuð og fullkomin:
-

Gul laufblöð falla.

Ég kom með tvö sokkapör.

Garðurinn bíður.
-

Unnendur ljóðlistar bið ég vel að lifa. Góðar stundir.

þriðjudagur, október 23, 2007

Að frátöldum kaupum mínum á sjúkratryggingu hefur allt gengið að óskum hér í nýja heiminum. Ég þurfti að ganga í gegnum viðamikið skráningarferli sem fól í sér greiðslu á 175 evrum og samningaviðræður við sjúkrasamlag sem fólu í sér höfnun tryggingarsala á gagnsemi og gildi íslenskra almannatryggingakerfisins í löndum Evrópusambandsins. Í kjölfarið, knúinn áfram af tómleikatilfinningu og upgjöf, féllst ég á að greiða 58 evrur á mánuði, í fimm mánuði fyrir alhliða sjúkratryggingu. Útgjöld af þessari stærðargráðu þóttu mér nokkuð blóðug, einkum í ljósi þess að ég hef þegar greitt umtalsverð gjöld fyrir skólavist mína á Ísafold.

Raunar hefur það komið á daginn að evrurnum 175 var vel varið, því um það bil viku eftir skráningu gat ég sótt svo kyngiblandið rafrænt kort að mér er hreinlega til efs að nokkuð viðlíka hafi fyrr fallið í hendur Íslendings. Þegar ég munda kortið, sem er raunar ansi oft yfir daginn, viðrist mér framtíðin hafa nú þegar hafa yfirtekið veruleikan með kenjum sínum og undrum. Geta lesendur nú gert sért í hugalund að ekki er hér um venjulegt stúdentaskírteini að ræða, sönnun þess að handhafi þess stundi nám við tiltekinn skóla. Nei, tökum sem dæmi virkan dag: hér hef ég möguleikann á að taka strætisvagn í skólan (ef almenningssamgöngur hér í bæ væri ekki til háborinnar skammar) og framvísa kortinu í stað fargjalds. Detti mér í hug að fá mér kaffibolla úr þartilgerðri vél í skólanum legg ég kortið á skynjara sem dregur verð drykkjarins frá ákveðinni innistæðu sem ég hef greitt fyrir með seðlum í annarri vél. Upplýsingarnar fær vélin úr segulskífu sem kortið inniber. Eftir erfiða kennslustund er sennilegt að á mig sæki hungur. Þá fer ég einfaldlega í mötuneyti skólans og greiði 2 – 3 evrur fyrir máltíð með sama hætti og kaffið áður. Eftir matinn endurheimti ég pant fyrir bollann ég drakk kaffi úr með því setja hann í enn aðra sérsmíðaða vél. Pantið, 1 evra, er einfaldlega lagt aftur inn á kortið. Hugsið ykkur, ég sé seðla eingöngu þegar ég legg inn á kortið. Og ef prófessorinn skyldi hafa lagt eitthvað fyrir þá get ég tekið út bækur á bókasafninu með sama korti, já, eða ljósritað ef til þess er ætlast og tekið síðan strætisvagn heim (ef ég væri ekki á hjóli). Nú gæti svo farið að eitt af því sem ég tæki mér fyrir hendur heimafyrir væri að þvo þvott. Enn og aftur greiði ég fyrir þvottinn með því að leggja kortið á ákveðinn skynjara. Og í hreinum og stroknum fötum er erfitt að hugsa sér að sitja heima við og láta sér leiðast. Best að skella sér á tónleika í Frankfurt, sjá jólatónleika Boney M eða eitthvað skemmtilegt. Haldið þið að ég framvísi ekki bara kortinu í lestinni, það tryggir mér endurgjaldslaust ferðir í öllu Neðra-Hessen, hvert sem mér dettur í hug að fara, Kassel, Marburg, Wiesbaden, Siegen, hvert sem mér dettur í hug.

Það var hins vegar erfiðara að sjá hvað kostir, hvort heldur sem eru rafrænir eða efnislegir, fylgdu því að hafa sjúkratryggingu. Ég var eiginlega kominn á þá skoðun að fyrst að ég væri látinn greiða svona háa upphæð væri eiginlega eins gott að ég myndi lenda á spítala, eins gott að ég myndi krækja mér í alvarlega salmonellusýkingu, eins gott að ég verði grandvaralaus barinn í hnakkan á kvöldgöngu, eins gott að óprúttinn glæpamaður brjóti upp á mér hrygginn og dragi úr mér mænuna og noti hana til að halda mér kverkartaki meðan samverkamaður hans sagar af mér fæturnar með keðjusög, væntanlega í þeim tilgangi að selja þá sem kebabsúlur, Eins gott að hann segi ,,Ofar” við manninn með sögina og bendi honum á að saga alveg við nárann. Eins gott að ég segi þá, dasaður og líkamlega tilfinningalaus eftir mænutökuna en þó enn meðvitaður um ytri ásjónu mína sem mannvera, sem maður, ,,Bitte, ich flehe Ihnen an”. ,,Haben Sie keine Krankenversicherung?” væri eins gott að hann myndi spyrja, ,,Zwar”, ,,Dann brauchen Sie keine Sorgen haben”. Eins gott að hann þenji vélsögina og haldi áfram. Eins gott.

Eins gott að þetta var allt tekið til baka. Eftir nokkrar dálitla eftirgrennslan og eftir að hafa haldið stutta kynningu í sjúkrasamlaginu á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og þýðingu þess að vera meðlimur í Evrópska efnahagssvæðinu, var þýska samningum rift, hann bókstaflega rifinn og ég beðinn afsökunar. Ég var eftir allt saman tryggður á minni fósturjörð þó að höf skilji að og ég þarf ekki að borga neitt. Og ég get fagnað því að vera heill heilsu.

sunnudagur, október 14, 2007

Þegar ég flutti inn var ég beðinn um að yfirfara að eftirfarandi atriði væru í lagi:

1 Einbaauschrank (innbyggður skápur)
1 Bettgestell mit Bettkasten (rúm)
1 Gummimatratze mit Stoffbezug (dýna med yfirlagi)
1 Tisch (klein) ((lítið) borð)
1 Schreibtisch (skrifborð)
1 Regal (hängend 2X4 Bretter) (hillur)
1 Shreibtischstuhl (skrifborðsstóll)
1 Sessel (gepolstert) (hægindastóll)
1 Deckenlampe (loftljós)
1 Toilettenschrank m. Leuchte (baðskápur)
1 Waschbecken (handlaug)
1 Handtuchhalter (handklæðahengi)

1 Zimmerschlüssel (herbergislykill)
1 Briefkastenschlüssel (lykill að póstkassa)

Ég hafði litlar sem engar athugasemdir.

miðvikudagur, október 03, 2007

Endurkoma mín til Thyskalands markar endurkomu mína inn í bloglandslagid, thó ad ég dragi í efa ad theim tídindum verd sérstaklega fagnad, ég hef jafnan verid fjarlaegur og ógreinilegur á theirri mynd. Ekki er haetta á ödru en ég verdi thad áfram hér, skyggnid er ekki gott hér í Giessen, loftid blandid raka og koltvísýringsfýlu, 20°C, sannkallad sumarvedur.

Thegar ég kom í gaer virtist vera einhvers konar síesta, alla veganna thurfti ég ad bída fram á kvöld eftir ad fá afhenta lyklana og thad reyndist bara dáldid erfitt ad finna opid veitingahús. Thetta er ekki okkar venjulega adstada, sagdi madurinn sem sá um ad úthluta lyklum og samningum og lyklum, eins og til ad bidjast afsökunar á útliti húsvardarskrifstofunnar, vid veljum ad vera hér um stundarsakir ad thví ad thetta er svo nálaegt brautastödinni. Sídan vorum vid trufladir af tveimur spaenskumaelandi stúlkum úr byggingunni sem ég var um thad bil ad flytja inn í. Thaer óskudu eftir ad fá ad skipta um herbergi og sögdust myndu hafa kosid ad búa annars stadar ef thaer hefdu séd myndir á netinu. Madurinn gat ekkert gert fyrir thaer, samningurinn vaeri bindandi en skutladi theim til baka í Unterhof um leid og hann skiladi mér thangad.

Herbergid er lítid en dugar. Thad er líka ljótt en dugar. Ég bedinn um ad gá hvort allt vaeri á sínum stad. Í herberginu á ad vera rum, skrifbord, lampi, skápur, hillur, thaegindastóll, vaskur, badskápur, hanki til ad hengja handklaedi á. Gluggi. Dótid mitt. Ekkert fleira inni í herberginu. Ég er nidri í bae. Ég gleymdi ad koma med tannbursta. Thad er Thjódhátídardagur en Thjódverjar virdast ekki jafn sólgnir í thjódhátídarstemningu og nafnid gefur til kynna. Thad er allt lokad en engar skrúdgöngur, engir skátar, ekkert kandífloss, enginn kór, engin leiktaeki, engin hljómsveit á stóru svidi, ekkert drasl, engin unglingadrykkja. Ekkert fólk. Eina búdin sem er opin er Afro American Cosmetics. Thar er ekki haegt ad kaupa tannbursta. Í thessum bae er eiginlega bara haegt ad kaupa kúluís. Hugsa ad ég kýli bara á thad.

mánudagur, ágúst 27, 2007

Hjólaði næstum því veg fyrir sporvagn um daginn eftir að hafa brotið umferðarreglur. Vart er hægt að hugsa sér miðevrópskari dauðdaga.

Hugsa að ég fari bara að síga heim.